Þingmaður Flokks fólksins, Jakob Frímann Magnússon, segir nú íhuga fyrir alvöru að gefa kosta á sér til embættis forseta Íslands.
Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon segir í samtali við mbl.is að hann sé alvarlega að íhuga forsetaframboð en að hann muni tilkynna ákvörðun sína á næstu dögum. Ákveði hann að bjóða sig fram bætist hann í hóp aragrúa fólks sem langar að flytja á Bessastaði en á fimmta tug manna eru nú að safna meðmælendum.
Jakob segist víða hafa fengið hvatningu. „Það er ótrúlegasta fólk úr ýmsum ólíkum áttum. Það var það reyndar fyrir átta árum líka,“ segir Jakob, aðspurður hverjir hafi komið að máli við hann.
Þingmaðurinn er staddur í útlöndum í augnablikinu en snýr heim á næstu dögum. Kveðst hann þá funda með stuðningsfólki sínu og ráðgjöfum. Einnig ætlar hann að ræða við þingflokk Flokks fólksins.
„Ég geri auðvitað ekkert án þess að ræða þetta almennilega við fólkið í kringum mig, fjölskylduna, þingflokkinn og aðra sem ég er í sambandi við.“