Föstudagur 19. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Áttatíu ár liðin frá Þormóðsslysinu: „Eina vonin er, að hjálpin komi fljótt!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið er 1943. Dagurinn 17. febrúar. Veðrið er afar slæmt undan ströndum Reykjanesskagans en vélskipið Þormóður siglir með 24 farþegar og sjö áhafnarmeðlimi, frá Patreksfirði til Reykjavíkur en kemst ekki alla leið. Í dag eru nákvæmlega 80 ár frá einu mannskæðasta sjóslysi Íslandssögunnar.

Þormóður var skip frá Bíldudal en af þeim 31 sem fórust voru 22 þeirra frá Bíldudal. Meðal þeirra fórst sóknarpresturinn í þorpinu, verslunarstjóri stærstu verslunarinnar, tveir framkvæmdastjórar og verkstjóri hraðfrystihússins. Var því um að ræða gríðarlegt högg fyrir samfélagið á Bíldudal en miðað við fjölda íbúða þar árið 1943, var þetta nálægt því að 10 hver þorpsbúi hefði látist á einu bretti.

Eftirfarandi texti er úr Morgunblaðinu 20. febrúar 1943 en Mogginn fór ítarlega yfir þetta hörmulega slys. Athugið að textanum hefur ekki verið breytt en í þá daga var íslenskan oft skrifuð á annan máta en nú þekkist, auðvitað.

M.s. „Þormóður ferst nálægt Garðskaga með 30 manns

Tíu konur – eitt barn – tveir prestar – meðal þeirra er fórust

Þau átakanlegu sorgartíðindi hefir morgununblaðið að flytja, að M.s. „Þormóður“ frá Bíldudal hefir farist og með honum 30 manns, skipsmenn og 23 farþegar. Meðal farþega voru 10 konur, eitt barn og tveir prestar. Skipið var að koma úr strandferð frá Húnaflóa og Vestfjörðumi og var komið hjer suður í Faxaflóa. Á miðvikudagskvöld sendi skipið frá sjer neyðarkall; var þá leki kominn að skipinu og hefir það sennilega farist þá um kvöldið. Hefir fundist brak úr skipinu skamt frá Garðskaga og einnig eitt lík. Morgunblaðið hefir reynt að afla sjer sem glegstar upplýsingar um þetta átakanlega slys. Eftirfarandi upplýsingar hefir blaðið fengið á skrifstofu Gísla Jónssonar alþm., en hann var eigandi skipsins.

FERÐ ÞORMÓÐS

Ms. „Þormóður“ var leigt Skipaútgerð ríkisins, til strandflutninga. Þessa síðustu ferð fór skipið til hafnar við Húnaflóa og sótti þangað rúmlega 30 tonn af kjöti, sem flytja átti til Reykjavíkur. Á leiðinni frá Húnaflóa kom skipið við á tveim höfnum á Vestfjörðum. Bíldudal og Patreksfirði.

Skipið fór frá Patreksfirði um hádegi á þriðjudag. Á miðvikudagsmorgun átti skrifstofa Gísla Jónssonar tal við Pálma Loftsson forstjóra Skipa útgerðarinnar. Var þá ákveðið, vegna þess að vonskuveður hafði verið nóttina áður, að senda skipstjóranum á „Þormóði“ skeyti og spyrjast fyrir um, hvenær vænta mætti komu skipsins til Reykjavíkur.

Loftskeytastöðin hjer kallaði skeytið út, en tókst ekki að ná sambandi við „Þormóð“ fyr en um kl. 7 á miðvikudagskvöld. Kom þá svohljóðandi svar frá skipstjóra: „Slógum Faxabugt. Get ekki sagt um það núna (hvenær vænta megi skipsins).“

Eftir móttöku þessa skeytis setti Pálmi Loftsson sig í samband við björgunarskipið Sæbjörgu (sem var hjer úti í Flóa) og bað hana að standa í sambandi við „Þormóð“. Um svipað leyti og svarskeytið kom frá skipstjóranum á „Þormóði“ bárust og tvö skeyti frá farþegum, til ættiingja hjer í bænum og var í þeim sagt, að öllum liði vel og skipið væri væntanlegt næsta morgun.

NEYÐARKALL

Klukkan 22,35 á miðvikudagskvöld barst Slysavarnafélagi Íslands svohljóðandi skeyti frá skipstjóranum á „Þormóði“: „Erum djúpt út af Stafnesi. Mikill leki kominn að skipinu. Eina vonin er, að hjálpin komi fljótt!“

Framkvæmdastjóri Slysavarnafjelagsins- gerði vitaskuld strax allar hugsanlegar ráðstafanir. En vegna fárviðris þá um kvöldið, var ekki viðlit að senda skip út til hjálpar.

LEIT HAFIN

Snemma á fimmtudagsmorgun var hafin skipulögð leit að „Þormóði“. Tóku þátt í leitinni aðallega togararnir Gyllir, Arinbjörn hersir og Rán, auk „Sæbjargar“. Ennfremur flugvjelar frá ameríska flugliðinu og íslenska flugvjelin (Örn Johnson). Leitarskilyrði voru ákaflega erfið.

BRAK FUNDIÐ. EINNIG EITT LÍK

Síðdegis á fimtudag fundu togararnir Gyllir og Arinbjörn hersir brak úr skipi ca. 7 mílur austur af Garðskaga. — Gyllir fann einnig eitt lík af konu þar á floti. Símuðu togararnir til Sæbjargar og báðu hana að koma á staðinn. Var svo ákveðið að Sæbjörg færi til Reykjavíkur með líkið og tvö allstór stykki úr skipi, sem þarna fundust. ,,Sæbjörg“ kom hingað kl. um 2 í gær. Hafði hún sent skeyti áður og bað framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins og kunnugan mann frá skrifstofu Gísla Jónsson, að koma til móts við skipið á ytri höfnina. Sæbjörg hafði meðferðis: Lík frú Jakobínu Pálsdóttur, konu Ágústar Sigurðssonar, .verslunarstjóra, Bíldudal. Stórt stykki úr þilfari og annað álíka úr byrðing. Vafalaust hvorttveggja úr ,,Þormóði“. Talsvert af smærra spýtna braki var einnig í sjónum á sömu slóðum. Björgunarflekinn hefir hinsvegar ekki fundist ennþá. Leitinni var haldið áfram.

REKALD Á STRÖNDINNI

Í gær fanst talsvert af rekaldi á fjörunum milli Sandgerðis og Stafness. M. a. fanst afturhluti af björgunarbát, matvælageymslukassi (sem var á þilfari skipsins), vatnskútur, niðursuðudósir (sennilega úr björgunarbát; eða björgunarfleka). Haldið verður áfram leit á fjörunum.

M.s. „ÞORMÓÐUR“

M.s. „Þormóður“ (áður ,,Alden“) var 101 tonn, bygt 1931. Fiskveiðafjel. Njáll í Bíldudal (Gísli Jónsson), keypti skipið 1942. Var þá nýbúið að setja í skipið 240 ha. díeselvjel, svo og nýja hjálpar vjel. Skipið var útbúið öllum fullkomnustu tækjum, svo sem dýptarmæli, talstöð o. fl. — Hafði það skoðunarvottorð til millilandasiglinga. Þetta var önnur ferð skipsins eftir gagn gerða viðgerð, (klössun).

REKIST Á SKER?

Að lokum skal þess getið, að sjerfróðir menn, sem í gær skoðuðu stykki þau úr „Þormóði“, sem ,Sæbjörg“ kom með telja greinileg merki þess, að .skipið hafi tekið niðri. Er því giskað á, að skipið hafi orðið of grunt fyrir og rekist á svonefnda FIös ,við Garðskaga og brotnað þar í spón.

Skipshöfnin á >Þormóði«: Gísli Guðmundsson skipstjóri frá Bíldudal. Giftur, tvö börn (tengdasonur Ágústs Sigurðssonar verslunarstjóra og konu hans, Jakobínu Pálsdóttur, sem einnig fórust með skipinu).
Bárður Bjarnason stýrimaður, fæddur 1904, kvæntur, frá Ísafirði. Lárus Ágústsson 1. vjelstjóri, Kárastíg 13, Reykjavík. Kvæntur á börn.
Jóhann Kr. Guðmundseon 2. vjelstjóri, Laugaveg 169 A. Fæddur 1904. Trúlofaður. — Unnusta hans hefir mist þrjá bræður í sjóinn.
Gunnlaugur Jóhannsson matsveinn, frá Bíldudal. Fæddur 1914. Kvæntur Fjólu Ágústsdóttur, er fórst með skipinu, áttu eitt barn, og móðir Gunnlaugs, Salóme Kristjánsdóttir, fórst einnig með skipinu. Bjarni Pjetursson, háseti, frá Bíldudai. F. 1920. Ókvæntur.
Ólafur Ögmundsson háseti, frá Flateyri. Fæddur 1919. — Hann var einkabarn Ögmundar Ólafssonar, bátsmanns á „Súðinni.“

Farþegar, er fórust frá Bíldudal:

Ágúst Sigurðsson, verslunarstjóri hjá h.f. Maron á Bíldudal og Jakobína Pálsdóttir kona hans. Þau láta eftir sig 7 börn.
Þorvaldur Friðfinnsson verksmiðjustjóri rækjuverksmiðjunnar á Bíldudal, ungur maður, giftur Helgu, dóttur Sigurbjöms Þorkelssonar, kaupmanns. Lætur eftir sig 2 börn.
Þorkell Jónsson, sonur Jóns Bjarnasonar kaupmanns, verkstjóri við hraðfrystihúsið á Bíldudal og kona hans Sigríður Eyjólfsdóttir og með þeim var 7 ára gamall sonur þeirra Bjarni. Þau áttu annað bara yngra, sem ekki var með skipinu.
Sjera Jón Jakobsson prestur að Bíldudal, sonur Jakobs Jónssonar frá Galtafelli Kvæntur. Átti 3 börn ung.
Bjarni Pjetursson sjómaður. Giftur, 2 börn.
Karl Eiríksson sjómaður. ógiftur.
Áslaug Jensdóttir, 18 ára gömul. Dóttir Jens Hermannssonar, kennara á Bíldudal.
Gísli Kristjánsson bílstjóri, ógiftur,
Óskar Jónsson, verkamaður. ógiftur,
Kristján Guðmundsson sjómaður af togaranum Baldri, og kona hans Indíana Jónsdóttir
Jón Þ. Jónsson, giftur. 2 börn
Málfríður Jónsdóttir.
Fjóla Ásgeirsdóttir, kona Gunnlaugs matsveins á „Þormóði“,

Salóme Kristjánsdóttir, móðir Gunnlaugs matsveins,
Loftur Jónsson kaupfjelagsstjóri. Giftur. 1 barn. Tengdasonur Edvalds Möller á Akureyri,

Úr Dalahreppi í Barðastrandarsýslu:

Guðbjörg Elíasdóttir, ung stúlka, ógift,
Benedikta Jensdóttir frá Selárdal.

Frá Patreksfirði:

Sjera Þorsteinn Kristjánsson prestur i Sauðlaukadal. Átti 2 börn, sem eru við nám.
Þórður Þorsteinsson skipstjóri á b.v. Baldri Giftur, 2 börn.

Skipshöfnin var sjö manns. Farþegar 23, af þeim tíu konur og einn sjö ára drengur. Af þeim 30, sem fórust, voru 22 frá Bíldudal og meðal þeirra sóknarpresturinn, verslunarstjóri stærstu verslunarinnar, framkvæmdastjórar tveir og verkstjóri hraðfrystihússins. Fóru þarna sem sagt flestir helstu forvígismenn staðarins. — Mun aldrei jafn tilfinnanlegt manntjón hafa komið fyrir eitt kauptún að tiltölu við fólksfjölda staðarins, þar sem í einu hverfa í sjóinn nál. 10. hver maður kauptúnsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -