Föstudagur 14. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

William Scobie framdi fyrsta vopnaða rán Íslandssögunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á nöpru febrúarkvöldi árið 1984 var framið tvöfalt vopnað rán í Reykjavík. Fyrst otaði maðurinn afsagaðri haglabyssu að leigubílstjóra og tók bíl hans og keyrði að Áfengisverslun ríkisins þar sem hann rændi tvo starfsmenn sem voru að fara með sölu dagsins í bankahólf. Komst ræninginn undan með tæpar 2 milljónir króna. Ekki náði hann þó að flýja réttvísina lengi.

Tíminn sagði frá ráninu daginn eftir:

Tvöfalt vopnað rán í Reykjavík í gærkveldi:

RÆNINGINN KOMST UNDAN MEÐ TÆPAR 2 MILLJÓNIR — Ógnaði starfsmönnum ÁTVR og leigubifreidastjóra með hlaupsagadri haglabyssu — Leitin að honum hafði ekki borið árangur um miðja nótt.

Vopnað rán var framið fyrir utan Landsbankann að Laugavegi 77 upp úr kl. 20 í gærkveldi, og tókst ræningjanum að komast á brott í stolinni bifreið með 1.8 milljón krónur. Maður, vopnaður haglabyssu, sem hlaupið hafði verið stytt ógnaði fyrst leigubílstjóra af Hreyfli suður í Nauthólsvík og neyddi hann út úr bíl hans, um kl. 19.30. Maðurinn er síðan talinn hafa ekið að útibúi Landsbankans að Laugavegi 77, þar sem hann náði að ræna 1.8 milljón króna af tveimur starfsmönnum áfengisútsölunnar við Lindargötu, sem voru við bankann í þeim erindagjörðum að setja verslun dagsins í næturhólf bankans.

Maðurinn ógnaði starfsmönnunum með haglabyssunni, sem hann er talinn hafa stolið í innbroti í verslunina Vesturröst í fyrrinótt. Skaut hann að bifreið þeirra og komst síðan á brott í stolnu leigubifreiðinni.

- Auglýsing -

Tíminn hefur aflað sér frétta um að leigubílstjórinn, Örn Reynir Pétursson, bílstjóri á Hreyfli hafi ekið manninum frá Hótel Sögu og suður í Nauthólsvík, á afvikinn stað. Þar hafi hann rekið byssuhlaup í hnakka Arnar Reynis, neytt hann út úr bifreiðinni og ekið á brott. Örn Reynir hafi hlaupið að Loftleiðahótelinu, og látið lögregluna vita þaðan um atburðinn. Skömmu síðar, eða laust upp úr kl. 20 var tilkynnt um ránið að

Laugavegi 77, af tveimur starfs: mönnum ÁTVR við Lindargötu. Starfsmennirnir, þeir Pálmi Einarsson og Konráð Konráðsson höfðu að vanda lagt bifreið sínni á gangstéttina fyrir framan bankann, og var það Konráð sem steig út úr bifreiðinni með peningana, 1.8 milljón krónur. Í þann mund sem Konráð steig út var skotið af haglabyssu í bretti og dekk bílsins, og sprakk dekkið. Konráð hugðist verjast skotmanninum, sem þá sló til hans með byssunni og annað skot reið af við það. Konráð gafst upp við svo búið og ræninginn náði peningapokanum og komst á brott í stolnu leigubifreiðinni. Ræninginn reyndi m.a. að gera sig torkennilegan með því að mála á sig skegg.

Allt lögreglulið borgarinnar var kallað út til leitar að ræningjanum, um leið og tilkynnt hafði verið um ránið, og var Víkingasveit lögreglunnar í viðbragðsstöðu í gærkveldi. Klukkustund eftir að ránið hafði verið tilkynnt, fannst bifreiðin yfirgefin í porti bak við Brautarholt 2, og voru fjármunir og haglabyssa einnig á brott. Lögreglan fékk mann með sporhund til liðs við sig, og leitaði hann ásamt lögreglusveitum á svæðinu í gærkveldi, en án árangurs.

- Auglýsing -

Mennirnir þrír sem ráðist var á gáfu skýrslu hjá Rannsóknarlögreglunni í gærkveldi, og reyndu þeir einnig að bera kennsl á árásarmanninum í myndasafni lögreglunnar, en sú leit mun ekki hafa borið árangur. Þegar blaðið fór í prentun í nótt, hafði enn ekkert spurst til ræningjans. –

Lögreglan yfirheyrir Konráð Konráðsson við upphaf rannsóknar

Þann 28. febrúar sama ár, greindi DV frá því að fyrrverandi starfsmaður ÁTVR hafi komið lögreglu á sporið. Var hann málkunnugur ræningjanum sem hafði sýnt mikinn áhuga á peningaflutningum ÁTVR og spurt mikið út í þá. Þegar maðurinn sá frétt um ránið í blöðunum hafði hann undireins samband við lögreglu og greindi þeim frá samskiptum sínum við ræningjann. Húsleit var gerð heima hjá manninum, William James Scobie sem var íslenskur ríkisborgari en þar fannst helmingur þýfisins. Kom einnig í ljós að faðir Williams hafi reynt að koma honum úr landi. Þá átti William sér vitorðsmann innan Landsbankans, hinn 19 ára Ingvar Heiðar Þórðarson.

Dæmt var í máli þremenninganna seinna sama ár en blaðið NT sagði svo frá dóminum:

Sakadómur í ATVR-ráninu: Scobie dæmdur í 5 ár -Ingvar í 18 mánuði

■ Dómur í fyrsta vopnaða ráni á Íslandi er fallinn. Einn sakborninga var dæmdur til 5 ára fangelsisvistar, annar til 18 mánaða og sá þriðji til 6 mánaða skilorðsbundið. Búast má við að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

■ William James Scobie, aðalsakborningur í Landsbankamálinu svokallaða, var í gær dæmdur í Sakadómi Reykjavíkur til 5 ára fangelsisvistar. Hjálparmaður hans við ránið, Ingvar Heiðar Þórðarson, var dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar og faðir Williams, Griffith Scobie, til 6 mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistunar.

Þá voru þeir félagar dæmdir til að greiða allan sakarkostnað og til að endurgreiða það sem á vantaði á ránsféð þegar lögreglan fann það. Eins og kunnugt er rændi William tvo starfsmenn ÁTVR við Landsbankann í vetur. Notaði hann haglabyssu við ránið og naut aðstoðar Ingvars. Griffith Scobie, faðir William, var ekki viðriðinn ránið sjálft en reyndi að aðstoða William við að komast úr landi.

Dóminn kváðu upp sakadómararnir Ármann Kristinsson, Jón Erlendsson og Jón Ólafsson. William var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. október. Samkvæmt lögum er skylt að áfrýja máli Williams til Hæstaréttar.

Baksýnisspegill þessi birtist fyrst hjá Mannlífi 12. ágúst 2022.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -