Fimmtudagur 16. maí, 2024
7.8 C
Reykjavik

Jón segir sögur rangar af válegu slysi þar sem skip fórst: „Við virðumst hafa verið ósjálfbjarga“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jón Ragnarsson, vélstjóri á skipinu Svani sem fórst í janúar árið 1969, segir sögusagnir af slysinu ekki gefa rétta mynd af því sem í raun og veru gerðist. Um borð í skipinu voru sex skipverjar og björguðust þeir allir. Jón handskrifaði sína upplifun á þessum örlagaríka degi, þegar 20 ár voru liðin frá slysinu.

Brot úr skrifum Jóns Ragnarssonar sem færð hafa verið á tölvutækt form.

 Svanur var 101 tonna stálskip sem smíðað var í Austur-Þýskalandi. Sjóferðin örlagaríka hófst að kvöldi til þann 28.janúar 1969 frá Súðavík.

„Við lögðum af stað í þessa sjóferð kl 20:20 þann 28.janúar 1969 en það var tíminn yfirleitt frá Súðavík. Þá var svokallaður róðratími hafður,“ skrifar Jón

Hann segir veðrið hafa verið fagurt en spáin lofaði ekki góðu. Stormspá var fyrir Vestfjarðarmið um morguninn 29.janúar.

Jón var ósáttur með frásagnir af slysinu, það hafi ekki verið talað við alla um borð heldur einungis Grétar Örnólfsson, skipstjóra skipsins. Hann nefnir bækurnar „Spaugsami vorfuglinn“ og „Þrautagóðir á raunastund“. Sú fyrrnefnda eru endurminningar Þrastar Sigtryggssonar sem þá var skipsherra á varðskipinu Þóri og var meðal þeirra sem björguðu skipverjum Svans. Sú síðarnefnda er samansafn sagna af björgunaraðgerðum á sjó, hún kom út í nítján bindum og var sagan af slysför Svans þar á meðal.

„Greinilegt var að engan var talað við nema Grétar skipstjóra og allt haft eftir honum. Nú vil ég taka það fram að ég ætla ekki að gera lítið úr hans hlut, en við vorum fimm með honum og við virðumst hafa verið ósjálfbjarga sbr. bók Þrastar skipherra. Þetta er aðeins brot af ósannindum sem eru í þessum greinum enda haft eftir einum manni og ætla ég ekki höfundum þess bóka svo slæmt að þeir segðu ósátt viljandi eða skálduðu upp þessar sögur en þeir hefðu mátt kynna sér málið betur og taka með alla skipbrotsmennina, þá hefði allt komið betur í ljós.“

- Auglýsing -

Hann segir Grétar og annan skipverja hafa lagst til svefns, hinir fjórir stóðu saman í stýrishúsinu. Þar sáu þeir að vindur og sjór fór versnandi. Illa sást út vegna ísingar og móðu á glugga.

„Þeir kölluðu „brot!“ og ég sló strax af og sneri upp í, brotið leið hjá. Skömmu síðar kalla þeir aftur en þeir eru ekki fyrr búnir að sleppa orðinu þegar það skellur á bátnum af ógurlegum krafti. Brotið hreinlega kastaði bátnum á hliðina og keyrði hann niður, ég setti á fulla ferð og ætlaði að keyra bátinn upp en þá sá ég að vélin var stopp. Allt gerist þetta á svipstundu og mér var hugsað að svona hafi þeir allir farið.“

Við fyrra brotur hafði kokkur skipsins, Þórður Sig, kastast aftur fyrir sig og slasast á öxl. Skipið lá á hliðinni, skipsverjarnir náðu að klifra út og upp á stýrishúsið. Grétar skipstjóri var þarna vaknaður og kominn fram, Jón minnir hann á neyðartalstöðina. Grétar rétti Jóni talstöðina og sendi hann umsvífalaust út neyðarkall. Jóni datt þá í hug að telja mennina en sá að einn þeirra vantaði. Kjartan, bróðir Jóns, var enn inni í bátnum. Jón skipaði Grétari að snúa við, sem hann gerði. Kjartan var aðeins 15 ára gamall en komst upp úr bátnum.

- Auglýsing -

Finnst mér Kjartan hafa sýnt ótrúlegan kjark og dugnað við að komast upp úr bátnum við þessar aðstæður. Það var óskemmtilegt að lenda í svona atviki vakandi en það hlýtur að vera martröð að vakna við þessar aðstæður í kolsvartamyrkri niðri í káetu.“

Mennirnir komust í gúmmíbátinn en veðrið var enn slæmt. Þakið á stýrishúsinu fauk af og lenti á björgunarbátnum sem varð til þess að hann lagðist niður. Annar gúmmíbátur var bundinn við skipshrakið og reyndu þeir að ná til hans. Það gekk erfiðlega.

„Á einni öldunni er Svanur lyftist festist ég undir ljóskastara sem var framan á brúnni og dróst í kaf. Mér fannst ég vera í óratíma í kafi en mér tókst að halda mér með fótunum í gúmmíbátinn og losa mig frá ljósinu.“

Jón á yngri árum.

Áfram héldu mennirnir að reyna að ná til heila gúmmíbátsins, á einum tímapunkti hékk yfir þeim bali fullur af lóðum. Að lokum náðu Grétar og Jón til gúmmíbátsins.

„Minnist ég þess að Grétar skipstjóri sagði við mig þegar við vorum komnir yfir í seinni bátinn „eigum við ekki að fara um borð í Svan og reyna að bjarga honum?.“ Ég sagði að hann mætti fara en ég færi ekki. Ekki bættu þessi orð traust mitt á honum, ég sá að hann hafði fengið áfall og lái honum það enginn“

Jón sendi út annað neyðarkall, hann fékk svar en það heyrðist dauft. Eftir nokkrar tilraunir kom í ljós að á hinni línunni voru skipsmenn Sólrúnar frá Bolungarvík.

„Ég spurði nú Grétar hvort hann vildi ekki taka við talstöðinni en hann neitaði því og bað mig um að vera með hana áfram, sem ég gerði. Ég hafði stöðugt samband við Sólrúnu.“

Hálfdán Einarsson, skipstjóri á Sólrúnu, lagði hart að sér við að finna mennina, sem hann að lokum gerði. Hann var við björgunarbátinn þar til varðskipið kæmi, það væri betur búið til að taka við þeim. Það tók varðskipið 20 mínútur að finna mennina.

„Ég sagði við strákana: „Við skulum láta Þórð fara fyrst vegna þess að hann er slasaður“ og var það samþykkt. Grétar var fyrsti maðurinn sem fór úr gúmmíbátnum og um borð í varðskipið, þó annað hafi verið talað um. Ég sagði við félaga minn: „Ég skal fara síðastur fyrst hann var fyrstur“ og gerði það. Ég fann að ég gæti ekki gengið vegna dofa í fótunum og vorum við allir orðnir þrekaðir af kulda.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -