Fimmtudagur 5. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Ást er allt sem þarf“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir skömmu sendi einn ástsælasti söngvari landsins, sjálfur Bubbi Morthens, frá sér plötuna Regnbogans stræti sem er hans þrítugasta og þriðja hljóðversplata. Óhætt er að segja að kappinn sé einstaklega afkastamikill tónlistarmaður en hann segist aldrei vera uppiskroppa með viðfangsefni, melódíur eða lagstúfa.

 

„Platan er mjög heiðarleg og lítið menguð,“ segir Bubbi en á plötunni fjallar hann um málefni sem hann brennur fyrir, eins og til dæmis í laginu Velkomin þar sem textinn er um innflytjendur og baráttu þeirra hér á landi. Platan inniheldur 11 lög og að mati margra spekúlanta er platan með hans bestu verkum.

Það mætti halda að eftir jafnlangan og viðburðaríkan feril eins og Bubbi hefur átt sé hann kominn með leiða á sviðsljósinu og tónlistinni en hann segir að það sé mjög mikilvægt að vera heiðarlegur í einu og öllu og ekki síst gagnvart sjálfum sér. Heiðarleikinn fleyti fólki langt og jafnvel lengra en það óraði fyrir.

Trúr íslenskunni

Bubbi var einungis 24 ára þegar fyrsta platan hans, Ísbjarnarblús, kom út og sló rækilega í gegn. Hann hefur svo verið í hinum og þessum sveitum í gegnum tíðina og má þar nefna Egó, Das Kapital, Utangarðsmenn og GCD. Aðspurður hvort það sé eitthvað öðruvísi að semja tónlist í dag en þá segir hann að enginn munur sé á því. „Hins vegar hefur tölvan gert mikið fyrir fólk sem í rauninni hefur kannski ekki hæfileika til þess að gera tónlist og fyrir vikið er mikið af drasli inn á milli,“ segir hann.

„Hins vegar hefur tölvan gert mikið fyrir fólk sem í rauninni hefur kannski ekki hæfileika til þess að gera tónlist og fyrir vikið er mikið af drasli inn á milli.“

Í gegnum tíðina hafa útlönd reglulega bankað upp á hjá Bubba en árið 1985 gerði hann plötusamning við sænska útgáfufyrirtækið Mistlur sem gaf út plötuna Frelsi til sölu (Freedom for Sale). Í kjölfarið komu út plöturnar Dögun (Dawning) og Sögur af landi og fengu þær allar frábærar viðtökur og dóma.

- Auglýsing -
Bubbi og hljómsveit æfa á fullu þessa dagana fyrir tónleika sem fara fram í október.

Frægðarsól Bubba reis enn hærra en Bubbi hefur ávallt verið trúr landi og máli og vill helst syngja á sínu tungumáli, íslenskunni. Hann segir að eftir að hann hafi áttað sig á að íslenskan væri hans tungumál hafi ekki verið aftur snúið og hefur hann allar götur síðan þá eingöngu sungið á móðurmálinu.

Tónleikar í október

Regnbogans stræti hefur fengið frábærar viðtökur enda platan, að mati okkar á Albumm, alveg frábær. Blásið verður til heljarinnar tónleika í Hlégarði þann 3. október og lofar Bubbi góðri skemmtun með lifandi flutningi, nýjum lögum í bland við eldri. Bubbi og hljómsveit æfa á fullu þessa dagana og má svo sannarlega búast við kröftugum tónleikum. Að lokum segir Bubbi: „Ást er allt sem þarf.“

- Auglýsing -

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Myndir / Brynjar Snær

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -