Laugardagur 27. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Íbúar fóru með bænir vegna drauga í Bústaðahverfi: „Þá bar ég fyrir mig hendurnar og brann illa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Uppnám var ríkjandi í húsi við Bústaðaveg í Reykjavík árið 1994. Í íbúð nokkurri var vart líft fyrir óróleika, að sögn Hreiðars Jónssonar, sem upplifði hluti sem einkenndust af eldglæringum og norðurljósum. DV fjallaði um málið á sínum tíma og ræddi við aðila málsins og álitsgjafa.

Í forsiðuuppslætti DV 5. maí þetta ár segir að óvættir hafi verið hraktir úr húsi við Bústaðaveg. Rætt var við miðil og íbúa sem staðfastlega lýstu ófremdarástandi í íbúðinni.

„Það skipti engum togum að kvöldið sem ég kom frá þessum miðli varð allt nánast vitlaust hér inni. Það má segja að það hafi verið sambland af eldglæringum og norðurljósum,“ sagði Hreiðar Jónsson, eigandi íbúðarinnar við Bústaðaveg.

Hann lýsti því í DV að þetta hefði hafist þremur árum fyrr þegar hann hefði byrjað að sjá „óskýranlegar myndir fyrir augum sér“.

Í eitt skipti kom þetta að mér í nautsformi

Tveimur vikum fyrir viðtalið hafði hann svo leitað til bresks miðils. Þá hafi ýmislegt verið búið að ganga á. Meðal annars hafi einhverju verið brugðið um hálsinn á konu hans í atganginum. Þá hafi ágangurinn verið svo mikill að þjófavarnakerfi hafi farið í gang í nærliggjandi verslun. Hann og kona hans höfðu reynt apð fara með bænir gegn bölvaldinum en ekkert dugði.

- Auglýsing -

„Þetta hélt svo áfram í nokkrar nætur, rúmið gekk til og það var hreyfing á öllu hvar sem við settumst niður, sérstaklega þegar við báðumst fyrir. Í eitt skipti kom þetta að mér í nautsformi og þá bar ég fyrir mig hendurnar og brann illa á þeim en bruninn kom frá mér sjálfum því ég hef svo mikinn kraft í mér,“ sagði Hreiðar í viðtali við DV.

Miðill til hjálpar

Hreiðar hafði samband við Njál Torfason miðil að tilstuðlan Sálarrannsóknafélags Íslands. Njáll hófst strax handa við að hreinsa út óværuna. Hann lýsti ástandinu þannig: „Þegar ég kom hingað fann ég fyrir fólki hér. Ég liðsinnti því, fór með faðirvorið og bað það að fara sína leið, betri leið, og fara sem sagt upp. Ég sá allar þessar verur en annað slagið var eins og það kæmi svona rafspenna. Ég fór herbergi úr herbergi og fór ekki úr þeim fyrr en ég var búinn að hreinsa hvert og eitt og loka þeim. Þá meina ég ekki að loka dyrunum heldur hreinsa þau. Eftir að búið var að hreinsa herbergi var eins og hleypt væri loftþrýstingi af manni. Það er eins og maður hafi búið við yfirþrýsting í langan tíma,“ sagði Njáll eftir aðgerðirnar.

Rauð vera

Það vakti athygli blaðamanns DV að Njáll og Hreiðar teiknuðu báðir verurnar sem voru á ferli, á blað hvor í sínu lagi og bar þeim saman í öllum meginatriðum. Segja þeir aðra veruna á teikningunum fulltrúa hins illa og geta tekið á sig ýmsar myndir. Hin sé rauð að lit og sé fulltrúi reiðinnar. Hún hafi hvolfst inn í sjálfa sig og orðið að eldi.

- Auglýsing -

Njáll sagði blaðamanni að hann starfaði sem nuddari en hann sé skyggn og hafi aðstoðað fólk sem hafi átt í vandræðum. Hann sagðist búa yfir ógnarkrafti, sem komi frá ljósinu eða Guði. Hann vill alls ekki kalla þetta særingar heldur séu þetta eins konar samningaviðræður þar sem hann hjálpi fólki eða öndum að komast inn á rétta braut. Ótrúleg orka fari í þetta en hann hafi nóg af henni og hafi á skömmum tíma beint verum í sex húsum á rétta braut.

Kertaljós og hvítir krossar.

„Svo þegar þetta er búið birtir til og ég sé ekkert annað en kertaljós, hvíta krossa og svo kemur engill sem fer um allt á eftir. Þegar ég hef lokið verki mínu er eins og búið sé að létta af mér fleiri, fleiri kílóum. Mér líður ótrúlega vel,“ sagði Njáll árið 1994.

Bæði Njáll og Hreiðar lýstu því að samhliða þessum látum hafi verið mikil orka. Til dæmis hafi Hreiðar tíðum þurft að fara með rafmagnstæki á heimilinu í viðgerð en þegar hann hafi komið að ná í þau hafi hann fengið þau til baka með þeim orðum að ekkert væri að þeim. Það var reyndar eftir að Njáll hreinsaði út að Hreiðar og konan hans gátu horft á sjónvarpið.

Hundruð hjálparbeiðna vegna drauga

DV ræddi einnig við Konráð Adolfsson, forseta Sálarrannsóknafélags Íslands, sem sagði að árið 1994 hefði  félaginu borist á milli sex og sjö hundruð beiðnir um aðstoð vegna óvætta í húsum.

Stundin hafði á sínum tíma samband við Sálarrannsóknafélagið á Akureyri. Anna Guðný Egilsdóttir, stjórnarmaður í félaginu, segir að félagsmönnum berist gjarnan erindi um aðstoð vegna reimleika.

„Hjá okkur er um að ræða um það bil eitt tilvik í mánuði að meðaltali. Erindin berast okkur í gegnum aðra félagsmenn og allavega. Við bregðumst við með því að senda hlýjar hugsanir eða að biðja fyrir fólki.“

Greinin er byggð í upphafi á DV og samantekt Stundarinnar. Höfundur er sá sami í öllum tilvikum. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -