Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Þurftum á stuðningi hvors annars að halda“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Álftnesingarnir Fannar Ingi Friðþjófsson og Jökull Breki Arnarson úr hljómsveitinni Hipsumhaps eiga eitt vinsælasta lag landsins um þessar mundir, Lífið sem mig langar í. Kapparnir voru einnig að senda frá sér plötuna Best gleymdu leyndarmálin, sem hefur sömuleiðis fengið frábærar viðtökur. Vinirnir stofnuðu bandið í júlí á síðasta ári þegar þeir voru á vissum tímamótum í lífinu sem varð til þess að þeir ákváðu að gefa tónlistinni séns.

 

„Við vorum báðir að vinna í sjálfum okkur og þurftum á stuðningi hvors annars að halda,“ segir Fannar, en hann og Jökull hafa þekkst síðan sumarið 2013. „Fyrst þegar við vorum að kynnast þá leitaði hann mikið til mín með alls konar vangaveltur. Ég er sjö árum eldri en Jökull og hef alltaf verið til staðar fyrir hann. Svo dag einn vaknaði ég upp við það að hann var orðinn tvítugur og ég áttaði mig á því að ég gat líka leitað ráða hjá honum. Vinátta okkar er einstök og við erum heppnir hvor með annan. Vináttan er grunnurinn að öllu saman. Forsendan fyrir tónlistinni.“

„Vinátta okkar er einstök og við erum heppnir hvor með annan. Vináttan er grunnurinn að öllu saman.“

Aðspurður hvort þeir hafi átt von á þeim góðu viðtökum sem tónlist þeirra hefur hlotið og hvort lífið hafi tekið einhvern snúning í kjölfarið, segir Fannar að svo sé ekki. Fyrir utan að þeim líði betur eftir að hafa komið tónlistinni frá sér.

„Fólki finnst þetta allt saman áhugavert og er ófeimið að spyrja spurninga. Við erum byrjaðir að fá bókanir sem er bara jákvætt en við erum nú hvorugur að fara að segja upp vinnunni, í bili,“ útskýrir hann og bætir við að þeir hafi skilið sáttir við við plötuna eftir mikla vinnu. „Eftir útgáfuna höfum við reynt að halda okkur á jörðinni og hlakkað til að sjá hvernig fólk tengdi við plötuna. Nú mánuði eftir útgáfu er búið að vera magnað að fylgjast með hvað viðtökurnar eru góðar og við erum virkilega þakklátir fyrir alla sem eru að hlusta. Sérstaklega þá sem hafa gefið sér tíma til að hafa beint samband og hrósa okkur.“

Textarnir á plötunni eru allir skrifaðir af Fannari sjálfum, nema í laginu Feika brosið, þar sem Jökull á vers. Aðspurður hvert þeir sæki innblástur í tónlistarsköpun sinni svarar Fannar að það sé misjafnt. „Það er ótæmandi listi af tónlist sem við fílum og við höfum ekki verið feimnir við að blanda saman einhverju tvennu ólíku, útkoman á plötunni var því hipsumhaps,“ segir hann og bætir við að oft fái hann innblástur í aðstæðum sem vekja upp nýjar eða blendnar tilfinningar.

Að sögn Fannars fengu þeir alls konar frábært fólk til liðs við sig við gerð plötunnar. „Við erum með hljóðfæraleikara með okkur „live“. Magga Jó, sem á mikið í plötunni með okkur, Bergur, Óli Alexander, Lexi og Eiki. Allt toppmanneskjur,“ segir hann þakklátur. Hann bætir við að bandið hafi haldið útgáfutónleika 20. október síðastliðinn og þar sem það hafi verið uppselt á þá hafi verið ákveðið að halda aðra tónleika 22. nóvember. Auk þess standi til að koma fram á Airwaves.

- Auglýsing -

„Síðan ætlum við bara að hafa gaman, halda áfram að læra eitthvað nýtt og nýta hvert tækifæri sem gefst. Muna að sýna þakklæti fyrir það sem við erum að gera og að lífið er líka meira en tónlist.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Svanhildur Gréta

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -