Föstudagur 26. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Æðisleg tilfinning að vera pabbi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson var að senda frá sér plötuna & Co. Platan hefur verið í vinnslu í um eitt ár og hann fékk flotta listamenn með sér í lið við gerð hennar. Daði býr í Berlín en verður á Íslandi í sumar ásamt konu sinni og nýfæddu barni.

 

„Ég valdi ólíkt fólk til að hjálpa mér við gerð plötunnar, þetta er listafólk sem mér finnst flott og vildi vinna með svo ég spurði bara hvort þau vildu gera lag, þau sögðu öll já, svo ég sendi þeim „beat“, og þá gátu þau ekki losnað frá mér,“ segir Daði Freyr.

Hann byrjaði fyrsta „beatið“ sem endaði á plötunni þegar hann var staddur í Kambódíu með konu sinni Árnýju Fjólu Ásmundsdóttur þar sem þau unnu þættina, Árný og Daði í Kambódíu fyrir RÚV á sínum tíma. „Platan fjallar að miklu leyti um hvernig er að vera til í nútímasamfélagi.

Daði Freyr var að senda frá sér plötuna & Co.

Allir eru svo tengdir í gegnum Netið og það er svo auðvelt að miða sjálfan sig við aðra. En svo fer maður líka að miða sitt eiginlega sjálf við það sjálf sem maður hefur búið til á samfélagsmiðlum, þá getur verið hættulegt að skoða til dæmis myndir af sjálfum sér í flottri lýsingu úr besta sjónarhorninu og horfa svo í spegil og ætlast til þess að líta alltaf jafn vel út og þar,“ lýsir hann.

„Þá getur verið hættulegt að skoða til dæmis myndir af sjálfum sér í flottri lýsingu úr besta sjónarhorninu og horfa svo í spegil og ætlast til þess að líta alltaf jafn vel út og þar.“

Söngvakeppnin breytti miklu

Söngvakeppnin breytti miklu fyrir Daða en margir muna eftir þátttöku hans árið 2017 með laginu, Hvað með það? en sama tíma var hann að klára dBs Music Berlin-skólann. Hann viðurkennir að hafa ekki alveg vitað hvað hann ætlaði að gera eftir skólann áður en hann tók þátt í keppninni.

- Auglýsing -

„Sennilega hefði ég farið að vinna meira í kvikmyndahljóðum, en ég var kominn aðeins í það áður en ég keppti. Í staðinn fór ég beint í að vinna sem tónlistarmaður og hef unnið við tónlistina síðan,“ útskýrir hann.

Spurður hvernig hann tók allri athyglinni sem hann fékk eftir Söngvakeppnina svarar hann að hún sé bara eitthvað sem fylgi. „Það koma auðvitað móment þar sem ég myndi vilja blandast aðeins meira inn í hópinn. En ég er mjög þakklátur fyrir að fólk nenni að hlusta á tónlistina mína svo þetta er langoftast bara skemmtilegt. Núna bý ég í Berlín þar sem engin þekkir mig svo ég finn bara fyrir þessu á Íslandi.“

Sérstakt að fylgjast með manneskju vaxa

- Auglýsing -

Daði og Árný hafa búið í Berlín í bráðum fimm ár og hann segir að þau séu ekkert á leiðinni til Íslands í bráð. „Það er spurning hvort við flytjum til einhvers annars lands. Annars erum við búin að koma okkur frekar vel fyrir,“ segir hann, en þau eignuðust stúlku fyrir tveim mánuðum og Daði segir að tilfinningin sé æðisleg. „Það fer náttúrlega ótrúlega mikill tími í alla umönnun en það er tími sem ég met mikils. Það er rosalega sérstakt að fylgjast með manneskju vaxa og upplifa heiminn stanslaust á nýjan og nýjan hátt,“ lýsir hann en tónlistin hefur að mestu vikið fyrir föðurhlutverkinu síðan dóttirin fæddist.

View this post on Instagram

I'm crazy like a fool! #daddycool 📷 @arnyfjola

A post shared by Daði Freyr (@dadimakesmusic) on

Daði er snillingur í cover-lögum og hefur sent frá sér þónokkur myndbönd með þannig lögum. Spurður hvernig hann velji lögin og hvað heilli við þetta listform svarar hann að það sé einfaldlega svo auðvelt að gera ábreiðu.

„Það er búið að semja lagið og textann og ég þarf bara að gera undirspil. Ég er frekar fljótur að gera „cover“ miðað við tímann sem tekur að gera frumsamin lög, þá get ég unnið í 10-20 grunnum áður en ég finn eitthvað sem ég vill halda áfram með,“ útskýrir hann og bætir svo við að það sé aldrei að vita nema að út komi cover-laga plata. „Árið 2020 mun allavega vera svolítið cover-að geri ég ráð fyrir.“

Hvað er svo fram undan?

„Ég er bara mest í því að vesenast út um alla Berlín með konunni minni að græja pappíra og svoleiðis fyrir Áróru litlu. Berlín er rosalega mikið pappírsvesenstaður. En svo erum við að koma til Íslands 28. júní og verðum til 20. ágúst til að hitta fjölskylduna og vinina og ég spila eins mikið og ég get. Endilega bókið mig, ég lofa að halda gott partí.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Myndir /Árný Fjóla

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -