Sunnudagur 19. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Hallarbylting í Ferðafélaginu átti að færa Róberti forstjórastólinn: Anna Dóra kærð fyrir einelti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Átökin innan Ferðafélags Íslands eiga sér margra mánaða aðdraganda. Forseti félagsins, Anna Dóra Sæþórsdóttir, vann leynt og ljóst að því að koma Páli Guðmundssyni úr starfi framkvæmdastjóra félagsins með aðferðum sem túlkaðar voru sem einelti. Enginn annar innan níu manna stjórnar félagsins var sammála því að reka framkvæmdastjórann sem um árabil hefur skilaði félaginu með hagnaði og í farsælum rekstri.

Tvíeyki forsetans

Á fundi í höfuðstöðvum Ferðafélagsins að frumkvæði forsetans voru Róbert Marshall og Þórey Vilhjálmsdóttir mætt og sögðust vera þar í umboði Önnu Dóru. Tvímenningarnir sátu fyrir framkvæmdastjóranum við vinnustað hans og kröfðust fundarins. Þórey er þekkt sem aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur dómsmálaráðherra á þeim tíma sem Lekamálið kom upp. Það mál kostaði ráðherrann embættið. Á fundinum settu tvímenningarnir fram þá kröfu að Páll viki úr starfi sínu.

Þórey Vilhjálmsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Í framhaldinu fengu þau fund með fjórum stjórnarmönnum og kröfðust þess, með undirliggjandi hótunum, að Páll yrði látinn fara, að öðrum kosti yrðu trúnaðarupplýsingar úr starfi félagsins birtar opinberlega. Síðasta vor gekk svo mikið á í samskiptum Páls og Önnu Dóru að hann hafði við orð að hann gæti ekki sinnt starfi sínu við þær aðstæður og myndi láta af störfum frekar en sæta áframhaldandi áreiti.

Nokkru eftir fundinn í höfuðstöðvum Ferðafélagsins bauð Anna Dóra Róberti Marshall starf framkvæmdastjóra, samkvæmt heimildum Mannlífs. Þetta gerðist í hálendisferð á vegum Ferðafélagsins. Anna Dóra gat ekki staðið við boð sitt  því aðrir í stjórn félagsins féllust ekki á að Páll hætti störfum. Úr varð að stjórnin skipaði forsetanum að láta framkvæmdastjórann og aðra á skrifstofu félagsins í friði og hætta eineltinu. Þetta má í raun túlka sem nálgunarbann. Jafnframt kærði Páll Önnu Dóru fyrir einelti á hendur sér og týndi til fjölmörg dæmi. Upp úr þessu var ríkjandi stjórnarkreppa í félaginu.

Sáttin

Framganga Önnu Dóru gagnvart Páli þótti vera grafalvarleg. Í sumar var leitað sátta í málinu og hún bað Pál um að draga mál sitt til baka í ljósi þess að málið yrði leyst á farsælan hátt með hagsmuni Ferðafaélagsins að leiðarljósi. Lögmenn þeirra gerðu sátt um þetta mál. Páll skilaði skriflegri sátt frá sinni hlið en forsetinn ekki sinni. Sá skilningur var uppi að Anna Dóra myndi hætta með reisn og ekki yrði rætt frekar um eineltið. Í framhaldinu dró Páll til baka kæruna á hendur forsetanum í þeirri trú að samkomulagið héldi og þannig staðið vörð um orðspor félagsins.

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri.

Grunsemdir spruttu svo um að hún hygðist ekki standa við samkomulagið. Ákveðið var að stjórnarfundur yrði haldinn í dag. Rætt var um að bera þar upp vantrauststillögu á Önnu Dóru ef hún stæði ekki við afsögnina sem sáttin hafði verið gerð um. Í morgun varpaði hún svo sprengjunni og sagði af sér embætti með miklum hvelli. Lýsti hún afsögn sinni sem afleiðingu þess að innan félagsins hefði þrifist kynferðislegt áreiti án þess að brugðist hefði verið við. Vísaði hún meðal annars til nýlegs máls, þess efnis, þar sem stjórnarmaður hefði í hópferð hegðað sér ósæmilega án þess að fararstjóri hefði brugðist við. Eftir því sem næst verður komist er þarna vísað til máls sem upp kom fyrir 16 mánuðum. Í því máli hafði verið gerð sátt á milli allra sem að málinu komu. Stjórn félagsins hefur upplýst að sex mál af þessum toga hafi komið upp á undanförnum fimm árum. Öll hafi þau verið leidd til lykta, ýmist með áminningu, skriflegri áminningu, tiltali, eða afsögn úr stjórn eða starfi. Anna Dóra nefndi í engu einelti sitt á hendur framkvæmdastjóranum.

- Auglýsing -

Hallarbyltingin

Fyrir nokkrum dögum kynntu Róbert Marshall og Brynhildur Ólafsdóttir, eiginkona hans, nýtt félag um útivist. Félagið nefna þau Útihreyfinguna. Bæði hafa þau starfað um langt árabil innan Ferðafélagsins við ýmis verkefni. Hæst ber þar Landvættaprógrammið sem hefur verið fjölsótt. Þegar nýja hreyfingin var kynnt sögðu þau jafnramt lausum störfum sínum hjá Ferðafélaginu.

Róbert Marshall átti að verða framkvæmdastjóri.

Nokkrir þjálfarar og fararstjórar sem störfuðu með þeim fylgdu hjónunum. „Við erum Róbert og Brynhildur, Kjartan, Birna, Ragga, Sandra og mörg, mörg fleiri. Fólk sem kemur úr ólíkum áttum en hefur náð tengingu í þjálfun, hreyfingu og fjallaævintýrum undanfarin ár. Öll illa haldin af hreyfiofsa og ævintýraþrá,“ segir í kynningu á hreyfingunni sem verður kynnt á fundi annað kvöld.

Heimildarmenn Mannlífs telja að nauðsynlegt sé að setja hina nýju hreyfingu í samhengi við atburðarásina í sumar og afsögn Önnu Dóru. Þetta fólk hafi reynt hallarbyltingu í Ferðafélaginu en þegar það mistókst hafi þau ákveðið að kljúfa sig frá félaginu og taka með sér verkefnin. Aðrir sem hafa verið viðloðandi málið eru Karen Kjartansdóttir, almannatengill og fyrrverandi fréttamaður, og Magnús Orri Schram, eiginmaður Þóreyjar. Magnús Orri hyggur á hótelrekstur í Þjórsárdal.

- Auglýsing -

Anna í ólgusjó

Í yfirlýsingu Önnu Dóru í morgun lýsir hún framgöngu Tómasar Guðbjartssonar, stjórnarmanns og fararstjóra, sem hafi sótt fast að fá Helga Jóhannesson, stjórnarmann aftur til liðs við félagið. Helgi sagði af sér eftir að ásakanir komu fram í fjölmiðlum á hendur honum. Tómas hefur rekið til baka þessi ummæli og segir að hann hafi aðeins beðið um að Helgi fengi að hitta stjórnina og skýra sín mál.

Tómas Guðbjartsson

Anna Dóra stendur ein í þessum ólgusjó. Allir aðrir í stjórn félagsins hafa snúið við henni baki og telja hana hafa orðið óhæfa til að gegna embætti forsetans. Varaforsetinn, Sigrún Valbergsdóttir, hefur tekið við embættinu. Sigrún nýtur í senn traust og virðingar fyrir áralöng störf innan félagsins. Tíminn mun leiða í ljós hvernig félaginu gengur að leysa úr málum eftir það sem kallað hefur verið aðför forsetans. Velunnarar félagsins fagna því að stjórnarkreppa undanfarinna mánaða er baki og við taki uppbyggingartstarf.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -