Þriðjudagur 7. maí, 2024
4.8 C
Reykjavik

Guðni forseti skemmti sér með Vestfirðingum: „Maður gerir ekki rassgat einn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, skellti sér í páskavikunni til Vestfjarða þar sem hann skoðaði hitt og þetta og hitti margt fólk. Skellti hann sér meðal annars á tónleika, ljósmyndasýningu og páskalistasýningu leikskólabarna en hann skrifar færslu um för sína á samfélagsmiðlinum Facebook.

„Syngjum lag, spilum spil, þá er gott að vera til. Þannig syngur Vestfirðingurinn Mugison og síðustu daga var svo sannarlega gott að vera þar vestra. Á Ísafirði sótti ég 20 ára afmæli tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður og í stuttu opnunarávarpi þakkaði ég þeim fjölda heimafólks sem kemur að þessum magnaða viðburði ár eftir ár. Einkunnarorð hátíðarinnar eru mörgum kunn og engin ósannindi sem þar koma fram: Maður gerir ekkert einn (hvernig sem það er svo orðað nákvæmlega). Aldrei fór ég suður er fyrirtaks dæmi um þann samtakamátt sem getur látið góða hluti gerast í smáu en knáu samfélagi – eins og Íslandi í heild eða byggðarlögum um land allt. Ekki verður þó framhjá því litið að sífellt snúnara er að standa að bæjarhátíðum. Erfitt reynist að fá fjölda manns til að gefa vinnu sína og tíma og regluverk getur verið flókið. Því magnaðri er þessi frábæra hátíð. Takk fyrir mig og gangi ykkur áfram vel!“ skrifaði forsetinn í byrjun færslu sinnar um heimsóknina.

„Ferðina nýtti ég til frekari erindagjörða. Á skírdag hlotnaðist mér sá heiður að opna páskalistsýningu leikskólabarna í Ísafjarðarbæ og síðan flutti ég erindi á aðalfundi Sögufélags Ísfirðinga um Vestfirðinga og útfærslu fiskveiðilögsögunnar á síðustu öld. Fróðlegt var að spjalla við gesti um þennan merka þátt þjóðarsögunnar. Að kvöldi skemmti ég mér svo með heimafólki á tónleikum þar sem leikin voru rokklög frá níunda áratugnum með miklu fjöri og glæsibrag,“ og var Guðni rétt byrjaður að hitta allt það fólk sem hann átti eftir að hitta.

„Að morgni föstudagsins langa fékk ég mér sundsprett út af Neðstakaupstað með hópi vestfirskra sjósundskappa. Kannski má kalla það píslarsund. Síðan lá leiðin í Tungudal á Skíðaviku, eina elstu bæjarhátíð landsins, sem Skíðafélag Ísafjarðar stendur að. Í ár fagnar félagið 90 ára afmæli og ræddi ég um hag félagsins við formanninn, Elenu Dís Viðarsdóttur.“

Guðni með Elenu Dís Víðisdóttur, formanni Skíðafélags Ísfirðinga, og gestum Skíðavikunnar á furðufatadegi í Tungudal – Mynd: Forsetaembættið

„Fyrr um daginn opnaði ég ljósmyndasýninguna „Maður gerir ekki rassgat einn“. Þar getur að líta myndir af framlagi sjálfboðaliða við Aldrei fór ég suður í áranna rás. Sýningin er við Byggðasafn Vestfjarða í Neðstakaupstað og verður opin fram á sumar. Þá sótti ég opnun myndlistarsýningarinnar Haminn neisti í Listasafni Ísafjarðar í Safnahúsinu. Þar sýnir Ragnhildur Weisshappel verk úr sykurmolum og gifsi. Einnig leit ég við í Tónlistarskóla Ísafjarðar og kynnti mér sögu hans og þá öflugu starfsemi sem þar fer fram undir forystu Bergþórs Pálssonar skólastjóra. Þá rak ég inn nefið í bækistöðvum Kerecis, þess öfluga nýsköpunarfyrirtækis. Og síðan tók tónlistin við, Aldrei fór ég suður í öllu sínu veldi.“

„Þennan dag hélt ég líka í Hnífsdal og kynnti mér hin einstöku skipalíkön sem Ingvar Friðbjörn Sveinsson vinnur að þar. Hann færði mér dýrmæta gjöf, sextant sem var um skeið um borð í vitaskipinu Hermóði. Þar var afi minn skipstjóri um árabil. Bestu þakkir, Ingi Bjössi!“ en Mannlíf ræddi við Ingvar fyrir stuttu um skipalíkönin.

- Auglýsing -
Ingvar Friðbjörn Sveinsson vinnur að gerð skipslíkana í Hnífsdal.
Ingvar Friðbjörn Sveinsson vinnur að gerð skipslíkana í Hnífsdal. – Mynd: Forsetaembættið

„Laugardagurinn var tekinn snemma. Í kafaldsbyl var hlaupið frá Bolungarvík að Ósi og til baka með görpunum í Riddurum Rósu, þeim flotta hlaupahópi. Eftir hádegi tók ég svo þátt í pönkgöngu sem boðað var til í tengslum við Aldrei fór ég suður. Sigurjón Kjartansson fjöllistamaður, sem ólst upp á Ísafirði og var með fyrstu pönkurum bæjarins, leiddi göngufólk um slóðir pönksins þar og var gerður góður rómur að máli hans,“ hélt sagnfræðingurinn snjalli áfram í færslunni

„Lokaliður Vestfjarðafararinnar var vel viðeigandi. Þennan laugardag var Jón Páll Halldórsson útnefndur heiðursborgari Ísafjarðarbæjar. Hann var lengi framkvæmdastjóri Norðurtangans en hefur síðan skrifað fjölda rita um þætti í sögu Ísafjarðar, Vestfjarða og íslensks sjávarútvegs. Ég heimsótti Jón Pál og þakkaði honum hans mikilverða framlag í þágu sögu og samfélags.

Á ferðum okkar vestur höfum við Eliza ætíð notið gestrisni og góðvildar heimafólks. Ég notaði tækifærið nú við lok minnar forsetatíðar og þakkaði enn á ný þær góðu viðtökur. Vestfirðingar eru höfðingjar heim að sækja,“ skrifaði Guðni að lokum

May be an image of 2 people
Jón Páll Halldórsson, nýr heiðursborgari Ísafjarðarbæjar. – Mynd: Forsetaembættið

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -