Mánudagur 24. júní, 2024
10.1 C
Reykjavik

Hroki og hleypidómar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það virðist vera fyrir löngu orðið landlægt hér að aðflutt fólk með háskólamenntun fái ekki vinnu við sitt hæfi og mýmörg dæmi eru um að slíkt fólk sinni láglaunastörfum. Í Mannlífi í dag er rætt við fólk sem hefur búið á Íslandi um árabil en ekki enn fengið starf sem það hefur menntun til. Fólk sem vill búa hér, læra íslensku og taka þátt í atvinnulífinu af fullum krafti en fær ekki menntun sína metna og er sjaldan eða aldrei boðað í starfsviðtöl þegar það sækir um vinnu. Gerist það á annað borð segist sumt þeirra hafa mætt einkennilegum viðhorfum – jafnvel ótrúlegustu fordómum.

Þannig greinir einn viðmælenda, háskólamenntuð kona af erlendum uppruna, frá því að sumir atvinnurekenda hafi gert óviðeigandi athugasemdir við húðlit hennar í atvinnuviðtölum. Einn hafi hreinlega sagt með berum orðum að hún væri of feit til sinna starfinu sem hún sótti um. „Ég þarf bara að byrja á botninum og vinna mig upp,“ lýsir konan í viðtalinu. „Það er eina leiðin fyrir innflytjendur og ég mun halda því áfram þangað til ég fæ einhverja vinnu sem ég hef áhuga á.“

Mannlíf hafði samband við fjölmarga einstaklinga vegna málsins og fæstir vildu koma í viðtal. Annaðhvort taldi fólk að það myndi engu breyta, það væri fyrir lifandis löngu búið að sætta sig við að fá hér aldrei góða vinnu eða það treysti sér ekki í viðtal einfaldlega af ótta við að missa vinnuna, því þótt sú vinna væri kannski erfið og illa launuð þá væri hún þeirra eina lífsviðværi.

Flestum bar saman um að hér sé ótrúlega erfitt að fá störf við hæfi og þeir eiga bágt með að skilja ástæðuna. Hvort menntun þeirra uppfylli raunverulega ekki einhver tiltekin skilyrði eða hvort einskærir fordómar ráði kannski ferð, fordómar sem snúa að menntun sem kemur annars staðar frá en Íslandi eða fordómar sem snúa jafnvel að fólkinu sjálfu, húðlit þess eða uppruna.

Hver svo sem ástæðan er þá er ljóst að við þurfum að gefa fólki af erlendum uppruna sömu möguleika hér og öðrum, eins og umrædd kona orðar það í viðtalinu. Koma til móts við þá sem vilja komast á íslenskan vinnumarkað í krafti menntunar sinnar og kunnáttu, meðal annars með því að setja skýrari reglur um hvernig menntun erlendis frá er metin, auka ráðgjöf sem hjálpar fólkinu að skilja betur kerfið og breyta viðhorfi okkar til þeirra sem setjast hér að. Svo fólk gefist hreinlega ekki upp og jafnvel flytji annað, því varla viljum við missa vel menntaða og reynsluríka einstaklinga úr landi.

Ef við ætlum að byggja hér upp betra og sterkara samfélag þurfum við að nýta alla þá krafta sem okkur bjóðast, burtséð frá því hvort fólk er íslenskt eða „erlent“. Sá hugsunarháttur að „erlent“ vinnuafl sé á einhvern hátt minna virði en íslenskt er löngu úr sér genginn og okkur til skammar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -