„Ég kláraði fyrstu heilu söguna sem unglingur þegar ég tók þátt í smásagnakeppni í skólanum. Reyndar fór ég þá beint í glæp, en í sögunni myrti stelpa bestu vinkonu sína,“ segir hún og svo virðist sem snemma hafi þráðurinn verið valinn. Þetta segir Eva Björg Ægisdóttir, flugfreyja sem nýverið gaf út sína fjórðu glæpasögu á jafn mörgum árum í viðtali á Fréttablaðinu.
„Mér finnst ég aldrei hafa tekið sérstaka ákvörðun um að skrifa endilega glæpasögur. Ég las rosalega mikið sem krakki og bókasafnið á Akranesi var nánast mitt annað heimili,“ svarar Eva Björg, aðspurð hvenær áhuginn á hinum myrku hliðum mannlegs eðlis hafi kviknað.
„Mér var stundum skutlað heim af starfsfólki safnsins á kvöldin.“
Hefur betrunarvist áhrif á endurkomur fanga
Í háskóla stundaði Eva námi í félagsfræði þar sem hún sat meðal annars kúrs í afbrotafræði og fjallaði í framhaldi um fanga í BA-ritgerð sinni.
„Ritgerðin fjallaði um hvort betrunarvist hefði áhrif á endurkomur fanga, en ég gerði samanburð á Íslandi og löndum eins og Bandaríkjunum þar sem fangelsi eru meira hugsuð sem refsivist.
„Ég held ég hafi alltaf haft mikinn áhuga á mannlegri hegðun og fólki almennt. Það að drepa einhvern er ýktasta formið sem mannleg hegðun býður upp á og ég held að flestir hafi gríðarlegan áhuga á því, það er fyrir okkur svo óskiljanlegt að einhver geti myrt aðra manneskju,“ segir hún.
„Við viljum flest leitast við að skilja hvernig slíkt getur gerst og mér finnst gaman að sökkva mér í það,“ segir Eva og bætir við að svo óhugsandi glæpur sé þó í raun nær okkur en við höldum.
„Við hugsum að við gætum ómögulega framið slíkan glæp, en svo hefur sagan sýnt að fleiri eru færir um að fremja hræðilega glæpi en við höldum. Ef við til að mynda horfum á seinni heimsstyrjöldina og sjáum hversu hræðilega hluti fólk gerði – einfaldlega því það hafði leyfi til þess frá yfirvaldi.“
Flugfreyjustarfið gaf henni rými til að skrifa
Eva Björg minnist jafnframt á hina frægu rannsókn sem gerð var við Stanford háskóla árið 1971, The Stanford Prison Experiment. „Þar var hópi háskólanema skipt í tvennt, helmingurinn var fangaverðir og hinn helmingurinn fangar. Eftir nokkra daga þurfti að stöðva rannsóknina því fangaverðirnir voru orðnir svo brútal – því þeir fengu leyfi,“ rifjar hún upp.
Fyrsta bók Evu Bjargar, Marrið í stiganum, kom út árið 2018 en hafði verið tæpt ár í vinnslu.
„Ég vissi ekkert hvort ég hefði það í mér að skrifa heila bók, hafði oft skrifað brot. En þegar ég lauk mastersnámi í alþjóðafræði í Þrándheimi og flutti heim, ákvað ég að setjast við skriftir og lauk bókinni á níu mánuðum.“
Við heimflutninga réði Eva Björg sig sem flugfreyju hjá Wow Air, enda sannfærð um að það starf gæfi henni rými til að skrifa.
„Ég var með tvö börn og gat þannig skrifað í vaktafríum og tekið tölvuna með mér út í stopp.“ Aðspurð hvort hún hafi setið uppi á hótelherbergjum hingað og þangað um heiminn og skrifað um glæpi á Íslandi svarar Eva: „Á milli þess sem maður var að versla,“ og skellir upp úr.
„Ég vann við flugið svona átta til tíu daga í mánuði og átti svo gott frí inn á milli sem ég nýtti til að skrifa.“
Eva bar sigur úr býtum
Um sama leyti og handritið að fyrstu bók Evu var tilbúið auglýsti bókaútgáfan Veröld samkeppni um ný bókmenntaverðlaun, Svartfuglinn, sem stofnað hafði verið til í samstarfi við glæpasagnahöfundana Yrsu Sigurðardóttur og Ragnar Jónasson.
Samkeppnin er fyrir höfunda sem ekki hafa áður sent frá sér glæpasögu svo hún passaði vel fyrir frumraun Evu, sem tók þátt og bar sigur úr býtum. Með sigrinum hlaut Eva útgáfusamning hér á landi, peningaverðlaun en einnig samning við umboðsmann í Bretlandi.
Skemmst er frá því að segja að Marrið í stiganum varð metsölubók hér á landi og fljótlega keypti breskt forlag útgáfuréttinn og í kjölfarið hafa fylgt samningar víða um heim og bókin verið þýdd á ensku og frönsku og næst stendur til að þýða hana á þýsku.
„Að gefa út bók er mjög persónulegt. Maður er kannski í heilt ár að skrifa hana og svo er hún gefin út og ekkert heyrist strax og maður bara bíður óþreyjufullur. Því er ég mjög þakklát þegar ég heyri eitthvað jákvætt.“
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni inn á Fréttablaðinu