Föstudagur 26. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

Formaður Neytendasamtakanna segir dæmi um að fólk missi húsnæði vegna smálánaskuldar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í hverri viku fær Neytendasamtökin tugi mála á borð til sín er varða smálánafyrirtæki. Almenn innheimta tekur að sér að innheimta fyrir þessi fyrirtæki. Vextir lánanna standast ekki íslensk lög og hafa Neytendasamtökin ítrekað sent fyrirspurnir til innheimtufyrirtækisins. Enn er þeim ósvarað.

„Til okkar leita fjöldi fólks sem tekið hafa smálán,” segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. „Almenn innheimta tekur að sér að innheimta fyrir þessi smálanafyrirtæki. Ólíkt öllum öðrum fyrirtækjum þá hafa þeir ekki svarað okkar fyrirspurnum. Sem er ótrúlega magnað.” Þá segir hann að smálanavextir sem þessi fyrirtæki krefjast standa ekki íslensk lög.

Tekið útaf reikningum í leyfisleysi

„Þegar þú ert að taka að þér innheimtu fyrir aðila þá þarftu að vita hvað þú ert að innheimta. Skuldarar hafa alltaf rétt á að vita hvernig skuldin þeirra er samansett,” segir Breki. „Þeir hafa ekki orðið við því að senda skjólstæðingum okkar sundurliðun á kröfunni heldur hafa þeir í sumum tilvikum laumast inn á reikninganna þeirra og tekið út af þeim, að þeim forspurðum.” Hann segir skýrt leyfi lántakans ekki liggja fyrir. „Það er háalvarlegt mál.”

„Þegar að fólk tekur smálán þá gengst það undir það að fyrirtækin megi taka útaf reikningnum þeirra fyrir upphæðinni” segir hann og bætir við; „En upphæðin sem þeir taka út er ólöglega há því hún ber ólöglega vexti.”

„Þegar það er ólögleg upphæð tekin útaf kortinu þínu er ákveðið ferli sem bankarnir og kortafyrirtækin eru með. Við hvetjum alla sem hafa orðið fyrir því að láta taka af reikningnum sínum fyrir smálánum að kanna hvort þeir eigi ekki endurkröfurétt.” Breki bendir lánþegum á að kvarta við bankann sinn, kortafyrirtækið eða hvoru tveggja. Ferlið sé hið sama og þegar óprúttnir aðilar stela kortaupplýsingum einstaklinga.

Segja starfsemina vera í Danmörku til að komast hjá íslenskum lögum

- Auglýsing -

Breki segir smálánafyrirtækin hafa skýlt sig á bak við erlenda starfsemi og sagst vera dönsk. Neytendasamtökin sendu erindi til Atvinnuvegaráðuneytisins í fyrra sem skipaði starfshóp til að rannsaka málið. Hópurinn skilaði skýrslu í febrúar 2019. „ Í skýrslunni kemur berlega fram að íslensk lög séu nógu sterk. Þeir sem lána í íslenskum krónum á íslensku til íslenskra lántaka ber að lúta íslenskum lögum.”

Breki segir samtökin hafa sent fyrirspurn út til umboðsmanns neytenda í Danmörku og fjármálaeftirlitsins. „Við erum búnir að fá eitt svar til baka, frá fjármálaeftirlitinu, sem segir að þeir hafi ekkert með þetta fyrirtæki að gera. Þetta starfi ekki í Danmörku.” segir hann og bætir við; „Þeir eru í sjálfu sér sammála niðurstöðu þessarar nefndar að danska fjármálaeftirlitið hafi ekkert vald eða umsjón með íslenskum lánum í íslenskum krónum.”

Dæmi um að lántakar missi íbúðir

- Auglýsing -

Breki segir þessa ólöglegu starfsemi fái að grassera þrátt fyrir allt. „Það er ekki nógu skýrt eftirlit eða ekki nógu miklar valdheimildir virðist vera.” Hann bætir við að ráðherra hefur boðað að sett verði ný lög. „Við auðvitað fögnum því en á meðan er fólk að missa íbúðirnar sínar og í stökustu vandræðum.”

„Við teljum með hverjum deginum sem líður er verið að níðast á fólki sem oft er ekki í stakk búið til að bera hendur fyrir höfuð sér.” Breki segir Neytendasamtökin fá hátt í tuttugu mál á borð til sín vikulega. „Þetta er erfitt líka, í sumum tilvikum fylgir þessu skömm. Fólk gerir það ekki að ganni sínu að taka smálán. Þetta er gert út úr neyð. Sumir gera þetta útfrá fátækt. Fólk hefur ekki til hnífs og skeiðar. Í öðrum tilvikum eru veikindi, sjúkdómar á bak við. Í mörgum tilvikum fíknisjúkdómar eða andleg veikindi.”

„Þeir meðbræður okkar í samfélaginu sem við ættum helst að halda hlífiskyldi yfir en erum að bregðast í þessum málum. Það er ótrúlegt af hvað miklu offorsi Almenn innheimta er að beita sér í innheimtu fyrir þessi fyrirtæki.”

Samfélags ábyrgð að stöðva þessa starfsemi

Almenn innheimta sækir þjónustu til Sparisjóðs strandamanna. Sjóðurinn útbýr greiðsluseðla til innheimtu fyrir smálánafyrirtækin. „Við erum búnir að leita eftir skýrum svörum frá Sparisjóði strandamanna,” segir Breki og bætir við; „Hvort þeir ætli að heimila þetta áfram. Við höfum bara fengið loðin svör frá þeim um að þeir ætli ekki að heimila ólöglega starfsemi en ekki hvort að þeir haldi áfram að þjónusta þetta fyrirtæki.”

Breki segir að með því að lýta undan, eru ýmis fyrirtæki að aðstoða við þessi smálán. „Mér finnst það eitthvað sem samfélagslega ábyrg fyrirtækja ættu að skoða virkilega vel, hvort þeir vilji standa að því að aðstoða þessa starfsemi sem er bara skaðleg og í rauninni ólögleg.”

„Við erum langflest sammála um að þessi starfsemi eigi ekki að líðast.” Hann segir allt vera til staðar til að stöðva þessa starfsemi. „Það eru komin fordæmi, kominn dómur, kominn úrskurður neytendastofu. Vilji löggafans er skýr. Öll lán sem bera meira en 50% vexti eru ólögleg. Samt fær þetta að viðgangast.”

„Við þurfum að hugsa það vel og vandlega sem samfélag, hvar við erum stödd þegar við leyfum þessu að grasserast, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár án þess að sporna við.”

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -