Laugardagur 15. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Á enga sök á ástandinu: „Ég er bara gamall karl og því verður ekki breytt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ósætti hefur ríkt innan veggja SÁÁ um nokkurt skeið. Spjótin hafa m.a. beinst að Þórarni Tyrfingssyni, fyrrverandi yfirlæknis og stjórnanda á Vogi. Þrátt fyrir að Þórarinn hafi hætt klínísku starfi í maí 2017 og ekki unnið við meðferðina á stofnuninni síðan þá gegnir hann enn hlutverki innan samtakanna, jafnvel of stóru að mati ýmissa heimildamanna Mannlífs og er hann sakaður um að hafa að tjaldarbaki unnið gegn núverandi yfirmönnum heilbrigðissviðsins. 

 

„Ég reyni að segja allt gott, það eru ekki góðir tímar,“ segir Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir og framkvæmdastjóri Vogs, þegar viðbragða hans var leitað um deilurnar sem uppi eru innan SÁÁ. Þar vísar hann til útbreiðslu kórónuveirunnar en hann er heldur ekki par hrifinn af umræðu undanfarinna daga um starfsemi SÁÁ og því að vera dreginn inn í umræðuna þar sem hann hefur meðal annars verið sakaður um svokallaðar hrútskýringar á stjórnarfundum.

„Ég er bara gamall karl og því verður ekki breytt. Ég fer ekki að fara í kynskiptiaðgerð orðinn þetta gamall og menn mega alveg kalla mig hrút. Ég skammast mín ekkert fyrir það að vera karlmaður og ekki heldur fyrir það sem ég hef gert fyrir samtökin SÁÁ,“ segir Þórarinn.

Enginn leppur

Aðspurður segist Þórarinn ekki vera sá áhrifamaður sem haldið hefur verið fram í umræðunni síðstu daga. Hann segir það ljóst að Arnþór stjórnarformanni sé ekki fjarstýrt.

- Auglýsing -

„Starfsemi SÁÁ stendur ekki og fellur með einum manni. Sú umræða er rugl og ég skil að hún komi upp þegar fólk verður hrætt eða óöruggt. Kjölfesta samtakanna er 48 manna aðalstjórn, það er enginn einn maður sem þarna ræður. Hlutverk stjórnar er að gæta hagmuna samtakanna enda miklar eignir sem þau eiga og vernda alla þá þekkingu sem þarna má finna, meðal annars hjá þeim sem þarna starfa og þeim sem eru þarna hættir,“ segir Þórarinn.

Ítarlegri umfjöllun í helgarblaðinu Mannlíf.

„Ég geri mér ekki grein fyrir því af hverju er verið að mála mig sem vonda kallinn. Þarna hef ég unnið frá því ég varð til sem læknir og ég vissi ekki betur en að þarna væri allt í lukkunnar velstandi. Ég er ósköp venjulegur maður og treysti á það sjálfur að ég sé góð manneskja. Það verður ekki af stjórnarformanninum tekið að hann var kosinn þarna inn og situr þar í fullu umboði aðalstjórnar. Mér finnst verið að gera lítið úr fólki þegar gefið er í skyn að honum sé fjarstýrt fram og til baka. Arnþór er ekki minn leppur, hann er sjálfstæður maður með mikla reynslu úr lífinu og í starfi.“

Hryggur yfir stöðunni

- Auglýsing -

Aðspurður hafnar Þórarinn því alfarið að bakvið tjöldin beiti hann áhrifum sínum til að sverta starf núverandi stjórnenda Vogs. Hann gefur ekki mikið fyrir umræðu um að hann fari fram af karlrembu á stjórnarfundum. „Ég get ekki svarað þessu öðruvísi en að ég hef ekkert verið þarna á þessari starfstöð. Ég er kominn út úr þessu öllu og sit ekki í framkvæmdastjórn. Ég er hryggur yfir því hvernig staðan er. Ég á enga sök á því og hef hvergi komið þarna nærri á nokkurn hátt enda ekki með neitt umboð til þess. Fólk verður bara að axla sína ábyrgð í þessu,“ segir Þórarinn og ítrekar að hjá SÁÁ séu tveir stjórnendur að heilbrigðisstofnunum samtakanna.

„Fólk verður bara að axla sína ábyrgð í þessu.“

„Það er annars vegar framkvæmdastjórn SÁÁ sem leggur til gríðarlegt fjármagn og starfsmennirnir eru ekki fulltrúar þess fjármagns. Svo eru það yfirmenn og millistjórnendur, þar er heldur enginn einn maður sem ber ábyrgð á öllu saman. Núna verður stjórnskipulag samtakanna, framkvæmdastjórnin og starfsfólkið, að takast á við þetta og leysa þetta.“

Nánar um málið í helgarblaðinu Mannlíf.

Sjá einnig: Dropinn sem fyllti mælinn

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -