Verkfall Eflingar hefur víða áhrif í samfélaginu eins og gengur og gerist með verkföll. Farþegar sem koma til landsins í gegnum pakkaferðir Icelandair Holidays, hafa að undanförnu fengið póst þar sem þeim er tilkynnt að bókin þeirra falli niður, af völdum verkfallsins.
Að sögn Guðna Sigurðssonar, fjölmiðlafulltrúa hjá Icelandair er um að ræða sérstakar pakakferðir þar sem fólk bókar bæði flug og gistingu á hótelum. Sagði Guðni í samtali við Mannlíf að aðeins lítið brot af heildarviðskiptavinum flugfélagsins urðu fyrir þessum áþægindum. Sagði hann að ástæðan væri sú að ekki væri hægt að treysta því að hótelgistingin stæði og að hægt væri að finna sambærilega gistingu í staðinn. Öll venjuleg áætlunarflug standa.
Eftirfarandi texta sendi Guðni á Mannlíf og aðra fjölmiðla:
„Verkfallið hefur ekki haft áhrif á flugáætlun Icelandair og við áætlum að svo muni ekki verða í fyrirsjáanlegri framtíð. Í nokkrum tilfellum hefur þurft að aflýsa pakkaferðum á vegum Icelandair Holidays til Íslands, ef gisting á einu af þeim hótelum í Reykjavík sem hafa orðið fyrir áhrifum verkfallsins er innifalin og ekki hefur tekist að tryggja sambærilega gistingu. Umfangið á þessu er ekki mikið í heildarsamhengi hlutanna.“