Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

„Hefur gert ótrúlega mikið fyrir mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hæfileikabúntið Greta Salóme hefur í nógu að snúast um þessar mundir. Fram undan er tónleika- og sýningahald víðs vegar um heim, sem Greta segir að séu algjör forréttindi því hún hafi alltaf viljað flytja tónlistina sína fyrir sem flesta.

 

„Dagarnir eru pakkaðir af æfingum og giggum þannig að þeir verða fljótir að líða,“ segir Greta, sem er um þessar mundir að klára síðasta túrinn sinn erlendis og kemur svo aftur heim í nóvember og desember í jólavertíðina. „Næsta ár er orðið frekar pakkað líka,“ segir hún. „Þannig að ég ætla að reyna að nýta tímann heima í nóvember og desember þegar ég er ekki að koma fram til að vera með fjölskyldunni minni og vinum. Það er ekkert mikilvægara en það.“

Greta hefur verið með árlega jólatónleika í Mosfellsbæ síðustu ár og auk þess komið fram sem gestasöngvari á ýmsum jólatónleikum. „Nú í ár verður Daði Freyr með mér auk barnakóra og hljómsveitar þannig að þetta verður rosalega gaman. Þetta eru ótrúlega léttir og skemmtilegir jólatónleikar sem við höfum verið að stíla inn á fjölskyldurnar.“

Fyrst á dagskrá er þó sýningin Halloween Horror Show í nóvember, sem Greta segir að sé eitt af uppáhaldsverkefnunum sínum á árinu.

„Þetta er rokktónleikasýning í grunninn, en með fullt af öðru efni líka. Alveg tryllt „show„ og mikið lagt í sjónræna þáttinn. Fólki kemur á óvart hvað mikið er lagt í anddyrið áður en það kemur inn í salinn sjálfan,“ segir hún og bætir við að sýningin, sem er nú haldin í þriðja sinn, haldist með svipuðu sniði og áður. Þó verði breytingar gerðar á lögum, þannig að það sé alls ekki um sömu sýningu að ræða. Hún getur þess að sýningin hafi notið mikilla vinsælda undanfarin ár og ekki sé breyting á því í ár. Nú þegar sé „pakkuppselt“ á sýninguna.

En við hverju mega gestir búast?  „Alvörurokktónleikasýningu með hlátri, gæsahúð og öllu þar á milli. Við leggjum allt í þetta. Fólk fær 100 prósent sýningu út á miðann, ekki bara tónleika.“

- Auglýsing -

Á samningi hjá stórri umboðsskrifstofu

Eins og kunnugt er landaði Greta samningi hjá Disney árið 2014 og segist hafa lært mikið af því. „Það hefur gert alveg ótrúlega mikið fyrir mig. Ég hef fengið alveg geggjaða reynslu sem „performer“, bæði að syngja, dansa og bara koma fram. Þetta fyrirtæki er magnað og ég hef lært svo mikið þar.“

„Ég fer í rauninni bara þangað sem verkefnin eru og þangað sem umboðsskrifstofan sendir mig, í samráði við mig auðvitað.“

Hún segir að síðan þá hafi hún haft í nógu að snúast. Nú sé hún á samningi hjá bandarísku umboðskrifstofunni TAD, sem hefur m.a. á skrá Sam Baily, sigurvegara X Factor, og Antony Costa úr Blue, og hún hafi á vegum hennar stýrt stórum sýningum erlendis, yfirleitt ásamt fimm til sjö manna bandi. „Þetta hefur verið geggjað allt saman en auðvitað mikil vinna og mikil fjarvera,“ viðurkennir hún. „Ég fer í rauninni bara þangað sem verkefnin eru og þangað sem umboðsskrifstofan sendir mig, í samráði við mig auðvitað.“

- Auglýsing -

Hún segist alltaf hafa viljað geta flutt tónlistina sína fyrir sem flesta og því séu forréttindi að fá að vinna við það bæði hérlendis og erlendis. „Ég sakna samt alltaf Íslands þegar ég er að ferðast þannig að ég reyni að halda þessum túrum ekki lengri en tveggja vikna hverjum og reyni að vera meira heima en úti. Þetta hefur samt verið ótrúlegt tækifæri og endalaust af skemmtilegum augnablikum. En mér finnst langbest að vera heima á Íslandi.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -