Miðvikudagur 28. febrúar, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Guðlaugur Þór og kaupin á Swiss Life: „Einn versti díll sem nokkur maður hefur gert“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þann 11. júní árið 2003 stofnaði Guðlaugur Þór Þórðarsson eignarhaldsfélagið Bogmaðurinn. Tveimur dögum síðar, 13. júní fékk félagið greiddar tæpar 33. milljónir króna frá Landsbanka Íslands en var greiðslan sögð vera vegna sölu Guðlaugs Þórs á umboði fyrir Swiss Life tryggingamiðlunina svissnesku.„

Árið 2012 birtist eftirfarandi brot úr frétt á DV en hana skrifaði Ingi Freyr Vilhjálmsson:

Eignarhaldsfélag í eigu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar fékk greiddar tæpar 33 milljónir króna frá Landsbanka Íslands í júní 2003. Greiðslan var vegna sölu Guðlaugs Þórs á umboði fyrir tryggingamiðlun svissneska tryggingafélagsins Swiss Life sem hann seldi til Landsbankans á þessum tíma. Peningarnir voru lagðir inn á reikning eignarhaldsfélagsins Bogmannsins ehf., sem Guðlaugur Þór átti ásamt eiginkonu sinni, Ágústu Johnson. Þetta kemur fram á reikningsyfirliti frá Landsbankanum sem DV hefur undir höndum. Guðlaugur staðfestir, í samtali við DV, að viðskiptin hafi átt sér stað. Millifærslan frá Landsbankanum til eignarhaldsfélags Guðlaugs Þórs var framkvæmd þann 13. júní 2003. Bogmaðurinn var stofnaður þann 11. júní 2003, samkvæmt samþykktum félagsins frá þeim degi, og virðist því hafa verið komið á laggirnar gagngert til að taka við greiðslunni frá Landsbankanum. Tilgangur félagsins er sagður vera auglýsingamiðlun.

Er sjálfur með Swiss Life

Mánuði áður, í kosningunum til Alþingis í maí 2003, komst Guðlaugur Þór inn á þing fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Áður en Guðlaugur Þór fór inn á þing hafði hann verið starfsmaður Búnaðarbankans þar sem hann starfaði í tryggingadeildinni. Guðlaugur Þór var auk þess einnig borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á árunum 1998 til 2006. Hann hætti í Búnaðarbankanum um það leyti sem bankinn sameinaðist Kaupþingi og fór skömmu síðar inn á Alþingi Íslendinga þar sem hann hefur setið síðan. Guðlaugur Þór segir að viðskiptin með íslenska umboðið fyrir Swiss Life tengist starfslokum hans í Búnaðarbankanum. Hann segist hafa varið í það miklum tíma, einu til tveimur árum, að tryggja Búnaðarbankanum umboðið fyrir Swiss Life hér á landi í gegnum skrifstofur félagsins í Liverpool á Englandi. Búnaðarbankinn keypti svo þetta umboð fyrir tilstilli Guðlaugs Þórs. „Við erum með fyrstu Swiss Life-trygginguna sjálf, ég og Ágústa. Þessar tryggingar voru miklu hagstæðari og veittu miklu meiri tryggingavernd,“ segir Guðlaugur Þór sem varð í kjölfarið tengiliður Búnaðarbankans við Swiss Life. „Ég stýrði þessu og seldi þessar vörur.“

Keypt með láni frá bankanum

- Auglýsing -

Þegar Guðlaugur Þór hætti í Búnaðarbankanum við sameininguna við Kaupþing varð niðurstaðan sú að hinn sameinaði banki vildi ekki halda umboðinu fyrir Swiss Life. „Niðurstaðan varð sú að ég keypti Swiss Life því ég hafði unnið mjög hart að því að ná þessum samningum og vildi að þetta héldi áfram hér á landi.“ Guðlaugur Þór segist aðspurður hafa keypt Swiss Life-umboðið með skammtímaláni frá Búnaðarbankanum. „Ég man það ekki alveg en ég held að ég hafi fengið skammtímalán, væntanlega frá Búnaðarbankanum. Það leið mjög skammur tími frá því ég keypti umboðið þar til ég seldi það þannig að vaxtagjöldin hafa ekki verið mjög mikil.“ Hann segist hafa selt umboðið til Landsbankans á nokkurn veginn kostnaðarverði. „Þetta er væntanlega einn versti díll sem nokkur maður hefur gert,“ segir Guðlaugur og bætir því við að söluverðið hafi rétt dugað til að greiða lánið til baka til Búnaðarbankans og fyrir útlögðum kostnaði. Guðlaugur Þór segist því ekki hafa grætt mikið persónulega á viðskiptunum. Aðspurður hvort hann hafi grætt milljónir á viðskiptunum segir hann að svo hafi ekki verið.

Ekkert um greiðsluna í ársreikningnum

Í ársreikningi Bogmannsins fyrir árið 2003 kemur ekkert fram um þessa greiðslu frá Landsbankanum. Eigið fé félagsins nam einungis rúmlega 2 milljónum króna og var hagnaður þess rúmlega 1.200 þúsund. Engar upphæðir eins og umræddar tæpu 33 milljónir virðast hafa runnið í gegnum Bogmanninum. Samt sýnir greiðslukvittunin fram á það að félagið tók við umræddri greiðslu frá Landsbankanum. Sömu sögu er að segja um ársreikning félagsins árið á eftir: Ekkert í bókhaldi félagsins sýnir þetta tæplega 33 milljóna króna innlegg á reikning félagsins. Guðlaugur Þór segist ekki geta útskýrt af hverju söluverð umboðsins komi ekki fram í sjóðstreymisyfirlitinu í ársreikningi Bogmannsins. „Ég bara hef ekki hugmynd um það. Var þetta ekki 2003. Er ársreikningurinn ekki undirritaður af endurskoðanda? Ég man ekki nákvæmlega allt sem ég gerði árið 2003. Ég kann ekki að segja frá þessu. En við vorum í góðri trú í þessum viðskiptum.“

- Auglýsing -

Kominn á þing og vildi út

Guðlaugur segir að hann hafi einfaldlega viljað hætta öllum viðskiptum áður en hann færi á þing: „Í örstuttu máli er þetta svona: Þetta var mál sem ég var búinn að vinna að ógeðslega lengi og loksins kominn með í land. Ég grátbað Kaupþing um að taka þessa vöru, þar sem Kaupþing faktískt tók yfir Búnaðarbankann. Þeir skildu mín rök en vildu ekki halda þessu umboði. Ég tók því bara umboðið yfir. Aftur á móti hafði ég enga möguleika á því að fara að reka þetta, ég var kominn inn á þing og vildi bara koma mér út úr þessu og sel þetta nokkurn veginn á kostnaðarverði inn í Landsbankann. Ég bara tók þetta yfir og hafði ekki tíma eða tækifæri til að leika einhvern pókerleik með fjárfestingu upp á 30 milljónir og var því ekkert að bjóða þetta út eða bíða. Ég vildi bara vera „on the safe side“ og bara lokaði þessu dæmi,“ segir Guðlaugur Þór. Aðspurður af hverju hann seldi umboðið til Landsbankans segir Guðlaugur Þór enga sérstaka ástæðu hafa verið fyrir því: „Ég vildi bara hreinsa borðið mitt. […] Landsbankinn var algjörlega „sure thing“. Þeir bara borguðu og ekkert vesen.“

Fyrrverandi samstarfsmenn Guðlaugs

Þegar millifærslan til eignarhaldsfélagsins átti sér stað var Sigurjón Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Búnaðarbankans, nýorðinn bankastjóri Landsbankans. Á þriðja tug starfsmanna Búnaðarbankans hætti í bankanum í apríl 2003 vegna fyrirhugaðrar sameiningar bankans og Kaupþings. Bæði Landsbankinn og Búnaðarbankinn höfðu verið einkavæddir í lok árs 2002 eða byrjun árs 2003 og var sameining Búnaðarbankans og Kaupþings kynnt í apríl þetta ár. Meðal annarra starfsmanna Búnaðarbankans sem hættu um þetta leyti og fóru yfir til Landsbankans voru Ingvi Örn Kristinsson, Elín Sigfúsdóttir og Steinþór Gunnarsson. Segja má að eiginlega allt yfirmannateymi Landsbankans við hrun hafi komið úr Búnaðarbankanum á þessum tíma. Guðlaugur þekkti því ágætlega til þeirra starfsmanna Búnaðarbankans sem nú voru komnir til Landsbankans. Miðað við svör Guðlaugs Þórs skiptu tengsl hans við þáverandi starfsmenn Landsbankans þó ekki máli í þessu tilfelli. „Þetta er ekkert leyndarmál,“ segir Guðlaugur Þór um viðskiptin með tryggingaumboðið.

Í annarri frétt um málið sem skrifað var af sama blaðamanni á DV er talað við Sigurjón Árnason varðandi viðskiptin.

Hræringar eftir einkavæðinguna

Sigurjón segist aðspurður ekki hafa komið að því að selja Guðlaugi Þór umboðið út úr Búnaðarbankanum, þetta hafi verið gert eftir að hann hætti þar. „Swiss Life er búið til inni í Búnaðarbankanum. Þegar bankinn er tekinn yfir af Kaupþingi vildu þeir ekki lengur vera með þessa þjónustu af því þeir voru með sitt eigið tryggingafélag. Á sama tíma er Landsbankinn að selja helminginn úr LÍFÍS út úr bankanum og til VÍS. Þar af leiðandi vantaði Landsbankann tryggingastarfsemi og þess vegna verða viðskiptin. Þetta er framhald af einkavæðingunni. Þú manst að hluti af einkavæðingunni var að VÍS var selt út úr Landsbankanum. Eftir sat hins vegar þessi hlutur í LÍFÍS sem VÍS vildi svo eignast, á sama tíma vildi Kaupþing losna við þessa tryggingastarfsemi sem hafði verið í Búnaðarbankanum.“ Sigurjón segir að söluverðið á LÍFÍS hafi verið margfalt hærra en kaupverðið á Swiss Life.

Selt í stuttan tíma

Sigurjón segir að tryggingaumboðið hafi verið rekið áfram inni í Landsbankanum eftir þetta. Það hafi hins vegar ekki verið mjög lengi, eitt til tvö ár, þar sem Swiss Life í Sviss rifti samningum við millilið Landsbankans í viðskiptunum, skrifstofur Swiss Life í Bretlandi. „Þeir vildu loka bresku einingunni. Eftir það var ekki hægt að selja tryggingar þessa félags. Sá kúnnagrunnur sem var kominn var svo bara þjónustaður áfram. Það er ennþá fullt af fólki með þessar tryggingar. Okkur gekk mjög vel að selja þessar tryggingar. Þetta var ágætis bisness enda voru þetta frábærar tryggingar, frábærar tryggingar.“ Landsbankinn var því aðeins söluaðili Swiss Life í skamman tíma eftir að Guðlaugur Þór seldi bankanum umboðið.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -