Þriðjudagur 15. október, 2024
6.7 C
Reykjavik

„Ég tel að atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði geti tryggt nafnleysi þolenda“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, var í nefnd velferðarráðuneytis um endurskoðun reglna um einelti og kynferðislega áreitni á vinnustöðum sem vann tillögu að núgildandi reglugerð þar um. Hún segir ástæðu þess að ekki er fjallað um nafnleynd í reglugerðinni vera þá að þegar reglugerðin var samin, árið 2015, hafi umræðan í þjóðfélaginu verið önnur en nú og taka þurfi tillit til breyttra viðhorfa í þjóðfélaginu þegar reglugerðin er túlkuð.

 

„Meginmarkmið reglugerðar nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er að koma í veg fyrir og stöðva slíka hegðun,“ útskýrir Sonja. „Í málum sem þessum þurfa atvinnurekendur að upplýsa málið og komast að niðurstöðu um hvort áreitni hafi átt sér stað. Í kjölfarið þarf þá að meta hvernig sé hægt að stöðva hegðunina. Þó nokkur dæmi eru um að aðstæður séu með þeim hætti að atvinnurekandi og þeir sem hafa lagt fram kvörtun telji að ekki sé hægt að stöðva hegðun með áframhaldandi nærveru þess sem kvörtun beinist gegn.“

Í umræðunni um mál Atla Rafns hefur því verið haldið fram að uppsögnin hafi verið ólögleg, hvernig metur þú það?

„Niðurstaða dómsins byggir á því. Að jafnaði hafa atvinnurekendur og launafólk á almennum vinnumarkaði heimild til þess að segja ráðningarsamningum upp,“ segir Sonja. „Ef staðið er rétt að uppsögn og uppsagnarfresturinn er virtur þá lýkur ráðningarsambandinu almennt án frekari eftirmála. Ef uppsögn er vegna meints brots launamanns þarf atvinnurekandi að sýna fram á að brotið hafi átt sér stað.“

Atvinnurekanda skylt að virða trúnað

Málareksturinn byggir að stórum hluta á því að Atli Rafn hafi ekki verið upplýstur um hverjir það voru sem sökuðu hann um áreitni. Á sá sem vikið er úr starfi skilyrðislausan rétt á því að fá að vita nöfn þeirra sem hafa kvartað undan honum?

- Auglýsing -

„Það er ekkert í lögum sem tryggir starfsmanni á almennum vinnumarkaði réttinn til að vita nöfn þeirra sem kvörtuðu undir þessum kringumstæðum,“ fullyrðir Sonja. „Heldur þvert á móti er atvinnurekanda skylt að halda og virða trúnað sé þess óskað eins og Persónuvernd komst að niðurstöðu um.

Ástæða þess að ekki er fjallað um nafnleynd eða skyldu atvinnurekanda til að upplýsa um nöfn þeirra sem kvarta í reglugerðinni varðandi áreitni er að umræðan var ekki á sama stað í aðdraganda setningar reglugerðarinnar. Umræðan snerist nánast eingöngu um það hvernig mætti stuðla að því að þolendur leituðu sér aðstoðar og tryggt að það væri viðeigandi ferli sem tæki við á vinnustaðnum. Það voru engin dæmi um það þá að fólk óskaði eftir því að stíga fram án þess að nafns þess væri getið og almennt mjög fá dæmi um að þolendur væru að stíga fram yfir höfuð. Lög og reglur gera ekki ráð fyrir öllum mögulegum aðstæðum og því þarf að túlka þau í samræmi við markmið þeirra.“

„Það er ekkert í lögum sem tryggir starfsmanni á almennum vinnumarkaði réttinn til að vita nöfn þeirra sem kvörtuðu undir þessum kringumstæðum. Heldur þvert á móti er atvinnurekanda skylt að halda og virða trúnað sé þess óskað eins og Persónuvernd komst að niðurstöðu um.“

Er atvinnurekandi þá í fullum rétti að halda nöfnum ásakenda leyndum? Hvað með rétt þess sem ásakaður er til að verja sig?

- Auglýsing -

„Ég tel að atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði geti tryggt nafnleysi þolenda og stuðlað þannig að því að starfsfólk treysti sér til að leita aðstoðar vegna áreitni eða ofbeldis á vinnustað,“ segir Sonja. „Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að það sé farvegur fyrir þolendur og að þeir geti treyst því að atvinnurekandi bregðist við og hegðunin verði stöðvuð. Atvinnurekendur þurfa þá að rannsaka málið og komast að niðurstöðu um hvort áreitnin eða ofbeldið hafi átt sér stað eða ekki. Í kjölfarið þarf svo að taka ákvörðun um framhaldið byggt á heildarhagsmunum og því miður þarf oft að taka þá erfiðu ákvörðun að vega saman hagsmuni þess sem kvartar á við hagsmuni þess sem kvartað er gegn. Opinberir atvinnurekendur geta hins vegar ekki tryggt nafnleynd einstaklinga sem stíga fram þar sem ólíkar reglur gilda á opinberum vinnumarkaði og því er mikilvægt að samtalið um hver besta tilhögunin sé fari fram.“

Ekki í samræmi við aukna þekkingu

Annað sem mikið hefur verið rætt er upphæð bótanna sem Atla Rafni voru dæmdar, finnst þér sú umræða eiga rétt á sér?

„Í þeim starfsmannamálum sem við höfum komið að varðandi uppsagnir hafa miskabætur fyrir dómi oft verið í kringum 800 þúsund krónur,“ segir Sonja. „Mörg þessara mála hafa verið afar íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi, fólk verið í þeim aðstæðum að eiga erfitt með að finna aðra vinnu, mikið neikvætt umtal um viðkomandi og þau jafnvel útskúfuð úr samfélaginu. Í máli Leikfélags Reykjavíkur eru starfsmanninum fyrrverandi dæmdar næstum tvöfalt hærri miskabætur. Það er óvenjulegt.“

Þannig að þér finnst dómurinn á skjön við ríkjandi viðhorf í samfélaginu?

„Þó nokkur dæmi eru um að niðurstöður dóma séu ekki í takt við aukna þekkingu og viðhorfsbreytingar í samfélaginu og má velta fyrir sér hvort þetta sé dæmi um slíkt,“ segir Sonja. „Það verður áhugavert að sjá niðurstöðu Landsréttar.“

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -