Sunnudagur 21. apríl, 2024
4.8 C
Reykjavik

Brexit fyrirferðamikið í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Utanríkisráðherra mun í dag kynna skýrslu um stöðu Íslenskrar utanríkisþjónustu fyrir þinginu. Skýrslan var birt á vef þingsins í gær en umræða um hana fer fram á á þingfundi um klukkan tvö í dag.

 

Mikið áunnist að mati ráðherra

„Þegar ég tók við embætti utanríkisráðherra á sínum tíma einsetti ég mér að gera umbætur á íslenskri utanríkisþjónustu svo hún yrði enn betur í stakk búin til að mæta áskorunum samtímans,“ segir utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, í inngangi skýrslunnar. Þá segir ráðherra að hann sjái glöggt nú þegar hann skila skýrslunni hve mikið hafi áunnist í ráðherratíð sinni. „Þær skipulags- og áherslubreytingar sem ég setti í forgang á fyrstu vikum mínum í embætti hafa þegar skilað árangri og fyrirhuguð forystuverkefni Íslands á alþjóðavettvangi eru að verða að veruleika hvert af öðru.“

Utanríkisráðherra á fundið með EES-ráðinu

Framlag Íslands vel metið
„Það hefur komið mér þægilega á óvart hversu vel framlag okkar á alþjóðavísu er metið. Til okkar er horft þegar fjallað er um mannréttindi um allan heim, ekki síst jafnan rétt kvenna og karla. Íslendingar hafa um árabil verið í fararbroddi þeirra ríkja sem nýta auðlindir hafs og lands með sjálfbærum hætti og frá þeirri stefnu verður ekki hvikað. Bætt hefur verið um betur með takmarki ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040, enda höfum við forsendur til að verða einnig leiðandi á því sviði,“ segir í skýrslunni.

Skýrslan er ítarleg og fer yfir samskipti Íslands við mikilvægustu viðskiptaþjóðir auk þess að lista flest verkefni utanríkisþjónustunnar.

Samráð vegna Brexit

Brexit forgangsverkefni
Úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu er eitt viðamesta verkefni utanríkisþjónustunnar um þessar mundir. Ítarlega er fjallað um vinnu vegna þess í sérstökum kafla skýrslunnar. „Frá því að Bretar kusu að ganga úr Evrópusambandinu (ESB) í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní 2016 hefur umfangsmikið starf verið unnið innan utanríkisþjónustunnar og víðar í stjórnkerfinu til að gæta hagsmuna Íslands vegna Brexit. Útganga Bretlands úr ESB hefur í för með sér að samningar Íslands við ESB ná ekki lengur yfir Bretland en þar skiptir samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) mestu máli. Umfangsmikil viðskipti og náin samskipti eru á milli Íslands og Bretlands á mörgum sviðum sem grundvallast að miklu leyti á EES-samningnum og öðrum samningum við ESB.“

- Auglýsing -

Vinnan hefur að mestu gengið út á að tryggja að útgönguskilmálar sem Bretar hafa samið um við ESB gildi um Ísland og önnur EFTA-ríki innan EES. „Þá hefur mikil vinna farið í að tryggja kjarnahagsmuni ef svo færi að Bretar gengju úr ESB án samnings. Að sama skapi hefur víðtækt undirbúningsstarf verið unnið til að skilgreina hagsmuni og markmið Íslands þegar kemur að framtíðarsamskiptum við Bretland.“ Á meðan Bretland er aðildarríki ESB hafa þeir ekki umboð til að gera framtíðarsamninga við önnur ríki. Í skýrslunni kemur fram að samskipti Íslands og Bretlands í framtíðinni muni taka mið af samskiptum ESB og Bretlands. Þær samningaviðræður hefjast ekki formlega fyrr en eftir útgöngu landsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson með Jeremy Hunt utanríkisráðherra Bretlands.

Um 3000 Íslendingar búa í Bretlandi
Ráðherra segir í skýrslunni að Bretland sé meðal mikilvægustu vinaþjóða Íslands og einn af stærri mörkuðum fyrir útflutningsvörur. „Það er því forgangsverkefni íslenskra stjórnvalda að tryggja að tengsl Íslands og Bretlands verði áfram sterk og að íslenskir aðilar hafi greiðan aðgang að Bretlandi og breskum mörkuðum, eins og þeir hafa notið í krafti EES-samningsins og annarra samninga Íslands við ESB.“

Brexit stöðugt á dagskrá
Í skýrslunni kemur fram að málefni Bretlands og Evrópusambandsins séu stöðugt á dagskrá. „Frá ársbyrjun 2017 hefur utanríkisráðherra átt 17 fundi með breskum ráðherrum og þingmönnum, þar af 10 á undanförnu ári, og embættismenn ríkjanna átt um 300 fundi. Meðal funda utanríkisráðherra undanfarið má nefna fundi með Dominic Raab, þáverandi útgöngumálaráðherra Bretlands, Liam Fox, utanríkisviðskiptaráðherra Bretlands, og Michael Gove, ráðherra umhverfis-, byggða- og matvælamála, í London síðastliðið haust. Einnig átti utanríkisráðherra fund með Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, fyrr um haustið. Utanríkisráðherra átti annan tvíhliða fund með Jeremy Hunt í mars 2019 þar sem undirritað var samkomulag á sviði öryggismála. Mikill samhljómur er um að tryggja áframhaldandi góð samskipti Íslands og Bretlands og tryggja að hagstæð viðskipti geti haldið áfram. Þá hafa ráðherrar EFTA-ríkjanna innan EES fundað reglulega með Michel Barnier, aðalsamningamanni ESB, í nóvember síðastliðnum og utanríkisráðherra átt tvíhliða fundi með öðrum úr framkvæmdastjórn ESB. Þá ber Brexit iðulega á góma á fundum með evrópskum ráðamönnum.

- Auglýsing -

Ríkulegt samráð hefur verið átt við Alþingi, bæði í umræðum í þingsal og í utanríkismálanefnd. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins hafa mætt tíu sinnum fyrir nefndina frá því í ársbyrjun árið 2017 og þar af hefur utanríkisráðherra komið fyrir nefndina fimm sinnum. Þá hefur verið haft samráð við íslenska hagsmunaaðila í gegnum vinnuhópana, eins og greint er frá hér að ofan, og á fjölsóttum upplýsingafundum sem utanríkis- ráðuneytið hefur staðið fyrir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -