Laugardagur 18. maí, 2024
9.8 C
Reykjavik

Féll ofan í sprungu á Snæfellsjökli: „Bölsótaðist og skammaðist yfir eigin flónsku“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jón Auðunn Jónsson lögfræðingur skrapp á Snæfellsjökul við fimmta mann í októberbyrjun árið 1994. Litlu munaði að ferðin yrði hans síðasta.

Í byrjun október árið 1994 fór Jón Auður Jónsson og nokkrir félagar hans upp á Snæfellsjökul en mágur hans, sem var á vélsleða, ferjaði mennina einn af öðrum upp á jökulinn og var Jón Auðunn fyrstur. Mágurinn skildi hann svo eftir með kíki á meðan hann sótti næsta mann. Þegar Jóni var farið að leiðast biðin ákvað hann að fara í göngutúr uppi á jöklinum. Gekk sá túr ekki betur en svo en að hann féll ofan í stærðarinnar sprungu. Hélt hann að þarna hefði hann mætt örlögum sínum en átta árum áður hafði hann fallið ofan í síló í grjótmulningsvél og endurupplifði það slys er hann féll í sprunguna. Það sem varð Jóni til happs var hópur björgunarsveitarmanna sem mættir voru á jökulinn í könnunarleiðangri. Drógu þeir hann upp með hjálp kaðals.

DV fjallaði um málið á sínum tíma en hér fyrir neðan má lesa fréttina:

Féll í djúpa jökulsprungu á Snæfellsjökli og var bjargað:

Þóttist viss um að þetta væru endalokin – björgunarsveitarmenn í könnunarleiðangri björguðu manninum

„Ég var þarna uppi með kíki og fólkinu sem var með mér dvaldist eitthvað niðri við bílana. Þegar mér var farið að leiðast þófið fór ég að ganga því að útsýnið var mjög gott. Ég sá heljarmikla sprungu og út frá henni var önnur sprunga. Ég taldi mig hafa gengið fyrir hana en áður en ég vissi af húrraði ég niður í hana. Ég kom niður þar sem hún var grynnst en nokkrum metrum neðar var hún 30 til 40 metra djúp. Ég stóð þarna niðri og bölsótaðist og skammaðist yfir eigin flónsku,“ segir Jón Auðunn Jónsson lögfræðingur en á sunnudag féll hann ofan í átta metra djúpa sprungu á Snæfellsjökli.Jón Auðunn var á ferð á Snæfellsnesi um helgina við fimmta mann. Mágur hans, sem var með í ferð, var með vélsleða og var ákveðið að fara upp á jökulinn. Mannskapurinn var selfluttur upp og fór Jón fyrstur ásamt mági sínum sem skildi hann eftir með kíki og fór eftir næsta manni. Þegar hann kom aftur hafði Jón hins vegar fallið ofan í sprunguna. Snjóskafl huldi botn sprungunnar þar sem Jón lenti og slapp hann með minniháttar meiðsli. Mágur Jóns leitaði um stund og fann hann ofan í sprungunni og fór niður eftir hjálp. Á leiðinni niður ók hann fram á fjóra menn. Svo vel vildi til að það voru menn úr björgunarsveit Ingólfs í Reykjavík sem voru að leita að hentugu æfingasvæði fyrir stóræfingu sem fram á að fara um næstu helgi. Þeir voru ánægðir með að vera á staðnum en helst hefðu þeir viljað að þetta hefði gerst helgina eftir.

Féll í grjótmulningsvél fyrir 8 árum Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Jón Auðunn lendir í svipuðu óhappi. Fyrir átta árum starfaði hann hjá verktaka í sumarleyfi frá skóla og þá féll hann ofan í síló grjótmulningsvélar. Hann meiddist illa á fótum en slapp á undraverðan hátt við frekari áverka.

„Það flugu margar hugsanir um huga minn þótt ég væri ekki þarna niðri nema í um 20 mínútur og biðin var ömurleg. Um tíma óttaðist ég það að jökulinn færi á hreyfingu og sprungan myndi lokast en ég útilokaði fljótt þá hugsun. Þegar ég hins vegar féll þá fannst mér ég vera að falla ofan í grjótmulningsvélina aftur. Það var svo skrítið að þrátt fyrir að 8 ár séu liðin síðan það gerðist þá birtist minningin mér ljóslifandi. Ég var viss um að þetta væru endalokin og sagan væri að endurtaka sig með verri endi. Eini munurinn var að nú var slysið minni flónsku að kenna,“ segir Jón Auðunn.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -