Vandræðaleg mistök hafa verið gerð hjá Vinstri hreyfingunni – Grænt framboð en auglýsingar frá þeim hafa verið áberandi að undanförnu eins og reyndar hjá öllum flokkum vegna komandi sveitarstjórnarkosninga. Auglýsingar frá þeim á Facebook hafa fengið netverja til að hlæja dátt í dag.
Í auglýsingunum stendur Göngum lengra í Hafnarfirði – setjum X við D!

Hafa gárungarnir sagt að þarna sé gríman fallin, að VG stefni á meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn í Hafnarfirði.

Í samtali við Vísi hló Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, miðlægur kosningastjóro VG og sagði jafnframt: „Það er svona þegar maður útvistar verkefnum, maður er með verktaka í vinnu hjá sér og verktakinn er orðinn þreyttur. Ég veit ekki hvort hann sé að vinna fyrir einhverja fleiri líka. Við settum þetta inn klukkan hálf eitt í nótt eða eitthvað og þarna hefur einhverju slegið saman.“