Laugardagur 24. febrúar, 2024
-2.2 C
Reykjavik

„Hver hefur vitað til þess að venjulegur maður yrði þjóðskáld?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rithöfundurinn Gyrðir Elíasson ritaði minningargrein um ljóðskáldið Ísak Harðarson, sem er nýlátinn.

Það er ekki á hverjum degi sem Gyrðir mundar penna sinn í annað en skáldsögur sínar; smásögur; prósa og örsögur; þýðingar og ljóð.

Gyrðir er jafnbesti rithöfundur er Ísland hefur af sér alið; afköstin ótrúleg; gæðin mikil – og hann á nóg eftir.

Gyrðir kemur ekki oft fram opinberlega, og eins og áður sagði, skrifar ekki margar greinar og fæst sjaldan í viðtöl; enda segir maðurinn svo mikið í bókum sínum að engu er í raun við að bæta.

En Gyrðir stakk niður penna sínum er hann minnist Ísaks Harðarsonar.

Hér eru þau orð; þær setningar; þær minningar og sú (stundum erfiða) vinátta er var á milli þessara tveggja miklu andans manna:

- Auglýsing -

ÍSAK HARÐARSON

„Það eru orðin fjörutíu ár síðan ég kynntist Ísaki Harðarsyni, það var semsagt árið 1983. Ég hafði reyndar haft veður af honum árið áður, þegar verðlaunaljóðabók hans, Þriggja orða nafn, barst mér í hendur og ég las af miklum áhuga, eða áfergju væri nær að segja. Mér fannst með ólíkindum hvað þessi maður, sem var aðeins fimm árum eldri en ég, hafði mikil tök á ljóðforminu þegar í sinni fyrstu bók, og hvernig hann náði utan um ýmsa þá hluti sem erfitt er að koma í orð, ekki síst á okkar dögum, þegar óendanleikinn þrengist um ellefu hugtök á sólarhring einsog segir í einu af síðari ljóðum hans.

Eftir að við höfðum hist þróaðist vinátta okkar hratt, og þau voru mörg kvöldin þegar ég gekk eftir gamla hitaveitustokknum sem liggur ofan við Bústaðaveginn, áleiðis til Ísaks og Ólafar á Byggðarendanum. Sjálfur átti ég þá heima í Neðstaleiti, sem á þessum tíma, veturinn 1983-4 var rétt að rísa sem hverfi hrárra nýbygginga.

- Auglýsing -

Þau eru minnisstæð þessi kvöld á Byggðarendanum, og við tókum upp á ýmsu. Þó hvorugur okkar Ísaks væri músíkant, ekki einusinni neitt í námunda við það (að minnsta kosti ekki undirritaður), gátum við setið heilu kvöldin saman við gamla píanóið sem þau áttu, og samið fjórhent allskyns vitleysu af fingrum fram, líklega í anda Keith Jarretts, sem Ísak hélt mikið upp á og spilaði oft fyrir mig.

En þarna sátum við semsagt við píanóið, að semja.

Á eftir var Genesis oft sett á fóninn, uppáhaldshljómsveit Ísaks, og í ljósi þess sem síðar varð hafði nafn sveitarinnar nánast forspárgildi fyrir ævi hans. Ég er afskaplega þakklátur fyrir að þessi tónlist sem við börðum saman (ekki óviðeigandi orðalag um meðferð okkar á nótnaborðinu) skuli ekki hafa verið tekin upp, en það breytir ekki því að við skemmtum okkur konunglega.

Önnur kvöld tókum við upp á því að yrkja saman í línustrikaða stílabók, órímuð ljóð þar sem annar byrjaði og hinn kláraði, til skiptis. Það er sömuleiðis mjög þakkarvert að þessi ljóð skuli hafa týnst, og ég ætla rétt að vona að þau finnist ekki uppi á rykþrungnu háalofti einhverntíma. Slíkt er hinsvegar aldrei jafn öruggt og með mismunandi kórrétta tóna sem flögra út í loftið og koma aldrei aftur ef ekkert upptökutæki grípur þá.

Þennan vetur vorum við svo hvor í sínu lagi að vinna að ljóðabókarhandritum, sem komu síðan út vorið eftir, samtímis og hjá sama forlagi, meira að segja með samræmdu útliti. Bók Ísaks var hið fræga Ræflatestamenti, sem hefur réttilega hlotið sérstakan sess í bókmenntasögunni.

Vinátta okkar hélt áfram að blómstra, og einnig síðar, þegar þau hjónin fluttu á Kleppsveginn. Þar orti Ísak við lítinn glugga á fjórðu hæð, og þar var hann nógu hátt uppi til að komast um síðir í samband við skapara sinn. Eftir að hann hitti Guð strjáluðust aðeins samfundir okkar, það var einsog hann væri meira sjálfum sér nógur um félagsskap eftir trúarreynslu sína.

Ég hafði fullan skilning á þessari upplifun hans út af fyrir sig, en hafði þó sjálfur ekki orðið fyrir neinu slíku, og það takmarkaði ögn samskipti okkar á þessum tíma. Það komu tímabil þar sem við hittumst fremur strjált, þótt báðir fylgdust grannt hvor með öðrum úr fjarlægð.

Ísak var ekki auðveldasti vinur í heimi, það skal strax tekið fram, og sjálfsagt var ég það ekki heldur, og vissulega gat hvesst hressilega á milli okkar. Við jöfnuðum þó ávallt slíkt á endanum, þótt nokkur tími gæti liðið. Eftir nokkurt skeið þar sem við höfðum hist fremur lítið tókum við aftur upp þráðinn, þá var Ísak orðinn einn, og búinn að kaupa sér rauðan sendibíl, sem hann fór á um landið og svaf í og orti. Hann ók honum jafnvel um borð í Norrænu og ferðaðist um Færeyjar, sér til mikillar ánægju.

Við Óskar Árni Óskarsson og hann tókum upp á því að fara hálfsmánaðarlega í kvöldferðir á þessum sterkrauða sendibíl (sem var hvergi nærri nýr, fremur en aðrir bílar sem Ísak hafði eignast, mér hefði þótt eitthvað ósamrýmanlegt við að sjá Ísak á splunkunýjum bíl, hann hafði mun meiri áhuga á hverjum splunkunýjum degi lífsins en véltækni) og skoða nágrenni Reykjavíkur, hvort sem var að vetri eða sumri.

Það voru eftirminnileg kvöld, sérstaklega man ég eitt þeirra, þar sem við stóðum þrír undir bragandi norðurljósahimni við Hvaleyrarvatn. Þá fann maður að Ísak var í sínu elementi með Guð sinn logandi yfir sér og allar stjörnurnar, sem voru honum ávallt hugleiknar þar sem hann hafði frá unga aldri stundað stjörnuspeki, og vann raunar um tíma fyrir sér með því að gera stjörnukort fyrir fólk. Að sumu leyti minnti hann dálítið á sögupersónuna í Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu eftir Olgu Tokarczuk, þar sem sú sem segir frá er altekin af stjörnuspeki og dýrum. Og talandi um Dýrahringinn; Ísak átti lengi einhvern þann sérkennilegasta kött sem ég hef fyrirhitt, og kisan stóð fyllilega uppi í hárinu á eiganda sínum sem algerlega einstök lífvera, með karakter sem seint gleymist.

Hver hefur vitað til þess að venjulegur maður yrði þjóðskáld? spurði Jakobína Sigurðardóttir forðum, og þessi orð mætti heimfæra á Ísak. Því með sínum hætti var hann raunverulegt þjóðskáld, eitt fárra sem við höfum eignast á síðari tímum og standa undir því nafni án þess að kikna vitundarögn. Fyrir mína parta er hann einhverskonar hliðstæða við Matthías Jochumsson eða Hallgrím Pétursson á okkar tíð.

Menn geta verið sammála eða ósammála um þessa fullyrðingu eftir atvikum – svona blasir þetta við mér.

En Ísak var ekki bara ljóðskáld, hann var líka frábær prósahöfundur.

Fyrra smásagnasafn hans Snæfellsjökull í garðinum er stórmerkileg bók, sem lumar á gersemum. Hitinn á vaxmyndasafninu er sömuleiðis afburða verk. Kannski er þó ljóðabókin Stokkseyri meistaraverk hans, þótt fleiri bækur mætti nefna til, þar á meðal Rennur upp um nótt. Listinn gæti þó orðið nokkuð langur, því af mörgu er að taka.

Eitt þeirra nútímaskálda sem Ísak hefur minnt mig á, er Hannes Sigfússon, það voru einhver sérstæð og hálfdulin líkindi með þeim, þótt þeir væru ólíkir menn að ýmsu leyti. Báðir voru þeir síðan stórsnjallir þýðendur, og auðguðu íslenska þýðingarflóru mjög með framlagi sínu. En hvað sem því líður að líkja Ísaki saman við önnur skáld, er nærtækast að segja að hann hafi verið hann sjálfur, í raun engum líkur, hann kom einsog vígahnöttur inn í íslenskar bókmenntir, og logaði þar skært og lengi.

Á síðustu árum komu þurrkakaflar í samskiptum okkar einsog stundum áður, en síðustu misserin höfðum við aftur farið að umgangast hvor annan og vera í stöðugu sambandi sím- og póstleiðis, og ég er þakklátur fyrir það.

Það var aldrei lognmolla í kringum Ísak, hann hafði sterkar skoðanir á hlutunum, og vissi vel hvers hann var megnugur. En ég hafði á tilfinningunni síðari árin að honum þætti sem fullmikið hefði hljóðnað um nafn sitt. Þó átti hann sér alltaf sterkan lesendahóp sem fylgdi honum gegnum þykkt og þunnt og sá snilligáfu hans.

Þótt þýðingar hans væru merkar, var ég alltaf að vona að hann gæti lagt þær til hliðar um stund og einbeitt sér að frumsömdum verkum, og raunar talaði hann um það við mig einhverntíma í vetur að hann hygðist gera einmitt það. Eitthvað mun hann hafa átt í handraðanum af ljóðum þegar hann lést, og væri forvitnilegt að sjá þann afrakstur á bók ef handritið hefur verið svo langt komið. Hann sagði mér reyndar fátt eitt um það, og talaði að jafnaði lítið um verk sín. Og hann var ekki gefinn fyrir að fara í fjölmiðla (hann kallaði þá mjölfiðlur) og básúna út mikilvægi sitt.

Ég vil að lokum þakka Ísaki fyrir þá einstöku vináttu sem hann gaf mér þegar best lét á milli okkar. Hann var margbrotinn maður og stór í sniðum, og hann var líka stórskáld, eitt okkar stærstu skálda á hvaða tíma sem miðað er við.

En líf hans var flókið og oft á tíðum langt frá því að vera auðvelt, stundum fannst manni að hann gerði sér erfiðara fyrir en nauðsynlegt var, en hann fór alltaf sínar eigin leiðir, hvað sem á gekk.

Einhverntíma sagði Halldór Laxness: Stórskáld er maður sem hefur ratað í miklar raunir, og þessi orð nóbelsskáldsins má vel heimfæra upp á Ísak Harðarson.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -