Stéttin er farin að eldast.

Ásgrímur Þ. Ásgrímsson bólstrari hefur verið í bransanum frá barnsaldri enda má segja að hann hafi fæðst inn í fagið. Hann verður sjötugur á árinu og hvergi nærri hættur en segir að nú sé kominn tími til að yngja upp í þessari fámennu starfsstétt.
„Ég lærði hjá föður mínum og var mikið inni á verkstæði hjá honum strax sem krakki. Þegar ég var 16 ára, 1965, hóf ég nám í bólstrun og vann hjá honum til 1976,“ segir Ásgrímur. Faðir hans var Ásgrímur Lúðvíksson bólstrari sem rak verkstæði á Bergstaðastræti 2 í fimmtíu ár.

Fólk kemur með allt milli himins og jarðar í bólstrun en algengastir eru hvers kyns stólar og sófasett. „Það eru margir sem vilja til dæmis eiga tvo gamla stóla innan um nýtískuhúsgögnin og láta þá gjarnan gera þá upp. Oft eru þetta ættargripir eða eitthvað sem fólk hefur vaktað á vefsíðum eða fundið í Góða hirðinum. Vissar manngerðir vilja halda í þetta gamla og láta gera við í stað þess að henda og kaupa nýtt.“
Ásgrímur er formaður Meistarafélags bólstrara og þar er nú unnið að því í samráði við Tækniskólann að hefja nám í bólstrun í samstarfi við tækniskóla í Skive í Danmörku. „Bólstrun hefur ekki verið kennd hér á landi í fjölda ára. Stéttin er farin að eldast og við erum farin að sjá að við þurfum að fara að yngja upp í faginu enda erum við ekki nema um 20 sem störfum við bólstrun og sumir að nálgast það að komast á eftirlaun. Undirbúningur er hafinn í Tækniskólanum í samráði við skólann í Skive.
Ítarlegra viðtal er við Ásgrím í 9. tölublaði Vikunnar.
Texti og myndir / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir