Í Fréttablaðinu árið 2003 var greint frá því að ónafngreindur starfsmaður Tollstjóra hafi verið handtekinn vegna barnaníðsefni en við húsleit fundust rúmlega 300 myndbandsspólur sem innihéldu slíkt efni.
Lögreglan framkvæmdi einnig leit í tölvum mannsins hjá Tollstjóra en maðurinn hafði starfað í 19 ár hjá embættinu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins heimsótti maðurinn reglulega klámsíður á vinnutíma og tók samstarfsfólk hans eftir því. Snorri Olsen tollstjóri sagðist ekki vita hvort eitthvað efni hafi fundist á tölvum mannsins í vinnunni og hann væri saklaus um brot í opinberu starfi þar til annað kæmi í ljós en tók þó fram að maðurinn hafi sagt upp vinnu sinni.
„Strax og málið kom upp sagði hann upp starfi sínu og hætti,“ sagði Snorri við Fréttablaðið árið 2003. Þá sagði einnig í fréttinni að maðurinn sem um ræddi hafi verið fyrrverandi útvarpsmaður sem naut mikilla vinsælda. Á einum tímapunkti hafi manninum verið sagt upp eftir að upp komst um að hann hafi verið að safna barnaníðsefni en endurráðinn þegar nýr eigendur tóku við útvarpsstöðinni.
Þá hafi maðurinn einnig starfað í sumarbúðum KFUM. „Hann varð ekki uppvís að neinu misjöfnu, heldur þótti lélegur starfsmaður og var látinn fara,“ sagði Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri hjá KFUM og KFUK um manninn.
Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni í Reykjavík lýsti því yfir að málið væri hið umfangsmesta sem komið hefði upp á Íslandi.