Mánudagur 9. desember, 2024
9.8 C
Reykjavik

Útfararsálmur til mannkynsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hljómsveitin Hatari sem vakti heimsathygli í Eurovisionkeppninni í fyrra, hefur í nógu að snúast og var meðal annars að senda frá sér plötuna Neyslutrans, sem er liður í áætlun Hatara um „að knésetja kapítalismann og afhjúpa þversagnir í svikamyllu hversdagsleikans“.

„Síðbúin iðrun, höfnun, misbeiting valds, sjálfsfyrirlitning, sorg og hatur, þetta eru á meðal þemu plötunnar og hún hentar allri fjölskyldunni,“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson, annar tveggja söngvara Hatara, þegar hann er spurður nánar út í plötuna og hann tekur fram að fjöldi listamanna hafi komið að gerð hennar. „Við fengum til liðs við okkur fjölbreyttan hóp tónlistarmanna, þar á meðal Bashar Murad söngvara, rappsveitina Cyber, stórstjörnuna GDRN, rapparann Svarta Laxness, Pétur Björnsson fiðluleikara, Friðrik Margrétarson, tónskáld og kórstjóra, og fleiri.“

„Framtíðin ber endalok mannkyns í skauti sér sem og einstakt tækifæri til að fjárfesta í miðum á útgáfutónleika Hatara í Austurbæ núna í febrúar.“

Neyslutrans er fyrsta platan í fullri lengd sem Hatari lætur frá sér, en hún inniheldur bæði lög sem hafa áður litið dagsins ljós í stakri útgáfu og áður óútgefnar tónsmíðar. Spurður hvort hún sé hápólitísk svarar Matthías hiklaust að Neyslutrans sé útfararsálmur til mannkynsins og vögguvísa, enda sé farið að styttast í endalokin. „Það er í sjálfu sér hafið yfir pólitík, enda er það vísindalega sannað að allt lífríki jarðar verður útmáð innan nokkurra ára. Flest annað er pólitískt í eðli sínu, ekki síst þessi plata og tónleikaferðalagið sem við ætlum í, Evrópa mun hrynja, í kjölfar útgáfunnar,“ segir hann og vísar þar í fyrirhugaðan túr sveitarinnar. „Við ætlum að ferðast til 20 borga víðs vegar um rústir álfunnar ásamt áðurnefndri Cyber, sem eru nýjustu samstarfsaðilar Svikamyllu ehf. Þær deila því markmiði okkar að hámarka gróða rétt á meðan mannkynið klórar í bakkann.“

Hvað er Svikamylla ehf.? Svona fyrir þá sem ekki vita það. „Svikamylla ehf. er alþjóðlegt framleiðslufyrirtæki og eigendur Hatara. Markmið Svikamyllu ehf. eru niðurrif á síðkapítalismanum, margmiðlun, fasteignaviðskipti og lánastarfsemi, útgáfa á íslenskum og erlendum dómsdagskveðskap og ráðgjafaþjónusta,“ svarar hann og bætir við að stjórn Svikamyllu ehf. haldi svipunni á lofti til að minna sveitina á að ekkert sé sjálfsagt. „Okkur er refsað dagsdaglega fyrir afglöp í starfi. Samhliða þessu sinnum við fjölskyldulífinu og erum mjög hamingjusöm.“

Það var talsvert fjallað um Hatara í heimspressunni í tengslum við Eurovision-keppnina í Tel Aviv og mikil spenna vegna lokakvöldsins, þar sem heyrst hafði að þið í sveitinni væruð með eitthvað óvænt í bígerð. Sem reyndist svo rétt. Þið flögguðuð palestínska fánanum í beinni og allt varð vitlaust. Voruð þið einhvern tímann hrædd um öryggi ykkar? „Allt fór samkvæmt áætlun,“ svarar Mattías sallarólegur. „Við tökum bara heilshugar undir með greinarhöfundi breska stórmiðilsins The Guardian sem skrifaði að palestínski fáninn eigi mikilvægt erindi við Eurovision.“

Nú er Hatari orðin ein vinsælasta sveit landsins, bjuggust þið við þessum vinsældum? „Já.“

- Auglýsing -

Eitthvað að lokum? Hvað ber framtíðin í skauti sér? „Framtíðin ber endalok mannkyns í skauti sér sem og einstakt tækifæri til að fjárfesta í miðum á útgáfutónleika Hatara í Austurbæ núna í febrúar.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Snorri Björns

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -