Föstudagur 17. maí, 2024
4.8 C
Reykjavik

Guðrún Eva segir þjáningu hafa tilgang: „Sorgin gleymir engum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur birtir á Facebook-síðu sinni hugvekju sem hún flutti á aðventukvöldi í Hveragerðiskirkju. Hugvekjan virðist snerta einhverja taug hjá landsmönnum því hún hefur vakið mikil viðbrögð á samfélagsmiðlum. Hugvekjuna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan en þar ræðir Guðrún Eva um það hvernig þjáning og mótlæti sé ekki með öllu neikvætt. Með því að ganga í gegnum áföll þá aukist meðal annars samkennd fólks með öðrum.

Hugvekja á aðventukvöldi í Hveragerðiskirkju:

Eitt er það sem ég hef varið mestallri ævinni í að reyna að tileinka mér. Og það er: Að treysta lífinu. Jafn fífldjarft og það kannski hljómar. Og mótsagnakennt. Lífið er jú algert ólíkindatól, fullkomlega óútreiknanlegt. Hér er ekkert öruggt annað en breytingar (stundum óvelkomnar), hrörnun og dauði.

Ef það væri létt og sjálfsagt að treysta lífinu tæki því kannski ekki að tala um það. Ég þarf ekki að útlista allar þær hörmungar sem geta dunið á einni manneskju. Allt sem hægt er að fara á mis við. Við erum óvarin fyrir sorgum heimsins og fáum öll okkar skerf. Vonbrigði eru sjálfgefinn hluti af lífinu. Sársaukinn óumflýjanlegt hlutskipti okkar. Stundum finnst mér jafnvel að helsta og eina öryggið sé fólgið í tilhugsuninni um dauðann; að hann muni á endanum bjarga okkur öllum úr þessum, að mörgu leyti fagra, en um leið stórhættulega, táradal. En ég veit ekki hvort það má tala með þessum hætti þótt um sjálfsagða hluti sé að ræða og nú skal ég reyna að koma mér að efninu: Nefnilega því sem ekki er sjálfsagt. Og það er: Að lífinu er treystandi fyrir því sem máli skiptir. Við getum alveg treyst því að reynslan færi okkur, á hverju einasta andartaki, tækifæri til að vaxa og vitkast.

Mér finnst góður ávani þegar eitthvað ónotalegt eða óæskilegt gerist að spyrja þeirrar klassísku spurningar: „What´s in it for me?“ Hvað græði ég á þessu? Í merkingunni: Hvaða andlega lærdóm er lífið að færa mér? Þetta hljómar kannski eigingjarnt, en þannig er það bara ef við lítum á innri vöxt sem einkamál hvers og eins.

En útvíkkun hugans og stækkun hjartans er ekki okkar einkamál heldur eitthvað sem hefur áhrif langt út fyrir sig. Ef við munum að við erum verkfæri til góðs í heiminum þá má segja að okkur beri beinlínis að brýna okkur og eflast. Og ef þjáningin þjónar okkur með því til dæmis að tálga af okkur hégómann og dýpka samkenndina þjónar hún heiminum líka.

- Auglýsing -

Nú vil ég ekki meina að við vöxum eingöngu í gegnum þjáningu, alls ekki. En sumur skilningur virðist ekki í boði nema gegn gjaldi sem greiðist með mótlæti, mistökum eða missi. Er ég þá að upphefja þjáninguna? Nei. Bara að segja að hún sé ekki til einskis. Að hún þjóni sínum tilgangi. Að þótt þjáning valdi stundum meiri þjáningu (sært fólk eigi það til að særa fólk og skaðleg mynstur húkki sér far með kynslóðunum og allt það) sé sumt sem við getum ekki skilið til fulls nema hafa gengið í gegnum erfiða hluti.

Okkur er sagt að sýna góðvild og umburðarlyndi því við vitum ekki hvað næsti maður hefur þurft að ganga í gegnum. En eiginlega getum við einmitt gert ráð fyrir að flestar manneskjur sem við mætum eigi sína mis-hrikalegu áfallasögu. Sorgin gleymir engum.

Tækist einhverjum að sleppa ódýrt frá þessu öllu, svona reynslulega séð, myndi mögulega vanta eitthvað. Andlega rýmisgreind. Meðvitund um berskjöldun og hverfulleika. Skilning á að fólk geti verið bogið, snúið, bælt og laskað af áföllum en stærra og dýpra fyrir vikið.

- Auglýsing -

Of mikið sakleysi er ekki hlutskipti sem ég óska mér til handa. Þó svo að reynslan geti verið dýru verði keypt. Sakleysi er ofmetin tegund manngæsku. Ég vil vita. Ég vil skilja. Ég er fegin því að geta horft í augu annarra og sagt: ég veit, ég skil, ég líka.

En svo er hitt að miðað við hvað lífið er háskalegt er merkilega mikil velsæld í gangi. Fólk er að mestu leyti gott hvert við annað. Við hjálpumst að. Við látum í okkur heyra frammi fyrir óréttlæti. Þegar eitthvert okkar er knésett af erfiðleikum streymir fólk fram til stuðnings. Ég veit að sumir hafa aðra sögu að segja, en langoftast er þetta svona.

Það er líka merkilega margt sem bara virkar. Og sérlega margt sem gæti farið úrskeiðis en gerir það ekki. Við getum verið sammála um að flestar hversdaglegar áhyggjur okkar séu óþarfar. Hlutirnir sleppa vanalega fyrir horn, mál eiga það til að reddast, það greiðist úr flækjum, vesen og drama líða hjá.

Það fyndnasta við lífið finnst mér kannski að við virðumst ekki hafa hugmynd um hvað okkur er fyrir bestu. Eða kannski er það bara ég. Í það minnsta verð ég vör við að margt af því sem ég óttaðist og harmaði reyndist þegar upp var staðið mín mesta gæfa. Og sumar óskir sem fengust uppfylltar urðu mér fjötur um fót.

Ef ég gæti bara alltaf munað þetta, væri líf mitt ólíkt notalegra. Ég er nefnilega alls ekki „með þetta“. Þó svo að heita eigi að ég „viti“ allt þetta sem ég var að enda við að útlista er ég stundum illa haldin af kvíða, meira og minna alltaf í viðbragðsstöðu og hef helling af óþörfum áhyggjum. Það sem gerir þetta allt bærilegt er andleg næring, innbyrt með öllum skilningarvitum, tengslin við vini — þessa heims og annars — og síðast en ekki síst innra samtalið sem er að mestu leyti uppbyggilegt og hughreystandi.

Viðbragðsstaðan er alveg örugglega afleiðing af áföllum en bjarti tónninn í innra samtalinu er líka til kominn af reynslu. Þessu sem ég veit vegna þess að ég hef upplifað það. Vegna þess þrátt fyrir áföllin og viðbragðsstöðuna hefur reynslan kennt mér að treysta lífinu. Svo mótsagnakennt. Ég veit. Ekkert við því að gera. Njótum aðventunnar, kæru vinir. Kveikjum ljós í myrkrinu. Eða kveikjum í myrkrinu, bara. Nei, smá grín. Berum virðingu fyrir háskanum og elskum myrkrið því það er bara týnt og einmana. Lýsum upp tilveruna með því að halda áfram að hjálpa hvert öðru, styðja, hvetja og hlúa að. Það er tilgangur lífsins. Og við stöndum okkur alveg ágætlega. Því eitt er alveg öruggt mál í mínum huga: Að allir eru alltaf að gera sitt besta. Ef við gætum gert betur þá myndum við gera það! Megi gleðin og samkenndin umvefja okkur. Núna og alltaf

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -