Þriðjudagur 3. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Húsfrú fékk nærri taugaáfall er hún sá Mick Jagger í eldhúsglugganum: „Hélt ég væri orðin brjáluð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einn góðan ágústmorgun árið 1999 vaknaði ísfirska húsmóðirin Halla Margrét Ólafsdóttir, nuddaði úr sér stírunum og gekk að eldhúsglugganum og gerði sig líkalega til að gá til veðurs. Ekkert veður sá hún en andlitið á Mick Jagger, söngvara Rolling Stones blasti hinsvegar við henni í staðinn. Fékk hún nærri taugaáfall við sjónina og rak upp skaðræðisöskur. Þegar hún hafði náð að róa sig niður fór hún út og fékk eiginhandaráritun frá goðsögninni. Þetta var extra góður ágústmorgun hjá Ísfirðingum.

Sagt er svo frá þessari óvæntu heimsókn Jaggers í DV:

Mick Jagger heimsótti Vestfirði um helgina:
Öskraði þegar Jagger var við eldhúsgluggann

„Ég er í fríi að hvíla mig og nota tækifærið til að líta smávegis í kringum mig,“ sagði Mick Jagger, aðalsprauta Rolling Stones, í samtali við DV á bryggjunni við Sundahöfn á ísafirði á sunnudag. Jagger, sem um þessar mundir stendur í erfiðu skilnaðarmáli við Jerry Hall, hélt til um borð í Amazon Express, einkasnekkju ítalsks vinar síns, en brá sér í land snemma á sunnudagsmorguninn og hjólaði um bæinn án þess að fólk veitti honum framan af sérstaka eftirtekt. Mick Jagger notaði daginn til að skoða sig um á Ísafirði. Hann skoðaði sjóminjasafnið í Neðstakaupstað og snæddi á veitingastað í Tjöruhúsinu og bragðaði á hákarli án þess að láta í ljós sérstaka velþóknun á þeim þjóðarrétti Íslendinga. Nokkrir báru kennsl á þennan frægasta rokksöngvara heims og þá spurðist fljótt út að hann væri á svæðinu. Það safnaðist nokkur hópur að honum og vildi ræða við kappann og fá eiginhandaráritanir. Jagger tók öllu slíku vel og áritaði á báða bóga og ræddi við Vestfirðinga. Hann lék á als oddi og spjallaði við fólk um heima og geima.

Húsmóðir í miðbæ Ísafjarðar fékk næstum taugaáfall þegar hún nývöknuð leit til veðurs út um eldhúsgluggann og sá þá framan í Mick Jagger. „Ég hélt ég væri orðin brjáluð þegar það fyrsta sem ég sá var andlit Micks Jaggers. Ég var að sötra teið mitt og þegar ég áttaði
mig á því hver þetta var öskraði ég svo hátt að ég fékk verk í hálsinn. Þetta var alveg ótrúlegt og raunar út i hött,“ sagði Halla Margrét Óskarsdóttir við DV. Hún nældi sér siðan í eiginhandaráritun Jaggers og ræddi stuttlega við hann. „Ég sagði honum að sonur minn
væri gítarleikari að reyna að fóta sig i London og hann vildi vita hvað hann héti. Það var stórkostlegt að eiga kost á að tala við hann,“ sagði Halla Margrét.

„Ó, guð, ég þvæ mér ekki um hendurnar næstu dagana,“ sagði táningsstúlka sem rokkarinn tók í höndina á. Sveinn Þormóðsson, ijósmyndari DV, rifjaði upp fyrir Jagger að þeir hefðu hist í Liverpool árið 1964 þegar þeir gistu á sama hóteli þegar Sveinn fylgdi KR-liðinu sem keppti við Liverpool. Hann fór eitt sinn inn á herbegi til Stones í boði þeirra og spjallaði við þá drykklanga stund. Jagger virtist hálfundrandi að hitta Íslending sem hefði hitt hann svo mörgum áratugum fyrr. Hann heilsaði Sveini með handabandi og sagði skemmtilegt að þeir skyldu hittast.

- Auglýsing -

 

Jagger gefur eiginhandaráritanir
Ljósmynd: DV-S

Þegar DV innti hann eftir íslandsheimsókn Rolling Stones sem aldrei varð og benti honum á að Íslendingar hefðu beðið hans og Rollinganna í tvö ár sagðist hann vera undrandi. Hann
sagði tónleika á Íslandi aðeins hafa verið á umræðustigi en engin ákvörðum verið tekin um að halda þá. „Er það virkilega? Áttuð þið von á að við kæmum?“ svaraði hann og hló. Mick Jagger kom fljúgandi til Íslands á laugardag og síðan flaug hann til Hólmavíkur þangað sem snekkjan sótti hann. Hann sagðist í samtali við DV mjög ánægður með það sem hann hefði séð af Íslandi fyrir þoku sem náði niður í miðjar hlíðar í gær. „Þetta virðist hið fegursta land en þokan setur þó strik í reikninginn. Fólkið er yndislegt og þetta virðist vera yndislegur staður,“ sagði hann og stökk um borð í bátinn sem flutti hann um borð í snekkjuna á Pollinum á Skutulsfirði. Ekki varð úr því að Jagger færi á pöbbarölt svo sem til hafði staðið og létti snekkjan akkerum um klukkan 3 aðfaranótt mánudags.

Enn eiga öldungarnir í Rolling Stones eftir að halda tónleika hér á landi en miðað við langlífi þeirra er enn von, að minnsta kosti næstu 10-15 árin á að giska.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -