Þriðjudagur 10. september, 2024
4.7 C
Reykjavik

Anna dáist að skipsbrotsmönnum Óttars: „Kenna okkur svo mikla sögu um afrek fólks sem lifði af“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Kristjánsdóttir skrifar um þætti Óttars Sveinssonar um sjóslys við Ísland og um mikilvægi frásagna skipsbrotsmanna af þessum slysum, í nýjustu dagbókarfærslu sinni.

Dagbókarfærsla Önnu Kristjánsdóttur, Tenerife-búa, fjallar í dag um þætti Óttars Sveinssonar sem hún hefur verið að horfa á að undanförnu. Þættirnir fjalla um hin ýmsu sjóslys sem Óttar hefur skrifað um í Útkalls bókum sínum í gegnum tíðina. Þar tekur Óttar viðtöl við þá sem lifðu slysin af og veitir innsýn inn í þær hræðilegu lífsreynslur. Dáist Anna að Óttari fyrir þættina.

„Dagur 1669 – Þögn.

Undanfarna daga hefi ég verið að horfa og hlusta á þætti Óttars Sveinssonar um hin ýmsu sjóslys og hvernig þau höfðu áhrif á menn. Vitandi það að hann fékk einn skipverja til að tjá sig um sína hræðilegu lífsreynslu þegar Suðurlandið fórst á aðfangadagskvöld jóla árið 1986 fyrir bókina „Útkall á jólanótt í Atlantshafi“, get ég ekki annað en dáðst að Óttari fyrir þá þrautsegju hans að fá fólk til að tjá sig um hræðilegustu stundir lífs síns. Annar skipverji af Suðurlandinu sem var í Stýrimannaskólanum og skrapp örstuttan jólatúr á Suðurlandinu þessi sömu jól og sem bjargaðist naumlega ásamt og fjórum öðrum eftir hrakninga í hriplekum gúmmíbjörgunarbát í marga klukkutíma á jólanótt.“

Anna, sem sjálf er vélstjóri segir mann sem aldrei vildi segja frá sinni reynslu, hafi skyndilega birst í þætti Óttars. „Sá hinn seinni hafði aldrei viljað tala um þessa hræðilegu lífsreynslu og sjálf virti ég það við hann og gekk aldrei á hann að segja frá þessu sjóslysi. Skyndilega birtist hann í Útkallsþætti á Vísi.is og tjáði sig um þessa örlagaríku nótt og baráttuna fyrir að halda lífi í nánast vonlausum aðstæðum uns þeim var bjargað með hjálp þyrlu frá danska varðskipinu Vædderen. Loksins fengum við að heyra sögu fleiri en einungis eins af Suðurlandinu. Sögur þessara skipbrotsmanna eru okkur hinum svo verðmætar og kenna okkur svo mikla sögu um afrek fólks sem lifði af.“

Í dagbókarfærslunni talar Anna einnig um mikilvægi þess að byrgja ekki tilfinningar sínar um slík afrek að lifa af sjóslys, inni. „Við höfum heyrt um ótrúleg afrek fólks sem lifði af hræðileg sjóslys, en þar sem viðkomandi loka allt inni í sínum eigin tilfinningum. Við vitum um Hellisey sem fórst nærri Vestmannaeyjum og þar sem einn skipverjinn náði syndandi í land. Við vitum einnig um togarann Hallgrím hvar einn lifði af og var fleiri klukkutíma í sjónum áður en honum var bjargað. Hvorugur þessara hetja vill tjá sig um lífsreynslu sína síðar meir, enda veit ég ekki til þess að þeir hafi fengið áfallahjálp eftir slysin.“

Að lokum segir Anna frá hjónum sem komu á barinn sem hún var á í gærkvöldi en eiginmaðurinn reyndist hafa verið skipverji á Dísarfellinu þegar það fórst árið 1997. „Þar við sátum á barnum og leystum lífsgátuna á fimmtudagskvöldi og ég var með pistil morgundagsins í huganum, komu hjón ein á barinn, hvar eiginmaðurinn var skipverji á Dísarfellinu er það fórst í mars árið 1997. Hann fussaði og sveiaði er ég nefndi pistil morgundagsins, það er dagsins í dag og vildi alls ekki tala um þá hræðilegu lífsreynslu. Mér finnst það miður, því með samtali og sálrænum stuðningi er hægt að leysa vandamálin sem menn hafa lokað innra með sér.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -