Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Helgi Seljan ávíttur af Siðanefnd Blaðamannafélagsins: „En nú tekur steininn úr“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nýlega vakti úrskurður Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands furðu margra er nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, hefði gerst brotlegur við umfjöllun um Róbert Wessmann, vegna þess að hann hafði þegið laun fyrir bókarskrif um milljarðamæringinn. En þetta er ekki í fyrsta skipti og sjálfsagt ekki í síðasta skiptið sem Siðanefndin vekur furðu.

Árið 2007 var hinn þá ungi Helgi Seljan ávíttur fyrir Kastljósviðtal við Jónínu Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra Framsóknarflokksins. Viðtalið tók Helgi vegna þess að sambýliskona sonar Jónínu hafði fengið að því er virtist, flýtimeðferð við umsókn á ríkisborgararétti. Helgi gekk hart fram gegn Jónínu í viðtalinu og lét hana ekki komast upp með neitt múður. Fyrir vikið kærði Jónína Helga til Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands sem tók málið fyrir og úrskurðaði að Helgi og Kastljós hefðu gengið of langt og það rétt fyrir kosningar. Síðan þá hefur Helgi vaxið heldur betur ásmeginn og er í dag þekktur sem allra harðasi spyrill og rannsóknarblaðamaður landsins, þótt víða væri leitað.

Ungur Helgi Seljan og efnilegur

Blaðið (það hét bara það, Blaðið) fjallaði um úrskurðinn á sínum tíma:

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands: Kastljós RÚV braut siðareglur

Helgi Seljan, einn umsjónarmanna Kastljóss RÚV, og Ríkisútvarpið brutu gegn siðareglum Blaðamannafélags íslands í umfjöllun um veitingu ríkisborgararétts til sambýliskonu sonar Jónínu Bjartmarz. Siðanefnd Blaðamannafélagsins segir að brotið hafi verið gegn 3. grein siðareglna en samkvæmt henni ber blaðamanni að vanda upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýna fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Þá ber blaðamanni að forðast allt sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“

Blaðamaður Blaðsins flutti Jónínu fréttirnar í gær og þá hafði hún ekki ákveðið hvert næsta skref hennar yrði í málinu. Kastljós sendi í gær frá sér athugasemdir vegna úrskurðar siðanefndar. „Ekki verður annað séð en með þessum orðum sé siðanefnd BÍ að beina því til fjölmiðla að fjalla eigi öðruvísi um mál sem tengjast kjörnum fulltrúum rétt fyrir kosningar. Kastljós notar sömu viðmið í blaðamennsku í öllum málum óháð árstíðum eða því hvort kosningar eru í nánd.“ Og síðar: „Hvers vegna kýs Siðanefnd að líta framhjá kjarnanum í þessari umfjöllun Kastljóss?

Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður með meiru tók upp hanskann fyrir Helga og Kastljós með pistli í sama blaði, Blaðinu, þremur dögum eftir úrskurðinn:

- Auglýsing -

Fáránlegur úrskurður um Kastljós

Siðanefnd Blaðamannafélags íslands er orðin hættuleg almennilegri fjölmiðlun í landinu. Endanleg sönnun þess fékkst um daginn þegar nefndin úrskurðaði að Helgi Seljan og Kastljósið hefðu framið „alvarlegt brot“ gegn góðum vinnureglum með umfjöllun sinni um Jónínu Bjartmarz og ríkisborgararétt tengdadóttur hennar. Þann úrskurð munu þeir helst vilja nota sér til framdráttar sem sjá sér hag í að kveða í kútinn allar tilraunir fjölmiðla til að rannsaka mál á eigin spýtur og jafnvel í beinni andstöðu við máttarvöldin.

 

- Auglýsing -
Jónína Bjartmarz

Hinn eftirsótti ríkisborgararéttur

Svo ég rifji málið upp í örstuttu máli, þá snerist það um að tengdadóttir þáverandi umhverfisráðherra sótti um íslenskan ríkisborgararétt til allsherjarnefndar Alþingis. Og allsherjarnefnd veitti henni ríkisborgararéttinn á mettíma þótt ekki væri séð að stúlkan hefði betri forsendur en aðrir til að fá hinn eftirsótta rétt. Spurningin snerist altso um hvort ráðherra í ríkisstjórn Íslands hefði beint eða óbeint beitt áhrifum sínum til að fjölskyldumeðlimur fengi sérstaka fyrirgreiðslu sem fáum öðrum stóð til boða. Slíkt heitir spilling, sem kunnugt er. Kastljósi og Helga Seljan til ævarandi hróss var ákveðið að fjalla um málið enda þótt aðeins væru fáeinar vikur til kosninga. Flestir hinir „virðulegri“ fjölmiðlar á íslandi hefðu kannski kosið að geyma málið. Af tillitssemi við stjórnmálamenn í kosningabaráttu. Og hinn allra „virðulegasti“ hefði væntanlega kosið að fjalla alls ekki um málið. Það ætti ekki „erindi“ til pöpulsins. En Kastljós fór af stað. Þökk sé því.

Samtryggingakerfi

Til að byrja með gekk Kastljósi mjög illa að fá nokkrar upplýsingar um málið. Allar dyr lokuðust undir eins. Ég hugsa að Vilmundur heitinn Gylfason hefði dustað rykið af frasanum sínum um „samtryggingakerfi“ íslenskra stjórnmálamanna. Það leiddi aftur á móti til þess að í fyrstu fréttum Helga Seljan af málinu voru nokkur atriði ónákvæm um framgangsmátann þegar ríkisborgararéttur er veittur. Og eitthvað missagt eins og gengur. Þessi atriði voru leiðrétt jafnóðum og tókst að draga upplýsingar fram í dagsljósið og breyttu þó engu um grundvallarspurningu málsins: Hafði Jónína Bjartmarz misbeitt valdi sínu eða aðrir sveigt og togað venjulegar reglur af því hér átti í hlut skjólstæðingur ráðherra? Því hafnaði Jónína mjög eindregið eins og við munum. Og ekki öll kurl komin til grafar um það enn þá. Koma kannski aldrei. En hitt má aldrei fara milli mála – að umfjöllunarefni frétta Kastljóssins var ekki bara gott og gilt, heldur bæði nauðsynlegt og brýnt. Og því miður ekki algengt að gengið sé jafn skörulega á hólm við stjórnvaldsaðgerðir íslenskra ráðamanna og þarna var gert. Það væri samt afnógu að taka. Vinnubrögð Helga Seljan voru líka svo vönduð og nákvæm sem kostur var miðað við aðstæður – sem sagt þá staðreynd að hann kom alls staðar að harðlæstum dyrum.

Að gæta siðprýði – ekki sannleikans

Jónína Bjartmarz kærði til siðanefndar Blaðamannafélagsins og nú hefur sú nefnd sem sagt fellt sinn úrskurð. Þessi siðanefnd hefur lengi verið vandræðagripur þar sem hún virðist líta svo á að það sé hlutverk fjölmiðla að gæta siðprýði í landinu en ekki leita sannleikans. Flestir úrskurðir hennar undanfarin ár eru að engu hafandi – en nú tekur steininn úr. Nánast án rökstuðnings kveður nefndin upp úr með að vinnubrögð Helga og Kastljóss séu „alvarlegt brot“ á siðareglum af því þar hafi ekki allt verið hárnákvæmt frá byrjun. Gildir einu hvað við var að eiga. Og svo kemur nefndin endanlega upp um sig þegar hún nefnir í umfjöllun sinni að stutt hafi verið til kosninga þegar málið kom upp. Felst ekki í því að fjölmiðlar eigi að fara með silkihönskum um stjórnmálamenn rétt fyrir kosningar? Svo ekki falli hugsanlegt kusk á hvítflibbann? Ég skil satt að segja ekki hversu lengi blaðamenn ætla að sætta sig við að halda sjálfir úti nefnd sem hvað eftir annað leggst eins og mara á eðlilega og jafnvel framsækna fjölmiðlun í landinu – allt í nafni úreltra siðareglna. Og fyrrnefndrar siðprýði. En hefur þær einu afleiðingar að fjölmiðlar sem gera tilraun til að fylgjast með og veita valdhöfum aðhald fá skömm í hattinn. Er það ekki hlutverk einhverra annarra en blaðamanna sjálfra að bæla niður opna fjölmiðlun í landinu?

Hægt er að hlusta á viðtal Helga við jónínu hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -