Fimmtudagur 18. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Fleki bjargaði Ólafi er hann féll í Grindavíkurhöfn: „Ég tommaði varla á móti veðrinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mánudaginn 8. janúar 1990 gekk skelfilegt veður yfir Ísland en verst var ástandið í Vestmannaeyjum og í Grindavík. Sjómaður á Reyni GK 47, varð fyrir því óláni að lenda í höfninni í Grindavík þegar Ægir læsti klóm sínum í hann er hann var á leið um borð og dró hann í sjóinn.

Það varð sjómanninum, honum Ólafi Ágústssyni, til happs að drumbur flaut hjá honum sem hann náði að grípa í og skömmu seinna fleki, sem hann skeið upp á. Flaut hann með flekanum um 200 metra og skall á hafnargarðinum hinum meginn. En þar með var þrautin ekki búin því Ólafur átti enn eftir að ganga heim í veðurhamnum.

DV fjallaði um málið daginn eftir en hér fyrir neðan má lesa um raunir Ólafs:

Ólafur Ágústsson, sjómaður í Grindavík: Ekki tími til að verða hræddur

– bjargaðist á fleka eftir að hann lenti í sjónum

„Ég var á bryggjunni, á leið um borð, þegar þetta gerðist. Það var talsverður sjór á bryggjunni, hann náði mér í miðja leggi. Áður en ég vissi af kom mikill sjór á bryggjuna, stór skafl, sem náði mér í axlir. Fyrr en varði var ég kominn i höfnina,“ sagði Ólafur Ágústsson, sjómaður í Grindavík. Ólafur varð fyrir því í nótt að lenda í höfninni í Grindavík. Enginn sjónarvottur varð að þessu óhappi. Ólafur, sem er skipverji á Reyni GK 47, var að mæta um borð til að aðstoða við að verja bátinn fyrir sjógangi og vindum. „Eftir að ég kom í sjóinn náði ég taki á drumb sem þar var og hékk á honum skamma stund. Síðan tókst mér að skríða upp á fleka sem var á floti. Á flekanum flaut ég yfir höfnina, um 200 metra, og skall í garðinn hinum megin. Lending var ekki erfið. Það var öllu verra að ganga á móti veðrinu á heimleiðinni. Ég var eðlilega blautur og eins var mér kalt. Ég tommaði varla á móti veðrinu.“ – Hvernig leið þér í sjónum. Varstu hræddur? „Þetta gerðist allt svo hratt að það var ekki tími til að hugsa um neitt nema bjarga sér. Það sá enginn það sem gerðist, veðurhamurinn var slíkur. Þegar flekinn skall á garðinn var lendingin ekki slæm. Þetta fór ágætlega,“ sagði Ólafur Ágústsson. Ólafur er 54 ára gamall, fæddur og uppalinn í Grindavík. Hann sagðist hafa verið 34 ár til sjós. „Ég hef aldrei lent í neinu fyrr en í nótt. Ætli ég fari ekki til læknis í dag og láti hlusta mig, ég hugsa það.“ Ólafur sagði að það væri mjög langt síðan annan eins sjógang hefði gert í Grindavíkurhöfn. Hann sagði að vindurinn og sjórinn hefðu orðið til þess að bókstaflega allt hefði verið á öðrum endanum í Grindavík. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -