Föstudagur 14. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Fannst ég þurfa að elta mína hæfileika

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margir afreksíþróttamenn, sérstaklega í einstaklingsíþróttum, standa höllum fæti fjárhagslega þegar ferlinum lýkur og hafa ekki áunnið sér þau launatengdu réttindi og þá stöðu á vinnumarkaði sem jafnaldrar þeirra hafa gert. Júdókappinn Þormóður Árni Jónsson segist m.a. hafa unnið mikið á sumrin til að láta dæmið ganga upp.

 

Þormóður Árni fór á þrenna Ólympíuleika fyrir Íslands hönd. Spurður hvernig hann hafi fjármagnað æfingar og þátttöku í mótum segist hann alla tíð hafa unnið mikið á sumrin. Hann hafi svo tekið ströng æfingatímabil fyrir stórmót. „Í aðdraganda Ólympíuleika helgaði ég mig alveg íþróttinni og hætti í vinnunni,“ útskýrir hann.

Þormóður segir að fjölskyldan hafi lagt mikið á sig til að styðja við bakið á honum. Styrkir úr Afrekssjóði hafi hins vegar alveg staðið undir keppnisútgjöldum. Hann segist alltaf hafa vitað að hann yrði aldrei hálaunaður atvinnumaður í júdó. Það gefi hins vegar augaleið hann hefði getað einbeitt sér meira að íþróttinni hefði hann ekki þurft að vinna svona mikið inn á milli. Ást hans á júdó hafi dregið hann áfram. „Mér fannst ég þurfa að elta mína hæfileika.“

Greiddi ekki í lífeyrissjóð í 10 ár

Þormóður segist vita að fjármögnun sé erfið fyrir marga íþróttamenn. Hann hafi til að mynda brugðið á það ráð að búa lengi í Austur-Evrópu, þar sem ódýrara var að lifa. Sjálfur hafi hann svo rekið sig á það þegar ferlinum lauk að hafa ekki lokið háskólanámi sem þurfti til að geta sótt um þau störf sem hann hafði augastað á. Í ofanálag hafði hann enga alvörustarfsreynslu.

„Ég er ágætis námsmaður og hefði sennilega útskrifast með master 25 ára, ef ég hefði ekki verið í júdó.“ Hann skellti sér í meistaranám í markaðsfræði- og alþjóðaviðskiptum, að lokinni þátttöku á Ólympíuleikunum 2016, og lauk því námi. Áður hafði hann lokið BA-námi. Þormóður er í dag framkvæmdastjóri Júdósambands Íslands.

- Auglýsing -
Þormóður Árni Jónsson.

Styrkir eru ekki skilgreindir sem launatekjur. Þó að Þormóður hafi verið duglegur að vinna samhliða æfingum segist hann hafa farið á mis við heilan áratug þegar kemur að því að greiða í lífeyrissjóð, sem hann hefði annars gert sem launamaður. „Það er umtalsverður biti,“ segir hann og bætir við: „Ég á líka þrjú börn en fór aldrei í fæðingarorlof.“ Rétt til fæðingarorlofs hafa aðeins þeir sem hafa verið í vinnu. „Ég lét mig aldrei dreyma um að geta farið í fæðingarorlof.“ Hann segist vita að þetta reynist mörgum íþróttamönnum erfitt.

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -