Mánudagur 24. júní, 2024
10.1 C
Reykjavik

Höfundur Terminator á leið til landsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kvikmyndaframleiðandinn Gale Anne Hurd verður hátíðargestur á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Northern Wave (Norðanáttin) sem fer fram í Frystiklefanum á Rifi í Snæfellsbæ í 11. sinn helgina 26.-28. október. Dögg Mósesdóttir, sem er stofnandi og stjórnandi hátíðarinnar, segir heiður að fá þessa goðsögn til landsins.

Dögg Mósesdóttir, sem er stofnandi og stjórnandi hátíðarinnar, segir heiður að fá þessa goðsögn til landsins.

„Gale er algjör goðsögn og frumkvöðull í kvikmyndaheiminum og mikilvæg fyrirmynd fyrir kvikmynda-gerðarfólk sem er að stíga sín fyrstu skref, eins og margir af gestum hátíðarinnar eru að gera. Við höfum aldrei áður fengið svona stóran framleiðanda frá Hollywood til okkar og ef ég á að vera hreinskilin þá erum við að farast úr spenningi,“ segir Dögg, spurð að því hvernig sé að fá þessa kanónu á hátíðina.

Nafngiftin kanóna er svo sannarlega ekki úr lausi lofti gripin því Hurd á að baki langan og glæstan feril í kvikmyndaheiminum. Hún var til dæmis meðhöfundur og framleiðandi kvikmyndarinnar The Terminator og hefur framleitt stórmyndir eins og Aliens, Hulk, Armageddon og The Abyss, en í dag á hún og rekur fyrirtækið Valhalla Entertainment sem framleiðir meðal annars hina vinsælu sjónvarpsþætti The Walking Dead.

Á hátíðinni verður nýjasta heimildamynd Hurd, MANKILLER, sýnd en hún fjallar um fyrsta kvenkyns Cherokee-höfðingjann sem barðist fyrir réttindum frumbyggja í Bandaríkjunum. Þá mun leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir stýra sérstöku meistaraspjalli þar sem framleiðandinn situr fyrir svörum. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem Hurd kemur til landsins og segist Dögg vita til þess að hún hlakki mikið til heimsóknarinnar.

„Við höfum aldrei áður fengið svona stóran framleiðanda frá Hollywood til okkar og ef ég á að vera hreinskilin þá erum við að farast úr spenningi.“

„Reyndar var ég hissa á að Gale samþykkti að koma á litla stuttmyndahátíð í smábæ á Íslandi og ítrekaði fyrir henni um hvað málið snérist en hún sló samt til. Ég held að hún sé spenntust fyrir náttúrunni og líti á þetta sem tækifæri til að komast loksins hingað. Þetta er auðvitað eina stuttmyndahátíðin í heimi sem er haldin í gömlu frystihúsi undir jökli, eftir því sem ég best veit, þannig að eflaust lítur hún á þetta sem ævintýri.“

Dögg segir þátttöku Hurd almennt rýma vel við dagskrá og tilgang Northern Wave. Hátíðin hafi í gegnum tíðina ekki aðeins varpað ljósi á þá hluta kvikmyndagerðar sem eru svolítið á bak við tjöldin, eins og framleiðsla, klipping, hljóðsetning o.fl., heldur líka vakið athygli á framlagi kvenna til kvikmyndagerðar m.a. svo að ungar kvikmyndagerðarkonur geti speglað sig í flottum fyrirmyndum. Hurd sé sannarlega ein slík.

En hvað fleira verður á boðstólum á hátíðinni í ár? „Við ætlum að sýna allt sem stuttmyndaformið hefur upp á að bjóða, allt frá tónlistarmyndböndum til teiknimynda. Svo verða tónleikar og fiskréttakeppni, sem er orðin að einum vinsælasta viðburði hátíðarinnar,“ svarar Dögg hress og hvetur listamenn og tónlistarfólk til að mæta á hátíðina, ekki síst á óformlega hádegisfundi sem séu kjörinn vettvangur til að hitta kvikmyndagerðarfólk og kanna grundvöll fyrir samstarfi. En nánar megi lesa sér til um hátíðina á .

- Auglýsing -
Sú kvikmynd sem kom Hurd endanlega á kortið var Aliens (1985), framhald geimhryllingsmyndarinnar Alien (1979). En sumum aðdáendum þykir Aliens vera hápunktur þessarar vinsælu og langlífu skrímslaseríu.

Frumkvöðull í gerð vísindaskáldsagna
Bandaríski framleiðandinn Gale Anne Hurd (f. 1955) er gjarnan kölluð „The first lady of Sci-Fi“ eða forystukona Sci fi-kvikmynda í heiminum vegna aðkomu sinnar að gerð fjölda kvikmynda í vísindasagnastíl, kvikmynda sem ekki aðeins hafa notið mikilla vinsælda heldur þykja af ýmsum sökum hafa brotið blað í gerð slíkra mynd.

Hurd hóf feril sinn sem aðstoðarkona B-hryllingsmyndakóngsins Roger Corman hjá fyrirtæki hans New World Pictures og þar vann hún sig jafnt og þétt upp metorðastigann þar til hún var farin að taka virkan þátt í framleiðslu á verkefnum fyrirtækisins.

Árið 1982 stofnaði Hurd eigið framleiðslufyrirtæki, Pacific Western Productions, sem framleiddu stórvirki á borð við The Terminator (1984), Aliens (1986) og The Abyss (1989), myndum sem öllum var leikstýrt af þáverandi eiginmanni hennar, James Cameron, og rökuðu myndirnar inn peningum í miðasölu um allan heim.

- Auglýsing -

Síðan þá hefur Hurd notið mikillar velgengi sem framleiðandi í Hollywood. Meðal annarra mynda sem hún hefur framleitt má nefna Terminator 2 (1991) og 3 (2003), Armageddon (1998) og Hulk (2003), en af öðrum verkefnum á ferilskránni má nefna þætti byggða á teiknimyndasögunni Aeon Flux sem eru nú í vinnslu.

Á löngum og glæstum ferli hefur Hurd unnið til fjölda verðlauna fyrir verkefni sín og nýtur virðingar innan bandaríska kvikmyndabransans. Auk þess að eiga og reka eigið framleiðslufyrirtæki er hún háttsett innan samtakanna Producers Guild of America, sem eru samtök framleiðenda í Bandaríkjunum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -