Miðvikudagur 1. maí, 2024
7.1 C
Reykjavik

Íslensk stúlka í skóla þar sem vopnaður maður tók börn í gíslingu: „Það byrjuðu margir að gráta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heimurinn stóð á öndinni 13. maí árið 1993, þegar atvinnulaus og þunglyndur tölvunarfræðingur æddi inn í dagheimili í útjaðri Parísar og tók þar börn og fóstrur þeirra í gíslingu. Íslensk stúlka stundaði nám í skólanum.

Érick Schmitt, var vopnaður neyðarbyssu og sprengjuefni sem hann hafði vafið utan um sig. Fljótlega eftir að hann réðist inn á dagheimilið, sleppti hann 15 börnum en hélt eftir sex börnum, flestum þriggja ára, og kennara þeirra. Krafðist maðurinn 1,2 milljarða íslenskra króna.

Schmitt

Í fyrri frétt DV af málinu þann 14. maí, en þá stóð gíslatakan enn yfir, hljóðaði eftirfarandi:

Vopnaður maður réðst inn á dagheimili í Frakklandi:

Sex ung börn enn í gíslingu

Hettuklæddur og vopnaður maður réðst inn á dagheimili i Neuilly, útborg Parísar, í gærmorgun. Þegar síðast fréttist, snemma í morgun, hafði maðurinn nýlega sleppt einu barninu en hélt ennþá sem gíslum sex börnum, flestum þriggja ára, og fóstrunni. Áður hafði hann látið laus 14 önnur börn. Lögreglan hefur umkringt bygginguna, en yfirvöld reyna að semja við manninn sem krefst 100 milljóna franka í lausnargjald eða tæplega 1,2 milljarða ísl. kr. Foreldrar barnanna bíða milli vonar og ótta í nágrenninu. Að sögn frönsku lögreglunnar er maðurinn á fertugsaldri og mjög rólegur. Hann mun hafa tilkynnt að hann væri með sprengiefni bundið utan á líkamann, en yfirvöld vita ekki hvort byssa mannsins eða sprengiefnið er ekta. Lögreglan hættir ekki á neitt og ætlar ekki að reyna að beita valdi til að fá manninn til að gefast upp. Innanríkisráðherra Frakklands, Charles Pasqua, hélt skyndifund um málið seint í gærkvöldi en öll franska þjóðin fylgist nú grannt með atburði þessum. í gærkvöldi voru sængur og svefnpokar borin inn á barnaheimilið, einnig matur. Að sögn móður eins barnsins munu börnin hafa sofið í nótt. „Ástandið er mjög rólegt. Börnunum hefur aldrei verið hótað. Samningaviðræður standa yfir milli byssumannsins og yfirvalda,“ sagði Charles-Noel Hardy, fulltrúi stjórnvalda í Neuilly. Fréttamaður hjá TFl sjónvarpsstöðinni, sem hafði fengið að fara inn á barnaheimilið í gærkvöldi að ósk byssumannsins, sagði að maðurinn hefði virst sérstaklega rólegur og að börnin hefðu leikið sér eins og börn á þeirra aldri gera. Fóstran hefði séð til þess að börnin hefðu nóg fyrir stafni.

Á baksíðu DV kom svo önnur frétt um gíslatökuna en þar var upplýst að íslensk stúlka að nafni Pauline, væri nemandi við skólann. Móðir hennar, Margrét Benediktsdóttir bjó í úthverfi Parísar. Rætt var við systur Paulinu, hina 18 ára Charlotte Laubari, sem sagðist hafa heyrt af gíslatökunni í útvarpinu. Systir hennar, hin 11 ára Pauline sagðist hafa verið í frímínútum þegar kennararnir tilkynntu um ástandið. Foreldrar hennar sóttu hana um leið og þau heyrðu af málinu. Gíslatökumaðurinn var að lokum skotinn þremur skotum í hausinn af stuttu færi en hann hafði sofnað og höfðu börnin og kennarinn komið sér út  en sérsveit frönsku lögreglunnar sögðu manninn hafa vaknað og teygt sig í sprengjurofann, því hafi þeir þurft að drepa hann. Engan annan sakaði.

Hér má lesa frétt DV um tengsl málsins við Ísland:

Íslensk stúlka í gíslatökuskólanum

— í frímínútum þegar tilkynnt var um mannrán

„Pabbi hringdi mjög æstur klukkan hefur í gærmorgun og sagðist hafa heyrt um það í útvarpinu að það væri mannrán í skólanum hennar Pauline, systur minnar. Móðir mín var þá að versla,“ sagði Charlotte Laubari, 18 ára dóttir Margrétar Benediktsdóttur sem búsett er í úthverfi París. Pauline, 11 ára dóttir Margrétar, gengur í sama skóla og skóladagheimilið er í Neuilly i úthverfi Parísar, þar sem börnum hefur verið haldið í gíslingu í á annan sólarhring. Ekki náðist í Margréti í morgun en Pauline dóttir hennar sagði að hún hefði verið í frímínútum í gær þegar kennararnir tilkynntu börnunum hvað væri að gerast. „Okkur var sagt að halda kyrru fyrir. Það byrjuðu margir að gráta því börnin vita hvað mannrán er,“ sagði stúlkan. Charlotte systir hennar sagði að foreldrar þeirra hefðu farið í skólann til að sækja Pauline jafnskjótt og fréttir bárust af gíslatökunni. Hún sagði að fyrst þegar móðir hennar fékk fregnir af gíslatökunni hefði hún vart trúað hvað væri að gerast. Þegar foreldrarnir komu að skólanum setti lögreglulið og fjölmiðlafólk svip sinn á nágrenni skólans. Eins og gefur að skilja þurfti Pauline ekki að fara í skólann í morgun. Þegar síðast fréttist í morgun hafði hinn vopnaði maður sem réðst inn á skóladagheimili í Neuilly ennþá sex börn í haldi svo og fóstra þeirra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -