Laugardagur 20. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Hugleikur á barmi gjaldþrots: „Það sem er fast í hendi núna er rekstur í hálft ár“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Áhugaleikhúsið Hugleikur stendur frammi fyrir miklum erfiðleikum eftir að Reykjavíkurborg synjaði þeim um styrk í ár en það er í fyrsta sinn síðan Hugleikur byrjaði að sækja um styrki til borgarinnar, sem synjun berst. Eins og staðan er núna getur leikfélagið rótgróna starfað í hálft ár í viðbót.

Hugleikur er eitt þekktasta áhugaleikhús landsins en það var stofnað í Reykjavík árið 1984. Leikfélagið hefur þá sérstöðu meðal íslenskra leikfélaga að leikverkin sem það hefur haft til sýninga eru nær öll samin af meðlimum hópsins. Auk leiksýninga hefur Hugleikur einnig staðið fyrir fjöldi námskeiða á sviði leiklistar frá stofnun. Fjöldi meðlima er nokkuð á reiki enda félagatal í leikfélögum oft nokkuð fljótandi, fólk kemur og fer en í Facebook hóp Hugleiks eru um 200 manns. Má segja að Hugleikur hafi í gegnum tíðina verið einhverskonar útungunarstöð fyrir leikara og starfsmenn atvinnuleikhúsanna en nefna má til dæmis Þuríði Blæ Jóhannsdóttur, sem steig sín fyrstu skref hjá leikfélaginu en er nú ein dáðasta leikkona landsins af yngri kynslóðinni. Þá hafa nokkrir meðlimir Ljótu hálfvitanna verið viðriðnir Hugleik sem og Flosi Þorgeirsson, gítarleikari Ham, svo einhverjir séu nefndir.

Úr Gestagangi eftir Þórunni Guðmundsdóttur
Ljósmynd: Jón Örn Bergsson

 

Mannlíf talaði við formann Hugleiks, Þórarinn Stefánsson eða Tóró eins og hann er kallaður. „Já, við erum í smá brasi. Eins og þú veist er félagið rótgróið en það verður 40 ára eftir tvö ár. Fyrstu árin var félagið svona að redda sér og borgin var liðleg að hjálpa okkur að komast inn í húsnæði hér og þar. Um það leyti sem ég kem inn í félagið, árið 2003, kaupir félagið húsnæði út á Eyjaslóð sem varð svona fastapunktur í starfseminni. Á þeim tíma, árið 2004 vorum við með samstarfssamning við borgina, við gátum sem sagt treyst því að fá styrk frá borginni í nokkur ár og í staðinn skuldbundum við okkur að vera með leiksýningar og stuttverkadagskrá. Síðan í kringum Hrunið breytist þetta þannig að borgin er með menningarstyrki sem allir sækja um og það fer í eitthvað ferli. Þar höfum við yfirleitt fengið styrki, þegar við sækjum um en upphæðin hefur smá saman lækkað, ef við lítum á þetta útfrá vísitölutengingu. En aftur á móti er félagið orðið fjárhagslegra stöndugra á þessu augnabliki, sérstaklega eftir að við fluttum á Langholtsveginn. Reksturinn á því húsnæði er talsvert ódýrari en það var á Eyjaslóð en kosnaðurinn í rekstrinum. Það er svolítið írónískt að langstærsti parturinn í því eru gjöld til borgarinnar. Lauslega er það svona milljón á ári sem húsnæðið kostar og um helmingurinn af því er fasteignagjöld til borgarinnar. Upp á síðkastið hafa styrkirnir ekki náð að dekka það.“

Í ár fékk svo Hugleikur neitun um styrk frá borginni eins og segir frá hér að ofan.

„Við höfum sem sagt getað reitt okkur á styrki frá borginni en það virðist ekki vera lengur og það eru ákveðin vonbrigði. Maður fær það svolítið á tilfinninguna að áhugastimpillinn sé að flækjast fyrir okkur núna því að eitt af því sem var nefnt í rökstuðningi fyrir úthlutun í ár var það að nú ætti að leggja áherslu á að styrkja verkefni sem greiddu laun til listamanna. Það virðist sem faghópurinn sem úthlutar styrkjunum sé að horfa meira til atvinnuleikhúsanna,“ sagði Tóró en í framhaldi af synjuninni, sendi stjórn Hugleiks bréf á borgina. „Við sendum aðra umsókn eftir synjunina og vorum þar að vísa í gamla sáttarsamninginn á milli Hugleiks og borgarinnar og óskuðum eftir því að fá eitthvað sambærilegt. En svarið var í stuttu máli það að ferlið fer bara í gegnum fagráðið og því verður ekki breytt. Við vorum hvött til að sækja um á næsta ári en það er auðvitað ekkert fast í hendi með það.“

- Auglýsing -
Úr sýningunni Gestagangur eftir Þórunni Guðmundsdóttur
Ljósmynd: Jón Örn Bergsson

Þannig að staðan er slæm núna? „Já, sko við vorum að klára að sýna Gestagang þegar Covid skellur á, sem er flottasta sýning sem við höfum haft lengi og sú sýning hefur verið að halda okkur á floti á Covid-tímanum. En það fer að klárast bráðum en við erum að vonast til að fá einhverja verkefnastyrki í sumar fyrir það sem við gerðum í vetur, frá Bandalagi íslenskra leikfélaga. En það er bara fyrir stuttverk, höfum ekki þorað að taka áhættuna með stærri verk.“

En myndu BÍL styrkirnir dekka árið? „Við bara vitum það ekki, þetta er svona pottur og það fer eftir því hvað mörg leikfélög sækja um, hvað hvert þeirra fær í sinn hlut. Við höfum verið eins og flest önnur áhugafélög, verið lengi að koma okkur aftur í gang eftir Covid og dagskráin ekki verið jafn mikil og við hefðum viljað en vonumst til að sýna meira í maí,“ sagði Tóró og bætti við að lokum: „Við getum sagt að það sem er fast í hendi núna er rekstur í hálft ár.“

Þau sem vilja styrkja þetta frábæra leikhús er bent á bankareikning Hugleiks: Reikningsnúmer Hugleiks er 327-26-9292 og kennitala: 691184-0729

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -