Þrír 17 ára piltar gengu bersersksgang í Grafarnótt aðfararnótt föstudagins 13. maí árið 1994 og skildu eftir sig slóð eyðileggingar.
Ríflega þrítugur maður slapp vel eftir að hafa haft afskipti af þremur unglingspiltum í annarlegu ástandi í maí 1994. Eftir að hafa komið að þeim róta í bifreið sem var fyrir utan heimili mannsins, fóru drengirnir á brott en þegar maðurinn hóf að elta þá, réðust þeir að honum með hamri og grjóti. Lét maðurinn segjast og hætti eftirförinni en eiginkona hans hafði þá þegar hringt í lögregluna, sem handtók þá. Kom þá í ljóst slóð eyðileggingar eftir piltana en þegar þeir voru handteknir og settir inn í lögreglubíl, létu þeir öllum illum látum og neyddist því lögreglan til að hringja eftir auka mannskap, til að hafa hemil á þeim.
DV fjallaði um málið á sínum tíma en hér má lesa fréttina:
Þrír piltar gengu berserksgang í Grafarvogi í nótt:
Réðust að manni með hamri og grjóti – Kalla þurfti að aukalið lögreglu til að hemja þá í lögreglubíl
„Ég veitti þeim eftirför og þegar ég náði þeim í annað skiptið tókst mér að halda einum þeirra í skamman tíma. Hinir komu þá með hamar og skrúfjárn og köstuðu að mér grjóti. Þeir slógu til mín en ég hafði vit á að forða mér og lét þetta gott heita og fylgdist bara með þeim. Þeir virtust hafa það eitt í huga að standa saman,“ sagði 32 ára gamall maður í Grafarvogi sem varð vitni að því þegar þrír 17 ára piltar brutust inn í bíl fyrir utan heimili hans. Hann vill ekki láta nafns síns getið af ótta við að piltarnir reyni að koma fram hefndum. „Þeir sögðu mér að halda mig á mottunni annars hlyti ég verra af seinna meir.“ Piltarnir voru að róta í bílnum þegar maðurinn sá til þeirra og fór hann út til að hafa afskipti af þeim. Konan hans hringdi hins vegar í lögregluna á meðan. Piltarnir fóru í burtu en maðurinn veitti þeim eftirför eins og fyrr sagði. „Þeir voru búnir að stela olíuvörum úr bílum, rífa upp trjágróður. stela fatnaði af þvottasnúrum og úr einum bílanna stálu þeir samkvæmiskjól – sem þeir kveiktu reyndar í. Ég held þeir hafi farið yfir um á einhverri bensín vímu því þeir lyktuðu af bensíni og voru alveg óðir. Það var eyðileggingarslóð eftir þá enda vaknaði fólk í hverfinu upp við hávaðann í þeim.“
Samkvæmt upplýsingum lögreglu i morgun gerðu piltarnir víðreist um hverfið og stálu meðal annars reiðhjólum sem þeir voru á og fleiru. Átti lögreglan allt eins von á því að tilkynningar um fleiri spellvirki piltanna bærust í dag. Þegar lögreglan kom á vettvang klæddu piltarnir sig í fatnað sem þeir höfðu stolið svo að lögreglan ætti erfiðara með að þekkja þá. Hlupu þeir hver í sína áttina en voru handteknir og færðir í lögreglubíl. Þar létu þeir mjög ófriðlega og þurfti að kalla til aukamannskap til að ráða við þá. Það tókst og gistu þeir fangageymslur í morgun.