Þriðjudagur 18. júní, 2024
7.7 C
Reykjavik

Útlitskúgun eða ofurviðkvæmni fyrir gagnrýni?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ef þú ert óánægð/ur með nefið, eyrun, poka undir augum, hrukkurnar, hökuna, bingóvöðvana á handleggjunum … jafnvel kynfærin, geturðu látið laga „gallana“ hjá lýtalækni. Þú getur meira að segja farið í skurðaðgerð til að láta breyta þér í uppáhaldsstjörnuna þína.

Ef þú ert of feit/ur stendur þér svo ótrúlega margt til boða. Þú getur farið í heilsurækt, fengið þér einkaþjálfara, þú getur keypt pillur, te, duft, meira að segja grennandi skó … og hvaðeina sem á að gera þig eins og fyrirsætuna sem tilheyrir þeim 5% mannkyns sem hafa þetta eina „rétta“ útlit.

Eitthvert fólk úti í heimi og hér á Íslandi stórgræðir á því að líkamsmynd fólks sé brengluð og að það reyni allt til að breyta sér.

Að hugsa sér, að það skuli geta verið í tísku að vera með stór brjóst – eða lítil brjóst, að eitthvað þyki í alvöru betra en hitt, og jafnvel eitthvað sem engin leið er að breyta þótt vilji væri fyrir því … eins og „of“ stuttur háls eða „of“ langur háls … þetta er svolítið eins og að halda því fram að tyggjóplötur séu betri/verri en tyggjókúlur.

Vissulega er óhollt að vera of feitur eða of grannur en um leið og við erum orðin sáttari í eigin skinni gengur okkur betur að ná markmiðum okkar og verða heilbrigðari.

Skotleyfi á grannt fólk

- Auglýsing -

Síðustu árin hefur vörn verið snúið í sókn á ýmsan hátt í þessum málum og svo virðist sem nokkur hugarfarsbreyting hafi átt sér stað hjá mörgum og er það af hinu góða.

Mörg okkar eru svo ósátt við útlitið að við eyðum stórfé í að reyna að breyta okkur í eitthvað sem við erum ekki og getum ekki orðið. Kannski er hrein sölumennska ástæðan. Megrunariðnaðurinn einn veltir að minnsta kosti milljörðum á milljarða ofan á hverju ári og lýtalæknar hafa nóg að gera við fegrunaraðgerðir.

Karl Lagerfield tískuhönnuður komst í útlitsumræðuna eitt sinn þegar kvennahópurinn „Belle, Ronde, Sexy et je m’assume“, eða „Fallegar, þéttvaxnar, kynþokkafullar og ánægðar með það“, ákváðu að kæra hann fyrir ærumeiðingar eða ummæli sem hann lét falla í sjónvarpinu. Karl var risavaxinn fígúra innan tískuheimsins meðan hann lifði og ákaflega leiðandi og þess vegna alvarlegt þegar hann fullyrti að feitt fólk sóaði skattpeningunum með lífsstílstengdum sjúkdómum sínum og gerði þar með því skóna að allt þéttvaxið fólk væri óheilbrigt. Hann ítrekaði þá skoðun sína í þessu viðtali að þéttvaxnar konur ættu ekkert erindi á tískupallana. Mikla athygli vakti einnig þegar hann sagði opinberlega að söngkonan Adele væri of feit en hún svaraði fyrir sig á þá leið að hún væri fulltrúi meirihluta kvenna og væri stolt af því. Hana hefði aldrei langað til að líkjast fyrirsætunum á forsíðum tímaritanna.

Sjálf Oprah Winfrey sem óþreytandi er í því að segja konum að þær eigi að vera þær sjálfar, fellur samt í þá gryfju í tímariti sínu að birta mánaðarlega sjö þúsund ráð um það hvernig við getum breytt okkur.

- Auglýsing -

Sífellt eru gerðar kannanir varðandi útlit og í nýlegri, breskri könnun kom fram að konur í stærð 16 séu hamingjusamastar og sáttastar við eigin líkama. Konur í minni stærðum voru mun gagnrýnni á líkama sinn. Grannar konur fara sannarlega ekki varhluta af gagnrýninni, ekkert síður en þær þéttari, og fá jafnvel að heyra að þær séu ógeðslegar af því að þær séu „of“ mjóar. Fólk hikar frekar við að segja slík orð við fólk í yfirþyngd.

Af hverju má fólk ekki vera eins og það er?

Margar grannar konur vildu gjarnan vera feitari en ná ekki að halda holdum af margvíslegum ástæðum. Stundum eru undirliggjandi sjúkdómar ástæðan, einnig hefur streita áhrif og sumir einfaldlega brenna miklu því þeir hreyfa sig mjög mikið. Og af hverju mega þessar manneskjur ekki vera eins og þær eru? Það er ekki bara ein mynd af fegurð, við erum ólík, sem betur fer.

Ekki er langt síðan að á einum netmiðlanna birtist frétt um að konur með stóran rass væru líklegri til að hafa minna kólesteról í líkamanum en þær sem minni rass hafa, einnig eru þær stærri taldar ólíklegri til að þróa með sér sykursýki og hjartasjúkdóma. Vísindamenn í Oxford uppgötvuðu þetta og rannsóknin tók til 16 þúsund kvenna. Svipuð rannsókn fór nýlega fram í háskólanum í Kaliforníu og Pittsburg ekki alls fyrir löngu og leiddu niðurstöður í ljós að konur með stóran rass, breiðar mjaðmir og minna mitti geta jafnvel lifað lengur. Það virðist sem heilbrigður líkami sé farinn að þykja fallegri en áður, hvort sem rassinn er „of stór“ eða mjaðmirnar breiðar.

Marilyn Monroe þótti fegurst fljóða á sínum tíma.

Marilyn Monroe með stundaglassvöxtinn sinn þótti fegurst fljóða á sínum tíma, tággrönn Twiggy tók við af henni, ekki síður falleg. Vinsælasta og hæstlaunaða fyrirsæta heims, Gisele Bündchen, er mjög grönn en hefur verið sögð „curvy“, líklega vegna þess að hún er með ögn stærri brjóst en margar fyrirsætur. Talað er um stór módel en það eru yfirleitt venjulegar konur. Það er ekkert skrítið þótt unglingsstúlkur verði ruglaðar.

Súpermódel líka með útlitsgalla

Fótósjoppuð súpermódel eru vissulega flott myndefni en módelin eru samt með appelsínuhúð, bólur og ýmsa aðra „galla“ sem „þarf“ að fela. Sú staðreynd að um ¾ hlutar unglingsstúlkna og ungra kvenna eru óánægðir með líkama sinn og að um það bil helmingur unglingsstúlkna fer í megrun, eins og íslenskar og erlendar rannsóknir sýna, er áhyggjuefni og sýnir að þörf er á viðhorfsbreytingu. Mikil óánægja með líkama sinn er áhættuþáttur fyrir þróun átraskana sem og ýtir undir almennt óheilbrigt samband við mat. Óánægjan er ekki bara til staðar hjá ungum stúlkum, heldur báðum kynjum sem og mismunandi aldurshópum.

Stór hluti ástæðunnar er líklega sá að á sama tíma og lífsstíll okkar, matarmenning og minni hreyfing í daglegu lífi stuðlar að ofþyngd og meðalþyngd hefur aukist, hefur ofuráhersla verið á hina „ofurgrönnu staðalímynd“ einkum hvað varðar konur. Fyrirmyndir sem hafa áhrif á t.d. ungt fólk eru yfirleitt mjög grannar; leikkonur, leikarar, söngkonur, söngvarar, fyrirsætur (oft á fótósjoppuðum myndum). Unga fólkið fer að bera sig saman við fyrirmyndirnar, niðurstaðan verður þeim í óhag og það fer að reyna að breyta líkama sínum. Viðhorf foreldra, vina og annarra í umhverfinu hefur að sjálfsögðu mikil áhrif, sem dæmi getur neikvætt viðhorf foreldris til eigin líkama haft mikil áhrif á líkamsmynd barns/ungling. Það er þörf fyrir aukna fræðslu um þessi mál, sérstaklega fyrir börn, unglinga og foreldra.

Að koma þeim skilaboðum á framfæri að „fegurð kemur í mismunandi myndum“ og „að mikilvægt er að leggja áherslu á heilbrigðan lífsstíl“ en ekki „kílóafjölda“ er mikilvægt. Við erum misjöfn að upplagi, fjölbreytileikinn er til staðar í líkamsgerð og líkamsþyngd okkar og mikilvægt að bera virðingu fyrir þeim fjölbreytileika. Þar spila fjölmiðlar, skóli og foreldrar stóran þátt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -