Þriðjudagur 18. júní, 2024
7.7 C
Reykjavik

Heimsmet á Íslandi: Skoruðu 160 stig í einum leik – „Ég reyndi alls ekki að setja met“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Danny Shouse og Ívar Webster eru með eftirminnilegri bandarísku leikmönnum sem hafa spilað í íslenska körfuboltanum, en Danny spilaði eitt tímabil með Ármanni í 1. deild og síðan tvö með Njarðvík í úrvalsdeild. Ívar kom á sama tíma til Íslands og Danny og lék með Skallagrím í 1. deildinni eftir stutt stopp hjá KR. Ívar var öllu lengur á Íslandi en Danny, og fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1984.

Báðir leikmenn áttu glæsilegan feril hér á landi: Danny varð Íslandsmeistari öll þrjú árin sem hann lék hér; meistari í 1. deild með Ármanni árið 1980 og Íslandsmeistari í úrvalsdeild árin 1981 og 1982 með Njarðvík, en þetta voru fyrstu stóru titlar Njarðvíkinga í sögunni og margir áttu eftir að fylgja í kjölfarið.

Ívar lék lengst af með Haukum hér á landi og átti mikinn þátt í að félagið komst um tíma á toppinn í íslenskum körfubolta; færði félaginu tvo bikarmeistaratitla og einn Íslandsmeistaratitil.

- Auglýsing -

Lið þeirra Danny og Ívars mættust í Borgarnesi þann 1. desember árið 1979, í leik sem fór í sögubækurnar og verður þar um ókomna tíð.

Ármenningar höfðu sigur í leiknum gegn Skallagrími, lokatölur urðu 118 stig gegn 109.

- Auglýsing -

Danny skoraði, eins og frægt er, 100 stig í leiknum, en fram að þeim tíma var aðeins vitað um einn leikmann í heiminum sem hafði gert 100 stig í einum leik; það var sjálfur Wilt Chamberlain sem skoraði 100 stig með liði Philadelphu gegn New York árið 1962 í NBA deildinni.

„Danny Shouse hitti með eindæmum vel og þó reyndu Borgnesingar allt til að stöðva hann. Þeir settu tvo menn á hann á köflum en allt kom fyrir ekki,“ sagði í frétt Morgunblaðsins um leikinn fræga í desember árið 1979 í Borgarnesi. Og einnig þetta:

„Ármannsliðið byggir eingöngu á Danny – aðrir leikmenn eru í statistahlutverkum og kunna lítið fyrir sér í íþróttinni.“

Sjálfur var Danny undrandi þegar hann heyrði eftir leik að hann hefði skorað 100 stig í leiknum:

„Ég reyndi alls ekki að setja met og hefði hæglega getað skorað fleiri körfur ef ég hefði vitað af því að heimsmetið væri í hættu,“ sagði hann.

Á þessum tíma voru ekki komnar til sögunnar 3ja stiga skot, en Danny var þekktur fyrir skot sem voru langt fyrir utan 3ja stiga línuna sem varð að veruleika nokkrum árum síðar.

En það sem gerir þennan leik enn eftirminnilegri er sú staðreynd að Ívar Webster skoraði 60 stig í leiknum; þarna var því um að ræða metjöfnun hjá einum leikmanni – Danny Shouse – sem jafnaði met Wilt Chamberlain, en líka heimsmet; aldrei hafa tveir leikmenn í körfuboltaleik skorað eins mikið í einum leik – 160 stig!

Ef einhver getur fundið leik þar sem tveir leikmenn í sama leik skora samtals 160 stig eða meira væri mjög áhugavert að lesa um það.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -