Miklar deilur áttu sér staðar í sveitarstjórn Vesturbyggðar árið 1994. „Ég er búinn að sitja í sveitarstjórn í átta ár og ég hef getað lynt við þá sem ég hef starfað með. Ég hef aldrei fyrr upplifað þennan fautagang og þau vinnubrögð sem alþýðubandalagsmenn standa fyrir inni í sveitarstjórninni. Þessi ófriður byrjaði með tilkomu þeirra og þetta er nánast eins og vitleysingahæli,“ sagði Gísli Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, í samtali við Vísi árið 1994 en miklar deilur höfðu skapast vegna ársreikninga sveitarfélagsins. Þegar fyrsta umræðan um þá fór fram yfirgaf minnihlutinn fundinn í mótmælaskyni. Því var samningurinn samþykktur til seinni umræðu af meirihlutanum en samkvæmt DV var sá meirihluti skipaður af Sjálfstæðismönnum og „krötum.“ „Ef menn mega ekki gagnrýna neitt eða hafa orð á því sukki og svínaríi sem á sér stað þá getur vel verið rétt að við séum friðarspillar. Málið er bara svo einfalt að það er ekki hægt að horfa upp á þetta lengur,“ sagði Einar Pálsson, fulltrúi Óháðra, um málið. Hann sagði að minnihlutinn hafi kært forseta bæjarstjórnar til félagsmálaráðherra vegna þess að minnihlutanum hafi verið meinaður aðgangur að bókhaldsgögnum bæjarins.