Föstudagur 21. júní, 2024
11.1 C
Reykjavik

Einar hjá Neytendasamtökunum gagnrýnir framgöngu Motus í máli Lilju: „Erfið staða fyrir neytanda“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögfræðingur hjá Neytendasamtökunum telur mikla annmarka á vinnubrögðum Motus í tengslum við mál sem fjallað er um í nýjasta tölublaði Mannlífs. Hann veltir því jafnframt upp hvort framganga Motus í málinu geti samræmst góðum innheimtuháttum.

Lilja Margrét Hreiðarsdóttir lenti í hrakförum í samskiptum sínum við Motus og Lögheimtuna. Hún átti í deilum vegna reiknings sem hún taldi sig ekki eiga að greiða. Málið var farið fyrir Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa en þrátt fyrir að hafa látið Motus vita af deilunum og kærunni var krafan ekki fryst. Auk þess bárust svör frá Motus bæði seint og illa. Þrátt fyrir upplýsingar frá Lilju var krafan send í löginnheimtu og meðan á öllu þessu stóð hrapaði hún niður í ruslflokk í lánshæfismati Creditinfo, vegna vöktunar og uppflettinga Motus.

Blaðamaður Mannlífs ræddi við Einar Bjarna Einarsson, lögfræðing hjá Neytendasamtökunum. Hann segir neytendur í þröngri stöðu í glímu sinni við innheimtufyrirtæki, þegar um væri að ræða deilumál.

„Þetta er auðvitað erfið staða fyrir neytanda, að vera svona á milli steins og sleggju. Að þurfa í rauninni að eiga við tvo aðila. Við höfum mælt með því að fólk hafi strax beint samband við innheimtuaðila og reyni að fá þá til að setja innheimtu á bið, á meðan úr málinu er leyst. Flestir verða nú við því en í hennar tilfelli [Lilju] var ekki einu sinni búið að svara.“

 

Samræmist hugsanlega ekki góðum innheimtuháttum

Einar segir Neytendasamtökin hafa lagt fram þá tillögu að skorður yrðu settar á innheimtuaðgerðir, meðan mál væru til úrlausnar í kærunefndum. Það yrði að útfæra það með þeim hætti að ekki væri unnt að misnota ákvæðið.

- Auglýsing -

„Þegar fólk er að lenda í þessu, er sannarlega með umdeilda kröfu og það er ágreiningur um það hvort hún sé réttmæt eða ekki, og fólk er að stíga þessi skref sem boðið er upp á og láta reyna á réttmæti – að reikningurinn sé þá bara í fullri innheimtu á meðan; það er erfið staða.“

Einar segir Lilju hafa varpað fram áhugaverðri spurningu varðandi þessi mál. „Hvort þetta gæti verið í samræmi við góða innheimtuhætti eða ekki, að halda innheimtu áfram. Þetta er í sjálfu sér svona vísiregla og matskennt hvað eru góðir innheimtuhættir og hvað ekki.“

Hann segir svör innheimtufyrirtækja yfirleitt vera á þá leið að innheimtuaðilum beri að fara eftir fyrirmælum kröfuhafa. „Það eru oft svörin sem við fáum, þegar við erum að annast milligöngu fyrir neytanda og setjum okkur í samband við innheimtuaðila, og biðjum um að innheimta sé sett á bið meðan verið er að leysa úr ágreiningi. Þá vilja þau fyrst athuga með kröfuhafa, hvort hann samþykki það.“

- Auglýsing -
Mynd: LinkedIn

Svaraleysi veldur hliðaráhrifum

Einar segir mál af þessu tagi koma upp við og við. Hann segir að um sé að ræða erfiða stöðu, en að blessunarlega sé það oftast þannig að innheimtuaðili sé viljugur til að setja innheimtu í bið meðan beðið er eftir úrlausn. „Í þessu máli hins vegar tafðist það, frekar lengi. Það hefur þessi hliðaráhrif.“

Einar veltir fyrir sér úrræðunum sem neytendum standa til boða í þessari stöðu. Ef viðkomandi þori ekki annað en að greiða kröfuna, geti ef til vill verið erfitt að sækja hana til baka ef niðurstaðan verður greiðanda í vil.

Hann segir erfitt að ráðleggja neytendum að greiða með fyrirvara. Að endingu þurfi þeir að ákveða sjálfir hvaða skref þeir vilji taka. Báðir kostir séu í raun slæmir; að greiða ekki og lenda í innheimtu og glímu við innheimtufyrirtækin, eða að greiða með fyrirvara og þurfa svo jafnvel að reyna að sækja endurgreiðslu.

„Manni myndi finnast eðlilegast að aðilar gætu í þessu tilfelli látið reyna á réttmæti kröfunnar í friði,“ segir Einar. Hann segist telja vert að skoðuð yrði lögfesting á einhvers konar ákvæði, varnagla sem verndi neytendur í þessari stöðu, líkt og Neytendasamtökin hafa lagt til. „Vegna þess að þetta setur neytandann í rosalega óþægilega stöðu. Að vera bæði í viðræðum við kröfuhafann sjálfan, standa í ágreiningi um réttmæti kröfunnar, og þurfa síðan líka að vera að andmæla innheimtuaðgerðum við innheimtuaðila. Tvo, í þessu tilfelli.“

Einar bendir á að í tilfelli Lilju sé svaraleysi Motus yfir langt tímabil afar gagnrýnisvert. Ef Motus hefði strax meðhöndlað tölvupóst hennar, tekið athugasemdir hennar til greina og fryst innheimtuna, hefði málið ekki farið á það stig að hliðaráhrifin, lækkun lánshæfismats hjá Creditinfo, kæmu fram.

 

Lesið nánar um mál Lilju hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -