Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

„Fimm ára ég væri stolt ef hún sæi sjálfa sig núna“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarkonan og lagasmiðurinn Hildur hefur í nógu að snúast þessa dagana en hún var að senda frá sér þrjú lög með stuttu millibili. Hún mun einnig gefa út EP-plötuna Intuition með vorinu og vinnur að sinni fyrstu sólóplötu.

„Öll lög sem ég hef gefið út síðan í haust verða á þessari EP-plötu og svo bætist síðasta lagið við í vor,“ segir Hildur en kveðst núna vera að einbeita sér að sólóplötunni. „Það er svolítið „skerí“ því þrátt fyrir að hafa gefið út tvær EP-plötur þá er eitthvað fullorðinslegra við að gera heila plötu. Ég ætla að spila meðfram því og semja fyrir aðra, en fókusinn verður á hana.“

Hildur segir að Woman in War sem kom út fyrir viku, sé eiginlega uppáhaldslagið hennar á Intuition og að umfjöllunarefni þess skipti hana miklu máli. Hana hafi lengi langað að semja lag um hvernig er að vera kona og þurfa að berjast á tímum þegar jafnrétti ætti að vera orðið sjálfsagt. „Það er ekkert gaman að vera alltaf að benda á allt sem er að, en það er samt það sem þarf að gera til þess að hlutirnir breytist, og ég held að margar konur tengi við þetta.“ Hún segir að það hafi verið svolítið púsl að gera popplag um þetta umfjöllunarefni en lagið hafi fæðst hratt þegar hún var komin með réttu hljómana.

„…þrátt fyrir að hafa gefið út tvær EP-plötur þá er eitthvað fullorðinslegra við að gera heila plötu.“

„Ég var líka nýbúin að horfa á heimildarmynd um Kate Bush og eftir á að hyggja átta ég mig á að þetta lag er mjög innblásið af henni, sem er bara geggjað.“

Samdi lag til 5 ára sjálfrar sín

Fyrir stuttu sendi Hildur einnig frá sér lagið 1993, lag sem hún samdi til fimm ára sjálfrar sín. „Ég hafði nýlega verið með ritstíflu að reyna að semja nýja tónlist og efaðist eitthvað um það hvort ég ætti yfirhöfuð að vera í þessum bransa. Þá mundi ég eftir pepp-setningu sem ég hafði stundum sagt við sjálfa mig: „Hugsaðu þér hvað fimm ára þú yrði stolt ef hún sæi þig núna.“ Setning sem ég notaði stundum, t.d. þegar ég var að brjóta mig niður eða fannst ég ekki nógu dugleg, því það er eitthvað svo fallegt að hugsa til þess að fimm ára langaði mig mest að vera uppi á sviði að syngja og vera tónlistarkona og hvað þessi fimm ára ég yrði nú stolt sæi hún allt það sem ég er að gera. Upp úr því spratt setningin „when I grow up I wanna be me“,“ útskýrir hún og vonar að lagið minni fólk á að það sé aldrei of seint að fylgja draumum sínum eftir, þótt leiðin geti verið flókin og löng.

Finnst gaman að semja fyrir aðra

- Auglýsing -

Hildur hefur líka túrað mikið og komið fram á tónlistarhátíðum, bæði hér heima og erlendis. Hún segir það ganga vel og finnur fyrir áhuga ytra, ekki síst eftir að hún komst á samning hjá bandaríska plötufyrirtækinu Anti Fragile, sem uppgötvaði hana á Spotify. Þá hefur hún verið að semja tónlist fyrir aðra og segist finna sig í því, enda sé bransi lagahöfunda erlendis áhugaverður.

„Það skemmtilegasta við að semja lag „eftir pöntun“ er að maður stígur inn í heim þess sem maður er að semja lagið fyrir og fer að velta alls konar hlutum fyrir sér; hvernig stíl er sú manneskja með, hvernig rödd og hverju hún reynir að koma á framfæri og svo framvegis,“ lýsir hún og segir að við þetta allt hafi hún kynnst mörgu frábæru fólki í bransanum og þroskast sem lagahöfundur.

Tónlistarkonan og lagasmiðurinn Hildur er með mörg járn í eldinum.

Spurð út í íslensku tónlistarsenuna segist hún seint þreytast á því að monta sig við útlendinga af því hvað við eigum mikið af frambærilegu tónlistarfólki. „Hér er alltaf eitthvað nýtt og spennandi að koma fram og maður þarf bara að hafa sig allan við að fylgjast með. Ég væri vissulega til í að sjá fleiri konur á topplistum en vonandi breytist það,“ segir hún full jákvæðni og kveðst líka vilja peppa ungt tónlistarfólk sem þorir ekki enn þá að láta vaða. „Fyrstu skrefin eru erfiðust en það er dýrmætara að prófa en að þora aldrei.“

- Auglýsing -

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Myndir / Árni Eyþórsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -