Miðvikudagur 24. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Ætlar „alla leið“: „Áverkar á barninu voru slíkir að læknir brast í grát þegar hann lýsti þeim“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hinn 13. júní 2016 var Kaj Anton Arnarson dæmdur í 26 mánaða fangelsi fyrir að hafa misþyrmt tveggja ára dreng hrottalega. Árásirnar áttu sér stað um tveggja daga skeið í október 2015. Áverkar drengsins líktust helst því að hann hefði lent í bílslysi. Hann var tvíhandleggsbrotinn, með heilahristing og áverka um allan líkamann.

Kaj Anton hafði nýlega endurnýjað kynni sín við móður drengsins og var gestkomandi á heimili mæðginanna í Stavanger í Noregi. Móðir drengsins hafði nýverið fengið vinnu í bænum og bauðst Kaj Anton til þess að gæta drengsins heima við. Það traust misnotaði hann gróflega.

Kaj Anton afplánaði dóminn í sérstöku fangelsi fyrir barnaníðinga

Kaj Anton sat í gæsluvarðhaldi í átta mánuði vegna málsins eða þangað til að dómur féll í málinu 13. júní 2016. Réttað var yfir Kaj í Jæren Tingsrett, dómstólnum í Sandnes í Noregi. Kaj var dæmdur fyrir að hafa veitt barninu alvarlega áverka. Barnið handleggsbrotnaði, var með áverka á höfði, mar á hrygg, hnjám og rist.

Kaj neitaði sök og hélt því fram að barnið hefði dottið oftar enn einu sinni. Stundin greinir frá því að lögfræðingur Kaj hefði ætlað að áfrýja dómnum. Hann ætlar „alla leið,“ eins og lögfræðingurinn orðaði það.

Áverkar á barninu voru slíkir að læknir brast í grát þegar hann lýsti þeim í vitnastúku. Kaj Anton hélt fram sakleysi sínu.

- Auglýsing -

Málið vakti mikinn óhug

Þegar málið kom upp á sínum tíma vakti það mikinn óhug, bæði í Noregi og á Íslandi. Í frétt DV segir að þennan örlagaríka föstudag, 23. október 2015, hafði íslensk móðir barnsins treyst Kaj Antoni fyrir því að passa tveggja ára barn sem gat ekki mætt í leikskóla sökum veikinda. Móðirin hafði, samkvæmt upplýsingum DV, verið nýbyrjuð í nýrri vinnu og átti erfitt um vik að fá frí. Kaj Anton var treyst fyrir barninu. Þegar móðir barnsins kom heim uppgötvaði hún að barn hennar væri illa slasað. Fór hún með það á sjúkrahúsið í Stavanger í skyndi.

Kaj Anton mætti þangað skömmu síðar. Það sem kallað hefur verið ótrúverðugar útskýringar hans á áverkum barnsins, urðu til að vekja grunsemdir lækna sem kölluðu til lögreglu sem handtók Kaj Anton. Kaj Anton hélt alltaf fram að barnið hefði dottið oftar enn einu sinni.

Í dómsal var andrúmsloftið þungt. Bekkurinn var þéttsetinn af aðstandendum sem fylgdust með aðalmeðferðinni. Læknar og hjúkrunarfræðingar, sem sinntu barninu á sjúkrahúsinu, voru meðal þeirra sem gáfu vitnisburð á fimmtudagsmorgun. Viðstaddir veittu því sérstaka athygli að málið reyndist fagfólkinu sumu hverju mjög þungbært.

- Auglýsing -

Hlægileg refsing

Aðstandendur litla drengsins sem var misþyrmt sögðu refsinguna  „hlægilega“ í samtali við Stundina á þessum tíma.

Áverkarnir koma ekki heim og saman við frásögn Kaj Antons.

Engin fékk að vera við dómsuppkvaðningu, þess í stað fékk móðir drengsins símtal þar sem henni var tjáð að Kaj Anton hafi verið fundinn sekur og þá upphæð sem drengurinn hafi fengið í miskabætur. Blaðamaður Stundarinnar fjallaði ítarlega um málið á þeim tíma frá því það kom upp í október 2015. Samkvæmt dómsskjölum eru upplýsingar sem fram komu í fréttinni á pari við það sem fór fram í dómssalnum. Þar hélt Kaj Anton því meðal annars fram að barnið hafi dottið tvisvar, mögulega þrisvar. Það hafi gerst út frá einhverri tegund eltingaleiks þar sem barnið hljóp undan Kaj Antoni. Barnið hafi dottið tvisvar á sama stað, á sama þröskuldi, tvo daga í röð.

Áverkarnir, samkvæmt læknum og starfsfólki sjúkrahússins sem bar vitni fyrir dómnum, komu ekki heim og saman við frásögn Kaj Antons en áverkarnir sem barnið hlaut eru í líkingu við það sem börn á hans aldri hljóta í alvarlegum bílslysum.

Sagðist vera saklaus

Kaj Anton Arnarsson sagði í samtali við DV árið 2017 vera saklaus af því að hafa misþyrmt tveggja ára íslenskum dreng í Noregi. Hann lýsir dómi sínum í Noregi sem réttarmorði og hyggst fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Kaj vildi lítið tjá sig um málið á þessu stigi en segir þó margt ósagt.

Kaj Anton kom til Íslands í nóvember 2016 og afplánaði eftirstöðvar dómsins á Litla-Hrauni. Hann er nú laus þaðan og var kominn með vinnu í Reykjavík, um það bil ári eftir að dómur féll í Noregi. Kaj var ákærður í október árið 2015 og hafði setið átta mánuði af sér þegar dómur féll. Hann hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu.

Í samtali við DV sagði hann: „Mín hlið hefur ekki komið fram. Það sem gerðist í réttarsalnum hefur ekki komið fram. Það er búið að grilla mitt mannorð fyrir eitthvað sem ég gerði ekki. Það hefur líka ekki komið fram að ég er dæmdur á líkindum, það eru engar sannanir fyrir því að ég hafi lamið eitthvað barn. Ég myndi aldrei gera það, þú þarft að vera eitthvað veikur í hausnum til að geta lamið lítið barn,“ segir Kaj sem hyggst segja sína hlið á málinu í heild sinni þegar málið er komið lengra á veg.

Var í fyrstu hræddur en líður betur

Stundin fjallaði ítarlega um málið þar var meðal annars fullyrt að við leit móðurinnar á heimili sínu hafi hún fundið umbúðir utan af núðlupakka. Í þessum tómu umbúðum fundust hárflyksur frá drengnum en á stóru svæði á höfði hans vantaði hársbút. Þá voru birtar myndir af áverkum drengsins, meðal annars slæmu glóðarauga sem drengurinn var með.

Í viðtali við Stundina, sagði Sindri Kristjánsson, faðir drengsins, að piltinum liði talsvert betur í dag. „Honum líður ótrúlega vel miðað við það sem hann hefur gengið í gegnum. Í fyrstu var hann mjög hræddur og öll læti urðu til þess að koma honum úr jafnvægi. Ef það var bankað á útidyrahurðina þá hljóp hann í fangið á mér.

„Þarna hefur barnaverndarnefndin hér í Noregi komið sterk inn. Þessi sálfræðiviðtöl sem við foreldrarnir höfum fengið, og strákurinn líka, hafa orðið til þess að við vitum betur hvernig á að kljást við svona áfall,“ sagði Sindri þá.

 

Heimildir:

Atli Már Gylfason. 14. júní 2016. Kaj Anton ætlar að áfrýja: Gæti fengið þyngri dóm. Stundin.

Björn Þorfinnsson. 27. ágúst 2016. Þetta eru Íslendingarnir sem sitja inni í fangelsum erlendis.Sitja inni í Bandaríkjunum, Brasilíu, Ástralíu, Þýskalandi, Spáni og Noregi. DV.

Dóms- og lögreglumál · Innlent. 14. júní.2016. Íslendingur dæmdur fyrir að misþyrma barni. RÚV.

Hjálmar Friðriksson. 21. júní 2017. Kaj Anton segist saklaus: „Það eru engar sannanir fyrir því að ég hafi lamið eitthvað barn“ DV.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -