Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Þjálfari kokkalandsliðsins: „Við setjum markið hátt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólympíuleikarnir í matreiðslu fara fram í Stuttgart í Þýskalandi dagana 14.-19. febrúar þar sem 32 þjóðir etja kappi. Matseðill íslenska kokkalandsliðsins var tilbúinn í desember og undanfarnar vikur hafa verið stífar æfingar. Gestgjafinn kíkti á lokaæfingu liðsins fyrir skömmu og það var mikill hugur í fólki.

 

„Áherslan núna á lokametrunum er að skerpa bragðið, fínstilla stærðarhlutföll og ná keyrslunni á réttunum eins vel og hægt er. Við erum með bleikju í forrétt, svartrót, gúrku og íslenskt wasabi. Í aðalrétt er lamba-fillet, íslenskar kartöflur, gulrætur og grænar ertur. Eftirrétturinn samanstendur síðan af skyri, kirsuberjum, mjólkursúkkulaði og dökku súkkulaði,“ segir Sigurjón Bragi Geirsson, matreiðslumeistari, kokkur ársins 2019 og nýr yfirþjálfari liðsins.

Kokkalandsliðið sem keppa mun á Ólympíuleikunum í febrúar. Frá vinstri Snorri Victor Gylfason,
Sigurjón Bragi Geirsson, þjálfari, Kristinn Gísli Jónsson, Snædís Xyza Jónsdóttir Ocampo, Ísak Aron Jóhannsson, Jakob Zarioh Baldvinsson og Sindri Guðbrandur Sigurðsson.

Í liðinu að þessu sinni eru Jakob Zarioh Baldvinsson, 20 ára, vinnur hjá Von mathús, Snædís Xyza Mae Jónsdóttir, 30 ára, vinnur á Mími á Hótel Sögu, Ísak Aron Jóhannsson, 21 árs, vinnur hjá Lúx veitingum, Ísak Darri Þorsteinsson, 21 árs, einnig hjá Lúx veitingum, Kristinn Gísli Jónsson, 23 ára, starfar á veitingastaðnum Silfru, Sindri Guðbrandur Sigurðsson, 23 ára, einnig hjá Silfru og að lokum Snorri Victor Gylfason, 31 árs, sem vinnur hjá Símanum en er einnig aðstoðarþjálfari liðsins. Fanney Dóra Sigurjónsdóttir sem áður hefur verið spilandi leikmaður í liðinu er kynningarfulltrúi liðsins en að auki munu, eins og áður, nokkrir matreiðslunemar fylgja liðinu en þeir gegna margvíslegum mikilvægum hlutverkum til að allt gangi smurt fyrir sig. Alls mun hópurinn telja um 18-20 manns.

Að sögn Sigurjóns eru væntingar liðsins miklar og liðsfólkið hefur sett sér ákveðin markmið. „Við setjum markið hátt, ætlum að vera ofarlega og teljum okkur fullfær um það. Minnstu smáatriði skipta öllu máli og því skiptir miklu máli að æfa stíft. Sama hver niðurstaðan verður er þó mest um vert að við göngum sátt frá borði, vitandi að við lögðum allt í þetta.“

Ítarlegra viðtal við Sigurjón og myndir af keppnisréttunum er að finna í nýjasta Gestgjafanum sem kemur í verslanir á fimmtudaginn.

- Auglýsing -

Tryggðu þér áskrift að Gestgjafanum í vefverslun

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -