Föstudagur 24. maí, 2024
8.8 C
Reykjavik

Rétt slapp inn áður en landamærunum var lokað

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jófríður Ákadóttir, einnig þekkt sem JFDR, sendi nýverið frá sér plötuna New Dreams sem hún segir vera töluvert frábrugðna fyrri verkum sínum. Albumm tók tónlistarkonuna tali, fékk að forvitnast um plötuna, ferilinn og búflutning til Ástralíu, sem byrjaði heldur betur með látum.

„Tónleikaferðalögum hefur verið frestað til haustsins þannig að ég nýti bara tímann í að vera skapandi á meðan maður getur ekki ferðast neitt,“ lýsir Jófríður, sem er nú stödd hjá kærasta sínum í Ástralíu og viðurkennir að hún hafi rétt náð að komast þangað áður en yfirvöld lokuðu landamærunum.

„Við erum búin að koma okkur vel fyrir upp í sveit…“

Spurð hvaða áhrif ástandið hafi haft á hana og kærastann er hún fljót til svars og segir að faraldurinn hafi enn sem komið er ekki haft mikil áhrif á líf hennar, ef tónleikaferðalögin eru undanskilin. „Við erum búin að koma okkur vel fyrir uppi í sveit, erum með lítið stúdíó og reynum að vera skapandi á meðan staðan er svona.“

Kannski örlítið þroskaðri

Jófríður hefur verið viðloðandi tónlistarbransann síðastliðin 10 ár, frá því hún stofnaði hljómsveitina Pascal Pinon ásamt Ásthildi systur sinni og vinkonum þeirra. Upp úr því spratt sveitin Samaris og nýverið sendi Jófríður svo frá sér sína aðra sólóplötu, New Dreams. Beðin um að lýsa tónlistinni segir hún að um sé að ræða „ambient avant garden pop“.

„Í JFDR er ég að vinna með folk element, eins og í Pascal Pinon, en líka með elektróník, eins og í Samaris, og þá kannski helst ambíent áferðakennda elektróník frekar en danstónlist. Ég er alltaf tilraunakennd í tónlistinni og melódísk líka og legg mikla áherslu á textana.“

- Auglýsing -

Hún segir plötuna hafa verið lengi í vinnslu. Sum lögin séu samin áður en fyrri sólóplatan, Brazil, kom út árið 2016 og svo hafi platan verið tekin upp í Brooklyn árið 2017 og mixuð í stúdíói Alberts Finnbogasonar í Iðnó á Íslandi árið 2018, með aðstoð tónlistarmannsins og pródúsentsins Paul Corley.

Spurð að hvaða leyti New Dreams sé frábrugðin Brazil svarar Jófríður því til að í þetta sinn hafi hún meiri stjórn á hljóðvinnslunni og útsetningunum. „Svo eru söngurinn og lögin kannski smávegis þroskaðri en áður.“

Hola í jörðinni og enginn klósettpappír

- Auglýsing -

Eins og áður kom fram er Jófríður nú stödd í Ástralíu, þar sem hún býr með kærasta sínum, en óhætt er að segja að hún sé sannkallaður heimshornaflakkari. Fyrir utan að búa í Ástralíu og að hafa búið í Brooklyn í ár ráku hún og Ásthildur systir hennar lengi plötuútgáfufyrirtæki í Berlín og spiluðu mikið erlendis eftir að þær stofnuðu sveitina Samaris árið 2011. „Samaris túraði mest í Evrópu og mikið í Bretlandi, rétt eins og Pascal Pinon gerði og ég hef gert síðan,“ lýsir hún, „þó að við höfum líka farið til Ameríku, Asíu og Ástralíu.“

Af þessu löndum og heimsálfum sem þú nefnir, hvar hefur þér fundist skemmtilegast að koma fram? „Það er alltaf gaman að fara til Asíu. Ég hef oftast ferðast til Japans og Kína og þó að það sé margt svipað með þessum löndum þá er stórkostlegur munur á þeim,“ segir hún og nefnir sem dæmi að það fyrsta sem hún hafi veitt athygli þar séu klósettin. „Í Japan liggur við að maður þurfi handbók til að geta sturtað niður á meðan í Kína tók á móti manni hola í jörðinni og enginn klósettpappír,“ segir hún og hlær við tilhugsunina.

Svona í lokin, áttu einhverja skemmtilega ferðasögu sem þú vilt deila? „Ég á margar stórkostlegar sögur, sérstaklega með hljómsveitinni Samaris sem voru frábærir ferðafélagar, en ekkert sem ég ætla að láta hafa eftir mér hér.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -