Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Rokkið góð vítamínsprauta á tímum kórónuveirunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigvaldi Jónsson, eða Valli Dordingull, hefur lengi verið viðloðandi rokksenuna á Íslandi en hann á og rekur vefmiðilinn Dordingul sem hefur frá árinu 1999 fjallað um þungarokk og harðkjarnatónlist. Hann segir íslenskt rokk hafa tekið miklum breytingum á þessum tíma.

„Ég hafði verið að grúska í vefsíðugerð í smátíma og hafði hannað tvær hljómsveitasíður, annars vegar fyrir Sigur Rós og hins vegar fyrir Spitsign og fór að átta mig á því að það vantaði allar upplýsingar um sveitirnar sem voru starfandi, um tónleikana sem voru í gangi og í rauninni bara allt sem tengdist íslensku rokki,“ segir Valli, spurður hvað hafi orðið til þess að hann fór af stað með hina goðsagnakenndu vefsíðu dordingull.com, sem hefur fært landsmönnum fréttir úr heimi harðkjarnatónlistar og þungarokks frá árinu 1999.

Spurður hvort íslenska rokksenan hafi breyst mikið á þessu tíma svarar Valli að hún hafa farið í gegnum alls konar tímabil. „Það hafa verið mörg áhugaverð tímabil, pönkið, dauðarokkið, gruggið, hardcore-ið, svartmálmur og inn á milli mikið af góðu efni sem er ekki beint hægt að flokka í tímabil,“ segir hann og játar að Harðkjarnatímabilið frá 1997 til 2007 sé í mestu uppáhaldi, það hafi verið afar fjölbreytt og skemmtilegt.

Þá segir hann líka áhugavert að sjá hvaða áhrif Netið hafi í tónlist. „Fyrir tilstuðlan þess er aðgengi að tónlist til dæmis orðið svo miklu meira en það var,“ segir hann, „og þar af leiðandi á fólk miklu auðveldara með að þróa eigin tónlistarsmekk, án þess að vera að spá í hvað aðrir séu að hlusta á. Netið hefur opnað nýjar víddir í tónlist.“

Þúsundaþjalasmiður

Samhliða því að halda úti dordingull.is og samnefndum útvarpsþætti stýrir Valli þættinum Skúrinn á Rás 2, ásamt Atla Má Steinarssyni. Hann segir varla hægt að hugsa sér tvo ólíkari útvarpsþætti.

- Auglýsing -

„Á meðan Dordingull einblínir á rokk í þyngri kanntinum þá fjallar Skúrinn um alla aðra tónlist, rapp, rokk, hip hop, raftónlist, bara hvað sem er. Við reynum að fá nýjar hljómsveitir til að senda okkur „demo“ eða mæta upp í stúdíó 12 í upptökur,“ lýsir hann og segir að það sé ótrúlega gaman að fá efni bæði frá ungu tónlistarfólki og reyndu.

„Á svona tímum þarf fólk á léttleika að halda til að dreifa huganum og halda andlegri heilsu í lagi. Þar kemur rokkið sterkt inn.“

En krefst það ekki mikillar vinnu, skipulags og þolinmæði að vera með tvo útvarpsþætti og halda á sama tíma úti vefsíðu? Sérstaklega þegar maður stendur mestmegnis einn á bakvið útgáfuna eins og Valli hefur gert á Dordingull?

„Jú, maður er alltaf að leita að fólki til að taka þátt í þessu með sér, skrifa fréttir, plötudóma og allt það, það er auðvitað ekkert grín að halda þessu gangandi á meðan maður er einn. Til dæmis er síðan búin að vera í smálægð vegna annarrar vinnu, en hún fer aftur í gang á næstu vikum og þegar það gerist þá væri gaman að geta skellt gömlum upptökum á Netið. Ég á mikið af efni sem væri gaman að deila með landsmönnum. Á svona tímum þarf fólk á léttleika að halda til að dreifa huganum og halda andlegri heilsu í lagi. Þar kemur rokkið sterkt inn.“

- Auglýsing -

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Hilmar Búi Sigvaldason

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -