Miðvikudagur 19. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Hetjudáð á Snæfellsnesi – Bjargaði eins og hálfs árs gömlu barni úr sprungu: „Hágrét allan tímann”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í baksýnisspegli kvöldsins er rifjað upp frækilegt afrek trésmíðanema þegar hann bjargaði eins og hálfs árs gömlu barni úr sprungu. DV fjallaði um málið þann 26.júlí árið 1985 en þar var meðal annars rætt við Sigurð Guðnason, 24 ára gamla trésmíðanemann, sem kom barninu til bjargar:

„Ég rétt náði með vísifingri í aðra hönd drengsins en gat kroppað áfram þar til ég náði taki á hendinni allri,” sagði Sigurður í samtali við DV en litli drengurinn slapp ómeiddur:

„Sprungan var mjög þröng, svona um 30 sentímetrar og mjókkaði niður,” sagði hann.

Sigurður var á þessum tíma í björgunarsveitinni á Hellu og svo vel vildi til að hann sá um sigdeildina þar ásamt tveimur öðrum: 

„Ég setti reipi strax um mittið og gerði tvær tilraunir til að troða mér niður en það gekk ekki. Loks ákvað ég að fara með höfuðið á undan og það dugði.”

Samkvæmt frétt DV var móðirin á staðnum, sem aðstoðaði Sigurð:

- Auglýsing -

„Móðir drengsins stóð á sprungubrún og hélt um reipið ásamt annarri konu og manni er var á ferðalagi þarna um. Faðir drengsins og verkstjóri í Lóranstöðinni voru á meðan að útbúa áhald til að krækja í drenginn en ekki var reiknað með að neinn kæmist niður að honum.‘‘

Björgunin gekk vel fyrir sig, en Sigurður þurfti að draga djúpt andann til þess að komast niður í sprunguna:

„Síðasti spölurinn að drengnum var svo þröngur að ég varð að draga andann djúpt og mjaka mér áfram.”

- Auglýsing -

Niðri beið drengurinn með höfuðið upp og bergið þéttingsfast að brjósti sér: 

„Drengurinn hágrét allan tímann, hann róaðist samt örlítið er ég spjallaði við hann, sagði honum að vera rólegum, þetta myndi allt bjargast.”

Er Sigurður náði taki i hönd drengsins kippti hann vel í, svo fastur var drengurinn: 

„Hann losnaði og ég náði í báðar hendurnar. Við vorum síðan dregnir upp.”

Móðir drengsins, Sólrún Jónsdóttir, sagði í samtali við DV að þau hafi setið og notið veðurblíðunnar þegar hún, og faðir drengsins sáu hann skyndilega detta niður:

,,Við vorum alveg grandalaus, höfðum ekki hugmynd um sprunguna,” sagði hún en atvikið átti sér stað á Öndverðarnesi við Snæfellsnes.

Faðir drengsins reyndi sjálfur að fara ofan í sprunguna en fór og leitaði hjálpar þegar það gekk ekki. Litli drengurinn komst ómeiddur upp úr sprungunni og var orðinn hress og kátur þegar DV ræddi við móðurina:

„Einu meiðsl hans voru smá skrámur í andliti,” sagði hún að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -