Mánudagur 6. maí, 2024
3.8 C
Reykjavik

Hópur ferðalanga hætt kominn í miðri á: „Eins og að horfa á sökkvandi skip“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hópur ferðamanna frá Austurríki lentu í svaðilförum á rútu sinni á ferð sinni yfir Lindaá, austan Herðubreiðarlinda í ágúst árið 2000.

Litlu mátti muna að ekki færi hryllilega illa þegar 12 manna hópur austurrískra ferðamanna, einn leiðsögumaður og bílstjóri er rúta þeirra festist í Lindaá í ágúst árið 2000. Tveir farþeganna og bílstjórinn náðu að synda í land en restin hýrðist upp á þaki rútunnar sem sökk smá saman ofan í beljandi ánna. Elsti ferðalangurinn var kona á níræðisaldri. Þremur tímum eftir að rútan festist var fólkinu bjargað af björgunarsveitum en engum varð alvarlega meint af en landvörður var meðal þeirra sem hætt var kominn en báti sem hann kom á í tilraun sinni til að bjarga fólkinu valt og féll hann í ána en komst svo að rútunni.

DV fjallaði ítarlega um slysið á sínum tíma en hér fyrir neðan má lesa gömlu fréttina:

Sigursteinn Baldursson kom fyrstur Íslendinga á slysstað eftir að rútan fór út í Lindaá:

Rútan var sem sökkvandi skip – fólkið stóð í vatni á toppi bílsins – þeim síðustu bjargað á elleftu stundu


„Ég vaknaði um hádegisbilið inni í skála þegar erlendur ferðamaður kom í mikiili geðshræringu og sagði að eitthvað væri að í ánni. Við vissum ekki hvað það var en lögðum af stað á fjórum jeppum. Þegar við komum á staðinn ætlaði ég ekki að trúa mínum eigin augum. Ég vissi að eitthvað var að en ekkert þessu likt,“ sagði Sigursteinn Baldursson, ritstjóri Ferðir.is, sem varð fyrstur á vettvang á slysstað við Lindaá, austan Herðubreiðarlinda, eftir að erlendur ferðamaður á reiðhjóli hafði fyrst komið í skála Ferðafélags Íslands og tilkynnt um rútuslysið. Ferðamaðurinn hafði hjólað allt hvað af tók til að láta vita, um 7 kílómetra leið. Sigursteinn var í skálanum ásamt nokkrum landvörðum frá öðrum stöðum á landinu sem höfðu verið að „halda jól“ eins og það var orðað í hópnum.

Mér brá illa – landvörður hætt kominn

- Auglýsing -

„Mér brá illa þegar ég sá fólkið uppi á rútunni úti í ánni. Rútan, sem stóð á hjólunum, var komin utan í klöpp. Það var enginn vegur að komast að fólkinu frá landi,“ sagði Sigursteinn. Hann sagði að Kári Kristjánsson, landvörður í Hvannalindum, og Elísabet Kristjánsdóttir, landvörður í Öskju og Herðubreiðarlindum, hefðu tekið fram tveggja manna gúmmíbát og komist við illan leik út að rútunni. „Þegar þau nálguðust rútuna hvolfdi bátnum og Kári fór í ána með straumnum en rétt náði að komast upp á rútuna. Hann var hætt kominn,“ sagði Sigursteinn. „Síðan var þetta eins og að horfa á sökkvandi skip. Þegar tíminn leið grófst æ meira undan rútunni. Þetta var farið að líta illa út. Við margreyndum að kasta böndum yfir til fólksins en það bar engan árangur. Öflugur bátur eða þyrla var eina leiðin til að bjarga þeim sem stóðu þarna uppi á toppi rútunnar. Það var hræðilegt að sjá hvernig vatnið braut á efri hluta framenda bílsins. Áður en björgunarsveitimar komu á vettvang var fólkið allt orðið umlukið vatni,“ sagði Sigursteinn.

Létu fólkið syngja og klappa

- Auglýsing -

Sigursteinn sagði að Kári og Elísabet hefðu greinilega látið þýsku ferðamennina klappa og syngja til að missa ekki kjarkinn. „Fólkið var búið að þjappa sér saman efst á rútutoppnum. Einn maður stóð aftan á, ofan á varahjólinu. Við vorum í geðshræringu að fylgjast með þessu öllu úr landi. Þetta var eins og að hafa á tilfinningunni að vera staddur nokkra metra frá fólki sem er í mikilli lífshættu án þess að geta nokkuð gert,“ sagði Sigursteinn. Sigursteinn sagði að þegar björgunarsveitarmenn hefðu komið á vettvang hefðu menn haft mjög snör handtök, svo ekki sé meira sagt. Gúmmíbátur með mótor hefði verið tekinn fram og menn rennt sér mjög faglega að rútunni og tekið mið af straumnum. Hófu menn þá að selflytja ferðamennina í land. Sigursteini taldist til að björgunarmenn hefðu farið fimm ferðir með fólkið áður en allir voru komnir á þurrt, flestir blautir og mjög kaldir. TF-LÍF, stærri þyrla Landhelgisgæslunnar, kom á vettvang þegar búið var að bjarga öllum nema fimm í land. Var ákveðið að hún yrði í hangflugi yfir staðnum og biði átekta enda gekk björgunarstarf bjargvætta úr landi mjög vel fyrir sig. Sigursteinn telur að innan við hálftími hafi liðið frá því að þeir fyrstu fóru í land þangað til allir voru hólpnir. „Þessir björgunarmenn eiga mikið hrós skilið enda mátti engu muna að rútan væri komin á kaf þegar þeir síðustu fóru í land,“ sagði Sigursteinn Baldursson. „Þetta var mesti spennutryllir sem ég hef upplifað.“

 

Kona á níræðisaldri meðal farþeganna

„Þetta er allt í lagi. Við erum heil á húfi,“ sagði einn Austurríkismannanna sem komið var með til Húsavíkur eftir miklar mannraunir þar sem rúta þeirra lenti á kafi á mótum Lindaár og Jökulsár á Fjöllum skömmu fyrir hádegi i gær. Fólkið klifraði upp á þak rútunnar en bílstjóranum og tveim farþegum tókst að synda í land. Landverðir komu fólkinu til aðstoðar klukkutíma síðar og þremur tímum eftir að rútan festist í ánni komu björgunarsveitir á vettvang. Tólf austurrískir ferðamenn, einn leiðsögumaður, bílstjóri rútunnar og tveir landverðir voru fluttir á sjúkrahúsið á Húsavík til eftirlits í gær, ýmist með þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-LÍF eða með bílum. „Þetta var töluvert mikil björgun, en aðalatriðið er að allir sluppu heilir og við vorum að koma með átta hingað til Húsavíkur á björgunarsveitarbílnum,“ sagði Friðrik Jónsson, björgunarsveitarmaður úr björgunarsveitinni Þingey á Húsavík, er hann var að bera teppi og annað sem notað var við að bjarga fólkinu úr Jökulsá á Fjöllum út í björgunarsveitarbílinn. „Þetta tókst vel, það björguðust allir,“ sögðu hressir björgunarsveitamenn þegar komið var með hrakta, kalda og blauta ferðamennina á sjúkrahúsið á Húsavík í gærkvöldi. „Þetta hefur haft töluverð áhrif á sumt af fólkinu,“ sagði læknir á sjúkrahúsinu á Húsavík í samtali við DV í gær. Ein 84 ára gömul kona, aldursforsetinn í hópnum, gisti á sjúkrahúsinu á Húsavík í nótt en var útskrifuð í morgun. Hitt fólkið gisti á hóteli á Húsavík í nótt og var fatnaður þess hreinsaður og þurrkaður í nótt. Fólkið mun samkvæmt heimildum DV ákveða í dag hvort það ætlar að halda áfram ferðinni.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -