Föstudagur 29. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Vetrargöngur á fjöll eru ekki síðri að fegurð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Bryndís Skúladóttir á margar uppáhaldsgönguleiðir á Austurlandi.

Fyrir sjö árum stofnuðu nokkrar fjallageitur Fjallgönguklúbbinn Fjallhress og síðan þá hafa meðlimir hans gengið á eitt alvörufjall í mánuði, farið í ótal léttari göngur en einnig krefjandi ferðir utan fjórðungs.

„Ég er fædd og uppaldin á Borgarfirði eystra en bjó á Egilsstöðum í um 30 ár,“ segir Anna Bryndís eða Bryndís eins og hún er kölluð. „Ég er mikill náttúruunnandi og fjallageit og hef notið ríkulega þess mikla fjölbreytileika sem Borgarfjörður og Fljótsdalshérað bjóða upp á til náttúruskoðunar og gönguferða. Borgarfjörður er þekktur fyrir sinn formfagra og litskrúðuga fjallahring og er þar meðal annars að finna annað stærsta líparítsvæði landsins. Víkurnar sunnan Borgarfjarðar eru löngu orðið þekkt göngusvæði með mikla sögu og merka jarðfræði. Fljótsdalshérað er hins vegar víðfeðmasta sveitarfélag landsins með gríðarlegan fjölbreytileika í landslagi. Fjölbreytileiki flóru, gróðurs og dýralífs er að sama skapi mikill og má þar nefna heimahaga hreindýra við Snæfell og varpland heiðagæsa á Eyjabökkum sem er fögur gróðurvin á hálendinu austan Snæfells.“

Fyrir sjö árum stofnuðu nokkrar fjallageitur Fjallgönguklúbbinn Fjallhress og síðan þá hafa meðlimir hans gengið á eitt alvörufjall í mánuði, farið í ótal léttari göngur en einnig krefjandi ferðir utan fjórðungs. „Vetrargöngur á fjöll eru ekki síðri að fegurð en á sumrin og er birtan oft ómótstæðileg á þessum tíma. Austurland er algjör fjallgönguparadís og sækjum við heim fjöll til okkar góðu nágranna um allt Austurland. Á fimm árum hafa Fjallhressir gengið á yfir sextíu 1000 m háa tinda og er hæðartala samtals orðin um 36.000 m. Wildboys.is skipuleggja, reka og sjá um leiðsögn Fjallhressra.

Dyrfjöll – Súla (1136 m)

Krefjandi ganga, óstikuð. Gengið frá Brandsbalarétt upp fagran Jökuldalinn sem er mikil hvilft austan Dyrfjalla og einkennist af þursabergi af öllum stærðum og gerðum og áin bugðast fagurlega um slétta grasbala. Ævintýralegt er að nálgast síðan þverhnípt klettastál Dyrfjalla þar sem gengið er inn á jökulfönn við rætur þess. Gengið er inn á blómi skrýdda rák í fjallinu þar sem fara þarf með gát við gjá sem oft er milli jökuls og klettastáls. Fjallið er bratt en stórfenglegt útsýni í stórbrotnu landslagi. Gönguvegalengd er 18 km. Mæli með leiðsögumanni.

Fljótsdalur – Laugarfell á Fljótsdalshéraði

Mjög falleg stikuð gönguleið frá Kleif í Norðurdal í Fljótsdal upp í Laugafell um 12 km leið. Gengið er upp með Jökulsánni sem er þekkt fyrir marga fagra fossa, stóra sem smáa. Gengið er um þéttvaxinn Kleifarskóg og skal varast að láta villt jarðarber sem mikið er af ginna sig um of, því skógurinn er þéttur á köflum og mikilvægt að hópurinn haldi saman. Í Laugafelli er myndarlegt hostel með veitingasölu og dásamlegum náttúrulaugum. Góður vegur er úr Fljótsdal í Laugafell til að komast til baka. Einnig er hægt að ganga frá Kleif allt að Eyjabakkafossi, 20 km leið, og láta sækja sig þangað.

- Auglýsing -

Skælingur (832 m) á Borgarfirði eystra

Skælingur er skemmtilegt göngufjall með stórkostlegu útsýni yfir Loðmundarfjörð, Seyðisfjörð og til Víkur en einnig er einstaklega fallegt útsýni á hinn fagra Hvítserk. Skælingur er stundum kallaður Kínverska musterið vegna einstæðrar lögunar sinnar. Gengið er á fjallið frá akveginum upp á Neshálsi milli Húsavíkur og Loðmundarfjarðar eftir ómerktri leið á tindinn og ágætt er að ganga upp innarlega á fjallinu, vestarlega. Leiðin er brött en stutt þar sem byrjað er í mikilli hæð.

Snæfell (1833 m) á Fljótsdalshéraði

- Auglýsing -

Auðvitað valdi ég Snæfell ,,konung íslenskra fjalla“ á uppáhaldslistann en fjallið er hæsta fjall landsins utan jökla og liggur skammt norðan Vatnajökuls. Fjallið er innan Vatnajökulsþjóðgarðs og er stikuð leið skammt frá Snæfellsskála á fjallið úr suðvestri allt að jökli, gott er að fá upplýsingar hjá landverði um leiðina. Ráðlegt að hafa göngustafi og keðjubrodda meðferðis. Í góðu skyggni er mikið og gríðarfallegt útsýni af fjallinu meðal annars yfir Eyjabakka. Úrval gönguleiða er í nágrenni Snæfells og tilvalið að dvelja á svæðinu nokkra daga og ganga, má nefna Þjófadali, hring um Snæfell og Vatnsdal.

Stórurð á Fljótsdalshéraði

Fáséð furðuveröld sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Þar ægir saman þursabergsbjörgum á stærð við blokkir innan um sléttar grundir og túrkisbláar tjarnir. Dyrfjöll gnæfa yfir í botni dalsins og flikruberg skreytir fjallshlíðar. Hægt er að velja um nokkrar stikaðar gönguleiðir til og frá Stórurð og tilvalið að velja aðra leið til baka en komið var, algengustu leiðir eru um 15 km samtals en einnig er hægt að velja lengri leiðir sem liggja til Borgarfjarðar. Mæli ég þó með upphafi göngu af bílastæði á Vatnsskarði þar sem aðkoman að Stórurð er skemmtilegust og fólk grípur andann á lofti af hrifningu.

Þerribjörg á Fljótsdalshéraði

Nokkuð krefjandi ganga. Ekið frá Hellisheiði eystri og þaðan eftir vegslóða (ekki fólksbílar) að Kattárdalsdrögum, bílum lagt þar við skilti. Stikað er frá skiltinu fram á brún beint ofan við Múlahöfn. Kindagata er frá brún niður um 400 m brattan skriðuhrygg. Frá Múlahöfn er gengið í norður, þar blasir við Þerribjarg og Langisandur. Einstök náttúruperla þar sem fögur og afar litskrúðug líparítbjörg með dökkum berggöngum skreyta svæðið. Leiðin er ekki fyrir lofthrædda og mæli ég með leiðsögumanni.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -