Miðvikudagur 13. nóvember, 2024
7.2 C
Reykjavik

Fleiri möguleikar á Íslandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Færeyski tónlistarmaðurinn Heiðríkur hefur búið hér síðustu ár og útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Á meðan hann var í námi tók hann upp og gaf út aðra plötu sína, Funeral, og vann Færeysku tónlistarverðlaunin sem besti söngvari ársins 2017. Nú hefur Heiðríkur sent frá sér sína þriðju plötu, Illusions, og segir hana ólíka öllu öðru sem er í gangi í tónlistarsenunni í dag.

„Hún er svolítið í anda tónlistar Hollywood-mynda þriðja áratugarins og James Bond-mynda fimmta áratugarins,“ segir Heiðríkur, þegar hann er beðinn um að lýsa tónlistinni og bætir við að þemað snúist aðallega um það hvernig er að vera á fertugsaldri og þær samfélagslegu kröfur sem er gerðar til fólks á þeim aldri um að lifa hamingjusömu lífi.

„Maður á að vera búinn að kaupa sér eign, vera í stöðugri vinnu, stofna fjölskyldu og svo framvegis. Fókusinn er allur á þetta bull og skilyrðin sem við teljum okkur þurfa að uppfylla, sem verður til þess að við förum að eltast við einhverja „hamingju“ sem við höldum að sé að finna hjá öðrum en okkur sjálfum.“

„Maður á að vera búin að kaupa sér eign, vera í stöðugri vinnu, stofna fjölskyldu og svo framvegis.“

Heiðríkur segir að það hafi verið mikil upplifun að taka plötuna upp.  „Þetta var allt gert upp á gamla mátann, engin nútímaleg hljóðfæri notuð, engir taktmælar, bara gamlir míkrafónar og við allir í einu herbergi að spila „live“, eins og gert var hér áður fyrr. Svo voru strengirnir teknir upp í Búdapest, sem hljómar ótrúlega vel,“ útskýrir hann og segist vera mjög ánægður með útkomuna, en örlítið stressaður líka því hún sé ólík öllu öðru í tónlist í dag. „Hún kemst kannski næst einhverju sem var gert fyrir hundrað árum,“ segir hann og hlær.

Spurður út í tónlistarsenuna í Færeyjum og ástæður þess að hann ákvað að flytja til Íslands, hugsar hann sig um. „Tónlistin mín er ekki beint danstónlist eða tónlist sem er spiluð á næsta bar,“ svarar hann svo, „þannig að markaðurinn í Færeyjum var of lítill fyrir hana. Þess vegna vildi ég flytja. Ég prófaði fyrst að flytja til Danmerkur en fann mig ekki þar vegna þess að Danir eru svo ólíkir okkur Færeyingum. Þannig að ég ákvað að flytja til Íslands sem er eins og stærri útgáfan af Færeyjum, bara með fleiri möguleika,“ segir hann og kveðst elska Ísland. Íslendingar séu eins og Færeyingar, bara örlítið klikkaðari, sem hann fíli í botn.

Talandi um það, hvernig finnst honum íslensk tónlist? Er hún að einhverju leyti frábrugðin þeirri færeysku, að hans mati? „Þið eruð snillingar þegar kemur að tónlist, ég elska tónlistina ykkar. Íslendingar eru óhræddari við að tjá sig en Færeyingar sem eru feimnari og kannski varkárari út á við,“ segir hann en tekur skýrt fram að Færeyjar státi af mörgu hæfileikríku tónlistarfólki og þaðan hafi komið mikið af góðri tónlist.

- Auglýsing -

En hvað er annars á döfinni? „Bara meiri spilamennska á Íslandi,“ svarar hann fullur tilhlökkunar, „og áframhaldandi vinna við að koma tónlistinni minni á framfæri, en ég er ekki með neina umboðsskrifstofu eða útgáfyrirtæki á bak við mig þannig að ég er eiginlega allt í öllu,“ bendir hann. „Annars vona ég auðvitað bara að sem flestir hlusti á plötuna mína, og tengist tónlistinni á sínum persónulegu forsendum.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Lydía Hansen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -