Sunnudagur 5. maí, 2024
8.8 C
Reykjavik

„Í dag máttu vera allt, en þarft líka að vera góð í öllu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarkonan Þórunn Antonía var að senda frá sér nýtt lag, Ofurkonan og myndband sem hafa hlotið góðar viðtökur. Hún segir heiti lagsins vera lýsandi fyrir sitt eigið líf þar sem hún sé nýbúin að eignast son og sé því orðin einstæð tveggja barna móðir.

 

„Valgeir Magnússon, eða Valli Sport eins og hann er oft kallaður í bransanum, hafði samband fyrr á árinu og boðaði mig á fund. Hann byrjaði að segja að hann væri með lag og hugmynd sem hann vildi ræða. Ég var nýorðin ólétt þarna og handviss um að ég væri ekki rétta manneskjan í verkið; því þegar maður hefur verið stimplaður frekar eftir útliti en hæfileikum eða flokkaður sem poppstjarna eru ekki margir að hringja með popplög í farteskinu þegar maður er með bjúg með bumbu. En svo passaði það fáránlega vel saman. Valgeir var nefnilega búinn að taka viðtöl við fjöldann allan af íslenskum konum um þeirra reynsluheim og það fléttaðist saman við lag og texta sem urðu til í okkar samstarfi,“ segir Þórunn Antonía um nýja lagið og myndbandið.

Því fór svo að hún skellti sér í stúdíó ásamt Valgeiri og Ásgeiri Orra Ásgeirssyni í Stop Wait Go. Þannig varð þessi samsuða til, eins og hún orðar það, en texti lagsins er ádeila á pressuna sem konur setja á sig sjálfar út frá alls konar viðmiðum í samfélaginu. „Í dag máttu vera allt,“ tekur hún sem dæmi, „en þarft líka að vera góð í öllu. Ég er ekki þannig, ég er „haugur“, á jákvæðan hátt; ég elska að staldra við og njóta lífsins á „ómerkilegum“ augnablikunum. Á fínu máli kallast þetta víst núvitund. En svo er ég algjör skriðdreki þegar ég þarf að vera dugleg,“ undirstrikar hún.

Þórunn Antonía var að senda frá sér nýtt lag og myndband. Mynd / Celeste Hope

Talandi um veruleika kvenna þá hefurðu verið ófeimin við að ræða ýmis málefni sem snúa að konum. „Veistu ég bara stend með konum. Ég er til dæmis þannig gerð að ef karlmaður kemur illa fram við mig og nælir sér strax í nýja, óska ég þess að hann komi betur fram við hana frekar en að blóta henni. Ég bara elska konur,“ segir hún. „Ég á eina litla konu sem er fimm ára og ég vil gera heiminn að betri stað fyrir hana. Þriðja hver kona verður fyrir kynferðisofbeldi. Á Íslandi leita konur daglega á neyðarmóttöku vegna heimilisofbeldis. Svo erum við oft svo vondar við okkur sjálfar. Við gerum landakort af líkömum okkar og merkjum rass, læri og svo framvegis, eins og þetta séu einhver óvinasvæði sem við þurfum að taka í gegn til að vera sætar og mega anda. Úff, ég þoli ekki þetta rugl,“ segir hún og bætir við að sér finnist konur frábærar, allar með tölu.

Lánsöm í lífinu

Líður þér sjálfri vel í eigin skinni? „Veistu, hefði einhver sagt fyrir svolitlu síðan að ég kæmi til með að verða einstæð móðir í dreifbýli þá hefði ég kýlt viðkomandi. Svo varð ég einhleyp tveggja barna móðir og þunglynd eftir sambandsslit og hélt að allt yrði ömurlegt. Nú hlæ ég að þeirri vitleysu, því þetta er algjör draumur,“ segir Þórunn Antonía en hún flutti ásamt dóttur sinni til Hveragerðis fyrr á árinu og eignaðist þar son.

„Þetta er það besta sem gat gerst. Ég elska líf mitt.“

- Auglýsing -

„Þvílík lífsgæði. Þetta er það besta sem gat gerst. Ég elska líf mitt. Elska börnin mín og er meðvituð um hversu heppin ég er að að hafa eignast þau.“ Hún segir þetta einfaldlega sýna að maður geti vel verið fáránlega hamingjusamur þótt hlutirnir fari kannski á annan veg en maður ætlaði og erfiðleikar geti á endanum leitt mann á betri stað.

Texti / Sigrún Guðjohnsen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -