Mánudagur 24. júní, 2024
10.1 C
Reykjavik

Frá ráðgjöf fyrir Sameinuðu þjóðirnar í skúringar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Libertad Venegas er með BA-próf í fjölmiðlafræði og meistaragráðu í félagsfræði. Í heimalandi sínu Mexíkó vann hún meðal annars sem blaðamaður, sjónvarpsfréttamaður og ráðgjafi hjá fjölþjóðlegri nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þegar hún flutti til Íslands til að hefja búskap með íslenskum eiginmanni sínum var eina vinnan sem henni stóð til boða skúringar. Hún segist hafa sætt sig við það, enda vitað að til þess að fá betri vinnu þyrfti hún að læra tungumálið.

Síðan eru liðin sjö ár og Libertad er farin að tala ágæta íslensku, enda hefur hún lokið öllum námskeiðum í tungumálinu sem Málaskólinn Mímir býður upp á. Í dag vinnur hún sem leiðbeinandi á leikskóla, vinnu sem hún segir að sé vissulega gefandi og skemmtileg en kaupið er ekki hátt og þrátt fyrir að Libertad hafi fengið háskólagráður sínar metnar til launahækkunar í leikskólanum langar hana eðlilega til að fá starf sem tengist því sem hún menntaði sig til. Hún segist hafa sótt um allar stöður sem hún hafi séð auglýstar og tengist hennar menntun en aldrei fengið svar við nokkurri umsókn.

„Mig langar í íslenskunám í Háskóla Íslands til að bæta stöðu mína á vinnumarkaðnum,“ segir Libertad þegar hún er spurð hvað hún geti gert til að komast í vinnu sem hæfi menntun hennar. „En þar er eingöngu boðið upp á dagkennslu og ég hef ekki efni á að hætta að vinna til að fara í nám. Ég skil ekki hvers vegna það er ekki boðið upp á íslenskunám við Háskólann á kvöldin. Það þýðir eiginlega bara að námið stendur eingöngu þeim sem eru vel stæðir til boða og við sem ekki höfum efni á að hætta að vinna sitjum eftir. Það finnst mér ekki sanngjarnt. Mér finnst það þurfi að breyta því til að koma til móts við fólk af erlendum uppruna sem virkilega vill læra íslensku og komast inn á íslenskan vinnumarkað.“

Eftir að hafa unnið við skúringar um tíma fékk Libertad vinnu á frístundamiðstöð og síðan á leikskóla. Hún segist margoft áður hafa sótt um vinnu á leikskóla en ekki fengið svar, það hafi verið vinskapur sem kom henni loks í atvinnuviðtal við leikskólastjórann.

„Vinkona mín þekkir leikskólastjórann og í gegnum hana fékk ég atvinnuviðtal og var ráðin. Annars hefði ég ekki fengið þetta starf,“ segir hún ákveðin.

Háskólamenntaðir útlendingar vinna allir á leikskólum

- Auglýsing -

Hvaða áhrif hefur það á sjálfsmyndina og sálarlífið að eiga ekki möguleika á að fá vinnu í samræmi við menntun þína?

„Það er mjög þreytandi til lengdar,“ viðurkennir Libertad. „Ég skil auðvitað að íslenskukunnáttan stendur mér fyrir þrifum en á hinn bóginn virðist það vera landlægt hér að erlent fólk með háskólamenntun fái ekki vinnu við sitt hæfi. Allir háskólamenntaðir útlendingar sem ég þekki vinna á leikskólum. Það er mikilsvert starf og okkur er boðið upp á alls konar námskeið í sambandi við vinnuna en það er vissulega skrýtið að það skuli vera eina starfið sem maður á möguleika á að fá. Ég er orðin fertug og sé ekki fram á að þetta ástand breytist neitt héðan af, svo ég er jafnvel að hugsa um að fara í leikskólakennaranám til að hafa möguleika á betri launum.“

Libertad segir það ekki hjálpa sér að komast inn á íslenskan vinnumarkað að vera gift Íslendingi.

- Auglýsing -

„Hann hefur engin sambönd við fólk í mínum geira,“ segir hún og hlær. „Það virðist skipta miklu máli til að fá vinnu á Íslandi að þekkja rétta fólkið og við erum bara ekki rétt tengd, greinilega.“

Verður að koma til móts við útlendinga

Spurð hvort hún hafi upplifað það að Íslendingar hafi fordóma fyrir erlendu fólki á vinnumarkaði dregur Libertad við sig svarið.

„Já, stundum,“ segir hún og þagnar svo. „Mér finnst vinnuveitendur dálítið tregir til að ráða fólk sem ekki talar fullkomna íslensku, meira að segja í störf sem ekki krefjast íslenskukunnáttu. En mér finnst mér ekki mismunað vegna uppruna míns, alls ekki. Mér finnst hins vegar að íslensk yfirvöld þurfi að koma betur til móts við útlendinga sem vilja læra íslensku og setjast að hér. Það eru voðalega fáir möguleikar í boði eins og staðan er núna.“

Libertad á fimm ára dóttur og meðal annars hennar vegna segir hún ekki koma til greina að flytja aftur heim til Mexíkó til að fá betra starf. Fjölskyldan sé íslensk og hafi byggt upp líf sitt hér, það sé ekki inni í myndinni að rífa hana upp með rótum.

„Mér hefur stundum dottið það í hug að flytja aftur til Mexíkó,“ segir hún. „En maðurinn minn talar ekki spænsku svo hann ætti erfitt með að fá vinnu þar og það gengi ekki. Dóttir mín talar auðvitað bæði spænsku og íslensku en hún er samt Íslendingur og á sínar rætur hér, svo ég held það yrði allt of erfitt að skipta algjörlega um umhverfi og byrja upp á nýtt í landi sem er framandi fyrir hana og manninn minn. Hann á líka yndislega fjölskyldu hér sem við erum mjög tengd þannig að við viljum vera hér áfram og byggja líf okkar upp hér. Ef það kostar að ég fái aldrei tækifæri til að nýta menntun mína og vinna við það sem ég hef mestan áhuga á, þá verð ég bara að sætta mig við það og finna aðrar leiðir. Ég vildi samt óska að það væri ekki svona flókið að komast inn í háskólanám í íslensku til að eiga möguleika á að komast inn á vinnumarkaðinn í krafti menntunar sinnar. Það er það sem helst þarf að breyta, held ég, til að gefa fólki af erlendum uppruna sömu möguleika og öðrum. Ég vona að það breytist sem fyrst.“

Fólk af erlendum uppruna sem flyst til Íslands til að setjast hér að og skapa sér líf á erfitt með að fá vinnu við sitt hæfi. Háskólamenntun annars staðar frá er ekki metin til jafns við íslenska háskólamenntun og gjarnan festist þetta fólk í láglaunastörfum.

Mannlíf ræddi við þrjá útlendinga sem hafa búið á Íslandi árum saman án þess að fá vinnu við sitt hæfi um reynslu þeirra af íslenskum vinnumarkaði og fékk innsýn í baráttuna sem það kostar að komast í vinnu sem hæfir menntun þeirra. Lesa má alla úttektina í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kom út í morgun.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -